Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Með Tabithu, eiginkonu minni, að boða trúna.

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Ég trúði ekki að Guð væri til

Ég trúði ekki að Guð væri til
  • FÆÐINGARÁR: 1974

  • FÖÐURLAND: AUSTUR-ÞÝSKALAND

  • FORSAGA: TRÚLAUS

FORTÍÐ MÍN

Ég fæddist í þorpi í Saxlandi sem tilheyrði áður Austur-Þýskalandi. Ég var alinn upp á hlýju og ástríku heimili og foreldrar mínir innrættu mér góð siðferðisgildi. Austur-Þýskaland var kommúnistaríki þannig að trúarbrögð skiptu litlu máli fyrir flesta íbúa Saxlands og ég trúði ekki að Guð væri til. Tvenns konar hugmyndafræði mótaði fyrstu 18 ár ævi minnar – trúleysi og kommúnismi.

Kommúnisminn höfðaði til mín vegna þess að mér líkaði sú hugmyndafræði að allir menn væru jafnir. Mér fannst líka að öllum eignum ætti að skipta jafnt á milli manna því að það myndi brúa gjána á milli ríkra og fátækra. Ég var því önnum kafinn í ungliðahreyfingu kommúnistaflokksins. Þegar ég var 14 ára vann ég löngum stundum að umhverfisverkefni með það markmið að endurvinna pappír. Bæjaryfirvöld í Aue, heimabæ mínum, heiðruðu mig vegna þess að þau voru svo ánægð með framtak mitt. Ég kynntist nokkrum af áhrifamestu stjórnmálamönnum landsins þrátt fyrir ungan aldur. Mér fannst ég stefna að góðum markmiðum og framtíðin var björt.

En dag einn hrundi veröld mín. Árið 1989 féll Berlínarmúrinn og kommúníska þjóðafylkingin liðaðist í sundur. Hvert áfallið dundi yfir á fætur öðru. Fljótlega komst ég að því að óréttlæti hafði viðgengist í Austur-Þýskalandi. Til dæmis hafði verið litið á fólk, sem ekki var hlynnt kommúnisma, sem annars flokks borgara. Hvernig gat það verið? Trúðum við ekki að allir menn væru jafnir? Var kommúnisminn bara blekking? Ég fylltist kvíða.

Ég breytti um stefnu og sneri mér að tónlist og listum. Ég gat stundað nám við tónlistarskóla með möguleika á að fara síðan í háskóla. Mig dreymdi um að ná langt sem tónlistarmaður. Ég sagði líka skilið við siðferðisgildin sem ég hafði lært sem barn. Ég hugsaði bara um að skemmta mér og var jafnvel með nokkrum stelpum á sama tíma. En tónlistin, listir og frjálsar ástir slógu ekki á kvíðann innra með mér. Myndirnar sem ég málaði endurspegluðu meira að segja sjúklegan ótta. Hvernig yrði framtíðin? Og hver var tilgangur lífsins?

Þegar ég fékk loksins svör við spurningum mínum varð ég furðu lostinn. Kvöld eitt sat ég með hópi nemenda í skólanum og við ræddum um framtíðina. Mandy, * sem var nemandi við skólann og vottur Jehóva, beindi mér í rétta átt þetta kvöld. Hún sagði: „Andreas, ef þig langar að fá svör við spurningum þínum um lífið og framtíðina skaltu kynna þér Biblíuna vel.“

Ég var bæði efins og forvitinn, en forvitnin var efanum yfirsterkari. Mandy sýndi mér kafla 2 í Daníelsbók og ég varð agndofa yfir því sem ég las. Þessi spádómur Biblíunnar greinir frá röð heimsvelda, ríkisstjórna sem myndu hafa mikil áhrif allt fram á okkar daga. Mandy sýndi mér fleiri biblíuspádóma sem eiga við framtíðina. Loksins fékk ég svör við spurningum mínum! En hver skrifaði þessa spádóma? Og hver gat sagt framtíðina fyrir af svo mikilli nákvæmni? Var Guð kannski til?

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

Mandy kom mér í samband við Horst og Angeliku. Þau hjónin eru vottar Jehóva og aðstoðuðu mig við að kynna mér Biblíuna betur. Ég komst fljótlega að því að Vottar Jehóva er eina trúfélagið sem notar nafn Guðs, Jehóva, og beinir athygli fólks að því að Guð eigi sér nafn. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls; Matteus 6:9) Ég lærði af Biblíunni að Jehóva Guð býður öllum mönnum að öðlast eilíft líf í paradís á jörð. Í Sálmi 37:9 segir: „Þeir sem vona á Drottin fá landið til eignar.“ Það höfðaði til mín að þessar framtíðarhorfur bjóðast öllum sem leitast við að hegða sér í samræmi við frumreglurnar sem Guð lét skrá í Biblíuna.

Það reyndist mér hins vegar þrautin þyngri að hegða mér í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar. Mér gekk vel sem tónlistarmanni og það gerði mig stoltan. Ég þurfti því að byrja á að temja mér auðmýkt. Það var heldur ekki auðvelt að láta af siðlausu líferni. Ég er Jehóva afar þakklátur fyrir að hann skuli sýna þeim þolinmæði, miskunn og skilning sem reyna eftir fremsta megni að fylgja því sem Biblían kennir.

Kommúnismi og trúleysi mótuðu fyrstu 18 ár ævi minnar. En alla tíð síðan hefur Biblían verið að móta mig. Það sem ég lærði batt enda á kvíðann fyrir framtíðinni og gaf mér tilgang í lífinu. Árið 1993 lét ég skírast sem vottur Jehóva og árið 2000 kvæntist ég Tabithu, ötulli trúsystur minni. Við verjum eins miklum tíma og við getum í að aðstoða aðra við að kynna sér Biblíuna. Við hittum marga sem hafa alist upp við kommúnisma og trúleysi líkt og ég. Það veitir mér mikla ánægju að hjálpa þeim að kynnast Jehóva Guði.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

Þegar ég fór að umgangast votta Jehóva urðu foreldrar mínir mjög áhyggjufullir. En þau hafa séð hve góð áhrif það hefur haft á mig að kynnast vottunum. Núna eru þau að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva og sækja samkomur – mér til mikillar gleði.

Við Tabitha eigum gott hjónaband vegna þess að við fylgjum eftir bestu getu ráðum Biblíunnar handa hjónum. Það styrkir til að mynda hjónaband okkar að fylgja ráðum Biblíunnar um tryggð. – Hebreabréfið 13:4.

Ég er ekki lengur kvíðinn og óttast ekki framtíðina. Ég á trúsystkin um allan heim og finnst ég tilheyra stórri fjölskyldu sem þjónar Guði í friði og einingu. Við lítum á hvert annað sem jafningja en það er nokkuð sem ég hef þráð alla tíð.

^ gr. 12 Nafninu er breytt.