Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | SARA

Guð kallaði hana „prinsessu“

Guð kallaði hana „prinsessu“

SARA réttir úr sér þar sem hún er að vinna og horfir í átt að sjóndeildarhringnum. Vinnufólkið er önnum kafið og starfar ánægt undir góðri leiðsögn hennar. Sara lætur ekki heldur sitt eftir liggja. Sjáðu hana fyrir þér þar sem hún stendur hugsi og nýr saman höndum til að losna við þreytuverkina. Kannski var hún niðursokkin í að sauma bót á tjaldið sem þau bjuggu í. Grófgert geitaskinnið er upplitað af áralöngum ágangi regns og sólar og minnir Söru á hversu lengi þau hafa lifað hirðingjalífi. Sólin er farin að lækka á lofti og kastar gylltum bjarma yfir landið. Sara hafði fylgst með Abraham * fara um morguninn og horfir eftirvæntingarfull í sömu átt og hún sá hann fara. Þegar hún sér manninn sinn koma yfir hæðina færist bros yfir fagurt andlitið.

Tíu ár voru liðin frá því að Abraham hafði leitt fólk sitt yfir Efratfljótið og inn í Kanaansland. Sara hafði stutt mann sinn dyggilega á þessu mikla ferðalagi um ókunnar slóðir því að hún vissi að hann gegndi veigamiklu hlutverki í fyrirætlun Jehóva Guðs. Af honum átti að koma þjóð og niðji sem Jehóva hefði sérstaka velþóknun á. En hvert var hlutverk Söru? Hún gat ekki átt börn og var nú orðin 75 ára. Hún gæti vel hafa velt fyrir sér hvernig loforð Jehóva gætu ræst fyrst hún var eiginkona Abrahams. Það væri vel skiljanlegt að hún væri áhyggjufull eða jafnvel óþolinmóð.

Stundum gætum við einnig velt fyrir okkur hvenær loforð Jehóva munu rætast. Það getur verið erfitt fyrir okkur að vera þolinmóð, sérstaklega þegar við bíðum eftir einhverju full eftirvæntingar. Hvað getum við lært af trú þessarar einstöku konu?

,DROTTINN HEFUR MEINAÐ MÉR UM BARN‘

Fjölskyldan var nýlega komin til baka frá Egyptalandi. (1. Mósebók 13:1-4) Þau höfðu slegið upp tjaldbúðum á hálendinu austan við Betel, borgina sem Kanverjar kölluðu Lús. Frá hásléttunni gat Sara séð stóran hluta fyrirheitna landsins. Hún sá byggðir Kanverja og vegi sem lágu til fjarlægra landa. En þrátt fyrir þetta útsýni var ekkert sem jafnaðist á við heimaborg Söru. Hún hafði alist upp í borginni Úr í Mesópótamíu sem var í 1.900 kílómetra fjarlægð. Þar hafði hún sagt skilið við marga af ættingjum sínum, þægindin sem fylgdu því að búa í blómlegri borg með verslunum og mörkuðum auk þægilegs heimilis með traustu þaki og veggjum og ef til vill rennandi vatni. En ef við ímyndum okkur að Sara hafi hugsað með eftirsjá til heimahaganna þá þekkjum við ekki þessa guðræknu konu.

Taktu eftir hvað Páli postula var innblásið að skrifa um 2.000 árum síðar. Þar segir hann um trú Söru og Abrahams: „Hefðu [þau] haft í huga ættjörðina sem [þau] fóru frá, hefðu [þau] haft tíma til að snúa þangað aftur.“ (Hebreabréfið 11:8, 11, 15) Hvorki Sara né Abraham horfðu með söknuði til baka. Ef þau hefðu látið eftir sér að dvelja við slíkar hugsanir hefðu þau kannski ákveðið að snúa aftur heim til Úr. En þá hefðu þau misst af þeim einstæðu blessunum sem Jehóva ætlaði að veita þeim. Og þau hefðu vafalaust fallið í gleymskunnar dá í stað þess að vera milljónum manna góð fyrirmynd í trúfesti.

Í stað þess að líta til baka horfði Sara fram á veginn. Hún hélt áfram að styðja mann sinn hvar sem þau höfðu viðdvöl í landinu. Hún hjálpaði til við að taka niður tjöldin, ferðast með hjarðirnar og setja upp tjöldin á nýjum stað. Hún tókst líka á við frekari áskoranir og breytingar. Jehóva endurtók loforð sitt við Abraham – en enn þá var ekkert minnst á Söru. – 1. Mósebók 13:14-17; 15:5-7.

Að lokum fannst Söru tímabært að ræða við Abraham um áform sem hún hafði hugleitt um tíma. Sjáðu fyrir þér hvernig andlit hennar endurspeglar blendnar tilfinningar þegar hún segir við hann: „Sjá, Drottinn hefur meinað mér að eignast barn.“ Síðan leggur hún til að hann eignist börn með Hagar, ambátt hennar. Þú getur rétt ímyndað þér angist Söru þegar hún biður eiginmann sinn þessarar bónar. Okkur þætti þetta undarleg ósk nú á dögum en á þessum tíma var ekki óvanalegt að eiginmaður tæki sér aðra konu, eða hjákonu, í þeim tilgangi að eignast erfingja. * Hugsaði Sara kannski að þannig gæti fyrirætlun Guðs orðið að veruleika um að Abraham yrði ættfaðir heillar þjóðar? Að minnsta kosti var hún fús til að fórna miklu. Hvernig brást Abraham við? Í frásögunni segir að hann hafi ,farið að orðum Söru‘. – 1. Mósebók 16:1-3.

Gefur frásagan til kynna að Jehóva Guð hafi fengið Söru til að leggja þetta til? Nei. Tillaga hennar endurspeglar öllu heldur að hún sá málið einungis frá mannlegu sjónarhorni. Hún hélt að Guð hefði gert hana barnlausa og sá ekki fyrir sér að hann hefði annað í hyggju. Þótt lausn Söru ætti eftir að valda henni sjálfri þjáningum og erfiðleikum sýndi hún aðdáunarverða fórnfýsi. Sara er okkur góð fyrirmynd í heimi þar sem flestir setja sínar eigin langanir ofar öllu öðru. Ef við erum fús til að láta fyrirætlun Guðs ganga fyrir í lífi okkar líkjum við eftir trú Söru.

„VÍST HLÓSTU“

Það leið ekki langur tími þar til Hagar varð þunguð af barni Abrahams. Ef til vill taldi Hagar sig vera mikilvægari en Sara þar sem hún átti nú von á barni. Hún fyrirleit því húsmóður sína. Ímyndaðu þér hve mikil vonbrigði þetta voru fyrir Söru. Hún refsaði Hagar á einhvern ótilgreindan hátt með leyfi Abrahams og stuðningi Guðs. Hagar eignaðist síðan soninn Ísmael. (1. Mósebók 16:4-9, 16) Næst þegar frásagan segir að Sara og Abraham hafi fengið boðskap frá Guði var hún orðin 89 ára og hann 99 ára. Og hvílíkur boðskapur!

Jehóva endurtók loforð sitt um að hann myndi gefa Abraham, vini sínum, fjölda niðja. Guð breytti líka nafni hans. Fram að þessum tíma var hann þekktur undir nafninu Abram en Jehóva breytti því í Abraham sem þýðir „faðir fjölda“. Og í fyrsta sinn bendir Jehóva á hvernig Sara kemur inn í myndina. Hann breytti nafni hennar úr Saraí, sem hugsanlega þýðir „þrætugjörn“, í Sara, nafnið sem við þekkjum betur. En hvað merkir nafnið Sara? Það merkir „prinsessa“. Jehóva sagði Abraham af hverju hann valdi þetta nafn á þessa ástsælu konu: „Ég mun blessa hana og ég mun einnig gefa þér son með henni. Ég mun blessa hana og hún skal verða ættmóðir þjóða. Þjóðkonungar munu af henni koma.“ – 1. Mósebók 17:5, 15, 16.

Sáttmáli Jehóva um að leiða fram niðja, sem myndi verða öllum þjóðum til blessunar, átti að uppfyllast í gegnum son Söru. Guð gaf drengnum nafnið Ísak sem þýðir „hlátur“. Þegar Jehóva sagði Abraham að hann ætlaði að blessa Söru og gefa henni barn „féll Abraham fram á ásjónu sína og hló“. (1. Mósebók 17:17) Hann var bæði hissa og himinlifandi. (Rómverjabréfið 4:19, 20) Hvernig brást Sara við?

Skömmu síðar komu þrír ókunnugir menn að tjaldi Abrahams. Þrátt fyrir miðdegishitann buðu þessi öldruðu hjón gestina strax velkomna. Abraham sagði við Söru: „Sæktu nú sem skjótast þrjá mæla af fínu mjöli. Hnoðaðu það og bakaðu flatkökur.“ Á þessum tíma kostaði gestrisni mikla vinnu. Abraham lét ekki eiginkonu sína eina um verkin heldur flýtti hann sér að slátra vænum kálfi og taka til annan mat og drykk. (1. Mósebók 18:1-8) Þessir „menn“ reyndust vera englar sendir af Jehóva Guði. Páll postuli hafði þennan atburð sennilega í huga þegar hann skrifaði: „Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita.“ (Hebreabréfið 13:2) Getur þú líkt eftir frábæru fordæmi Abrahams og Söru í gestrisni?

Sara var einstaklega gestrisin.

Þegar einn af englunum endurtók loforðið, sem Guð hafði gefið Abraham um að Sara myndi fæða son, var Sara var inni í tjaldinu og lagði við hlustir. Tilhugsunin um að hún myndi eignast son í hárri elli fannst henni svo óhugsandi að hún gat ekki annað en hlegið með sjálfri sér og sagt: „Skyldi ég njóta ásta sem orðin er útslitin og bóndi minn gamall?“ Engillinn leiðrétti Söru með beinskeyttri spurningu: „Er Drottni nokkuð ómáttugt?“ Sara varð skelkuð og fór í vörn, sem var ekkert óeðlilegt. Hún sagði án þess að hugsa: „Ég hló ekki.“ Engillinn svaraði: „Víst hlóstu.“ – 1. Mósebók 18:9-15.

Bar hlátur Söru vitni um að hana skorti trú? Alls ekki. Í Biblíunni segir: „Fyrir trú öðlaðist Sara kraft til að eignast son og þó var hún óbyrja og komin yfir aldur. Hún treysti þeim sem fyrirheitið hafði gefið.“ (Hebreabréfið 11:11, neðanmáls) Sara þekkti Jehóva Guð og vissi að hann gæti staðið við öll loforð sín. Ættum við ekki að taka trú hennar til fyrirmyndar og leggja okkur fram um að kynnast Jehóva Guði, höfundi Biblíunnar, betur? Þegar við gerum það skiljum við hvers vegna Sara hafði svona sterka trú. Jehóva Guð er sannarlega trúfastur og stendur við öll loforð sín. Og stundum gætu loforð hans ræst á svo stórkostlegan hátt að við hlæjum af undrun, líkt og Sara gerði.

„ÖLLU SEM SARA SEGIR SKALTU HLÝÐNAST“

Jehóva Guð launaði Söru einstaka trú hennar.

Þegar Sara var 90 ára gömul fékk hún loks að upplifa það sem hún hafði þráð alla tíð. Hún eignaðist son með manni sínum sem hún elskaði. Hann var nú orðinn hundrað ára gamall. Abraham gaf drengnum nafnið Ísak, sem þýðir „hlátur“, rétt eins og Guð hafði boðið honum. Við getum séð fyrir okkur þreytulegt en geislandi bros Söru þegar hún segir: „Guð hefur gefið mér hlátursefni. Hver sem heyrir þetta mun hlæja með mér.“ (1. Mósebók 21:6) Barnið, sem Jehóva gaf henni með kraftaverki, veitti henni örugglega mikla ánægju það sem eftir var ævinnar. En því fylgdi líka mikil ábyrgð.

Þegar Ísak var fimm ára hélt fjölskyldan veislu í tilefni af því að hann var vaninn af brjósti. En ekki var allt sem skyldi. Í frásögunni segir að Sara hafi tekið eftir ákveðnu vandamáli. Ísmael, 19 ára sonur Hagar, hafði gert það að vana sínum að hæðast að Ísak litla. Þetta var ekki bara saklaus stríðni. Páli postula var síðar innblásið að skrifa að Ísmael hafi ofsótt Ísak. Sara sá eineltið í réttu ljósi og vissi að það ógnaði velferð sonar hennar. Hún hafði ekki bara áhyggjur vegna þess að þetta var sonur hennar. Hún vissi að Ísak var ætlað að gegna mikilvægu hlutverki í fyrirætlun Jehóva. Sara hleypti því í sig kjarki og fór fram á við Abraham að hann sendi Hagar og Ísmael í burtu. – 1. Mósebók 21:8-10; Galatabréfið 4:22, 23, 29.

Hvernig brást Abraham við? Í frásögunni segir: „Abraham féllu þessi orð mjög þungt vegna sonar síns.“ Honum þótt vænt um Ísmael og föðurástin blindaði honum sýn. Jehóva sá aftur á móti hvernig málum var háttað og greip inn í. Frásagan heldur áfram: „Guð sagði við Abraham: ,Lát þér ekki falla þetta þungt vegna sveinsins og ambáttar þinnar. Öllu sem Sara segir skaltu hlýðnast því að afkomendur þínir munu kenndir verða við Ísak.‘“ Jehóva fullvissaði Abraham um að séð yrði fyrir Hagar og drengnum. Abraham var Guði trúr og gerði eins og honum var boðið. – 1. Mósebók 21:11-14.

Sara var Abraham trú eiginkona og þau unnu vel saman. Hún sagði eiginmanni sínum ekki bara það sem honum geðjaðist vel. Þegar hún varð vör við vandamál, sem gat skaðað fjölskylduna, ræddi hún opinskátt um það við eiginmann sinn. En þó að Sara væri hreinskilin sýndi hún Abraham aldrei óvirðingu. Pétur postuli, sem einnig var kvæntur, skrifaði síðar að hún væri afbragðsfyrirmynd um eiginkonu sem sýndi manni sínum djúpa virðingu. (1. Korintubréf 9:5; 1. Pétursbréf 3:5, 6) Ef Sara hefði þagað yfir þessu máli hefði hún í raun sýnt Abraham óvirðingu vegna þess að það hefði getað orðið bæði honum og allri fjölskyldunni dýrkeypt. Sara ræddi málin af hreinskilni en væntumþykju.

Margar eiginkonur fylgja góðu fordæmi Söru og ræða við eiginmenn sína af hreinskilni og virðingu. Kannski óska sumar eiginkonur þess stundum að Jehóva grípi inn í aðstæður þeirra eins og hann gerði hjá Söru. Hvað sem því líður er Sara þeim góð fyrirmynd í að sýna trú, ástúð og þolinmæði.

Jehóva kallaði Söru „prinsessu“ en hún ætlaðist ekki til að komið væri fram við sig eins og hún væri konungborin.

Þó að Jehóva hafi kallað þessa ástsælu konu „prinsessu“ ætlaðist hún ekki til að komið væri fram við sig eins og hún væri konungborin. Það er vel skiljanlegt að Abraham hafi ,harmað Söru og grátið hana‘ þegar hún lést 127 ára að aldri. * (1. Mósebók 23:1, 2) Hann saknaði sárlega sinnar heittelskuðu „prinsessu“. Án efa saknar Jehóva einnig þessarar trúföstu konu – og hann hefur í hyggju að reisa hana upp til lífs á ný í paradís á jörð. Söru bíður hamingjuríkt líf að eilífu – og allra þeirra sem líkja eftir trú hennar. – Jóhannes 5:28, 29.

^ gr. 3 Í þessari grein notum við til einföldunar nöfnin sem hjónin eru þekktust undir en þau hétu í raun Abram og Saraí þar til Guð breytti nöfnum þeirra.

^ gr. 10 Um tíma umbar Jehóva fjölkvæni og að menn ættu hjákonur en síðar gaf hann Jesú Kristi umboð til að koma aftur á einkvæni eins og var í upphafi mannkyns. – 1. Mósebók 2:24; Matteus 19:3-9.

^ gr. 25 Í innblásinni frásögu Biblíunnar er ekki sagt frá aldri neinnar konu þegar hún dó, nema Söru.