Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ég nýt þess að eiga félagsskap við unga fólkið í söfnuðinum.

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Hafnabolti átti hug minn og hjarta

Hafnabolti átti hug minn og hjarta
  • FÆÐINGARÁR: 1928

  • FÖÐURLAND: KOSTA RÍKA

  • FORSAGA: GAGNTEKINN AF ÍÞRÓTTUM OG FJÁRHÆTTUSPILUM

FORTÍÐ MÍN

Ég ólst upp í hafnarborginni Puerto Limón sem er á austurströnd Kosta Ríka. Ég var næstyngstur af átta systkinum. Pabbi lést þegar ég var átta ára gamall og mamma þurfti því að ala okkur upp ein.

Hafnabolti hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu. Ég hafði mjög gaman af því að leika hafnabolta þegar ég var lítill og fór að spila í áhugamannadeild þegar ég var unglingur. Ég var kominn yfir tvítugt og spilaði enn þá í áhugamannadeildinni þegar útsendari liðs bauð mér að gerast atvinnumaður í Níkaragva. En ég vildi ekki flytjast þangað þar sem ég þurfti að annast mömmu en hún var þá veik. Því hafnaði ég boðinu. Annar útsendari bauð mér síðar að spila fyrir landslið Kosta Ríka sem skipað var leikmönnum áhugamannadeilda. Ég tók því boði. Ég lék með landsliðinu frá 1949 til 1952 og spilaði marga leiki gegn Kúbu, Mexíkó og Níkaragva. Ég var vallarleikmaður og nokkuð góður. Mér tókst meira að segja að spila heila 17 leiki án þess að missa bolta eða mann fram hjá mér. Ég fann fyrir sælutilfinningu þegar aðdáendur kölluðu nafnið mitt.

Því miður verð ég að segja að ég lifði siðlausu lífi. Þótt ég ætti kærustu var ég oft með öðrum konum. Ég drakk líka mikið. Eitt kvöldið drakk ég svo mikið að þegar ég vaknaði morguninn eftir mundi ég ekki hvernig ég hafði komist heim. Ég stundaði líka fjárhættuspil og spilaði í happdrætti.

Á þessu tímabili skírðist mamma sem vottur Jehóva. Hún reyndi að vekja áhuga minn á trúnni en það gekk illa í fyrstu því ég var gagntekinn af íþróttinni. Ég fann ekki einu sinni til svengdar þegar ég var á vellinum á matmálstíma – slíkur var áhuginn. Leikurinn tók alla athyglina. Hafnabolti átti hug minn og hjarta.

Þegar ég var 29 ára varð ég fyrir alvarlegum meiðslum í leik við að reyna að grípa boltann. Eftir að hafa jafnað mig lagði ég hanskann á hilluna. Hafnabolti var þó enn hluti af lífi mínu og ég fór að þjálfa áhugamannalið á heimaslóðum.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

Árið 1957 þáði ég boð um að sækja mót Votta Jehóva sem var haldið á sama leikvangi og ég hafði spilað hafnabolta. Þegar ég sat í áhorfendastúkunni fór ég að hugsa hversu mikill munur var á vottunum og æstum áhorfendum hafnaboltaleikjanna. Það hafði djúpstæð áhrif á mig að sjá hversu vel vottarnir hegðuðu sér. Ég fór því að kynna mér Biblíuna og sækja samkomur hjá þeim.

Margt af því sem ég lærði í biblíunáminu fannst mér mjög merkilegt. Sem dæmi sagði Jesús að á síðustu dögum myndu lærisveinar hans boða fagnaðarerindið um ríki Guðs um allan heim. (Matteus 24:14) Ég komst líka að því að sannkristnir menn boða ekki trúna í hagnaðarskyni. „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té,“ sagði Jesús. – Matteus 10:8.

Í biblíunámi mínu bar ég saman breytni vottanna og það sem ég las í Biblíunni. Ég dáðist að þrautseigju þeirra við að breiða út fagnaðarerindið. Auk þess fannst mér þeir vera örlátir eins og Jesús hvatti fylgjendur sína til að vera. Þegar ég síðan las boð Jesú í Markúsi 10:21 um að fylgja honum langaði mig til að verða vottur.

Það tók mig þó töluverðan tíma að gera nauðsynlegar breytingar á lífi mínu. Í mörg ár hafði ég spilað í happdrætti í hverri viku með „happatölunum“ mínum. En ég lærði af Biblíunni að Guð fordæmir þá sem treysta á lukkuna og eru ásælnir. (Jesaja 65:11, Biblían 1981; Kólossubréfið 3:5) Ég ákvað því að hætta að stunda fjárhættuspil. Vikuna eftir að ég hætti að spila í happdrætti komu „happatölurnar“ mínar upp! Fólk gerði grín að mér fyrir að hafa ekki keypti miða þá vikuna og þrýsti á mig að taka aftur þátt en ég vildi það ekki. Ég tók ekki framar þátt í fjárhættuspilum.

Sama dag og ég lét skírast á móti Votta Jehóva reyndi á nýja persónuleikann sem ég var að tileinka mér. (Efesusbréfið 4:24) Þegar ég kom að hótelherberginu mínu um kvöldið stóð fyrrverandi kærasta mín við dyrnar. „Komdu Sammy, skemmtum okkur saman,“ sagði hún. „Nei!“ svaraði ég strax. Ég minnti hana á að núna færi ég eftir siðferðisreglum Biblíunnar. (1. Korintubréf 6:18) „Ha?“ sagði hún hneyksluð. Síðan gerði hún lítið úr siðferðismælikvarða Biblíunnar og fór fram á að við tækjum saman aftur. Ég fór hins vegar inn í herbergið mitt og læsti að mér. Ég er ánægður með að geta sagt að síðan ég gerðist vottur árið 1958 hef ég haldið mig trúfastlega við ákvörðunina sem ég tók um að breyta líferni mínu.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

Stundum finnst mér að ég gæti skrifað heila bók um allar þær blessanir sem ég hef hlotið fyrir að fylgja ráðleggingum Biblíunnar. Núna á ég marga sanna vini og hef fundið tilgang í lífinu og sanna hamingju.

Ég hef enn gaman af hafnabolta en gildismat mitt hefur breyst. Ég öðlaðist peninga og frægð með því að spila hafnabolta en það entist stutt. Samband mitt við Guð og trúsystkini mín varir hins vegar að eilífu. Biblían bendir á eftirfarandi: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Núna eiga Jehóva Guð og þjónar hans hug minn og hjarta.