Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Ég var fullur gremju og beitti aðra ofbeldi

Ég var fullur gremju og beitti aðra ofbeldi
  • FÆÐINGARÁR: 1974

  • FÖÐURLAND: MEXÍKÓ

  • FORSAGA; OFBELDISFULLUR UNGLINGUR OG SLAGSMÁLAHUNDUR

FORTÍÐ MÍN:

Ég er fæddur í Ciudad Mante sem er borg í fallegum hluta Tamaulipas-héraðs í Mexíkó. Þótt íbúarnir hafi almennt verið hið vænsta fólk var þetta því miður hættulegt svæði vegna skipulagðrar glæpastarfsemi.

Ég er næstelstur af fjórum bræðrum. Þegar ég var barn var ég skírður í kaþólsku kirkjunni og seinna söng ég í kirkjukórnum. Ég reyndi að þóknast Guði því að ég óttaðist að verða dæmdur til að brenna í helvíti að eilífu.

Þegar ég var fimm ára gamall yfirgaf pabbi okkur. Ég varð mjög sorgmæddur og fann fyrir tómleika innra með mér. Ég gat ekki skilið hvers vegna hann fór frá okkur þar sem okkur þótti svo innilega vænt um hann. Mamma varð að vinna langan vinnudag til að sjá fyrir okkur bræðrunum.

Ég nýtti mér aðstæðurnar og skrópaði í skólanum til að hanga með eldri krökkum. Þeir kenndu mér að blóta, reykja, stela og slást. Þar sem ég vildi þar að auki stjórna öðrum lærði ég að glíma, boxa og stunda bardagaíþróttir. Ég lærði líka að beita vopnum. Ég varð ofbeldisfullur unglingur og lenti oftar en einu sinni í skotbardaga. Nokkrum sinnum lá ég alblóðugur í götunni og var skilinn eftir nær dauða en lífi. Móðir mín kom að mér í slíku ásigkomulagi og þurfti að rjúka með mig á spítala. Þetta olli henni mikilli sorg.

Þegar ég var 16 ára bankaði Jorge, æskuvinur minn, upp á hjá okkur. Hann sagðist vera vottur Jehóva og að hann langaði til að færa okkur mikilvægan boðskap. Hann notaði Biblíuna þegar hann útskýrði trú sína fyrir okkur. Ég hafði aldrei lesið í henni og fannst áhugavert að sjá nafn Guðs þar og fræðast um fyrirætlanir hans. Jorge bauð okkur biblíunámskeið, sem við þáðum.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Það fylgdi því heilmikill léttir að komast að hinu sanna um helvíti – að Biblían kenni ekki að það sé til. (Sálmur 146:4; Prédikarinn 9:5) Eftir að ég skildi það hvarf lamandi óttinn við Guð. Ég fór að líta á hann sem elskuríkan föður sem vill það besta fyrir börnin sín.

Eftir því sem ég fékk betri skilning á Biblíunni fannst mér ég knúinn til að gera breytingar á sjálfum mér. Ég varð að tileinka mér lítillæti og hætta að grípa til ofbeldis. Ráðin í 1. Korintubréfi 15:33 hjálpuðu mér, en þar segir: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ Til þess að geta breytt mér varð ég að hætta að umgangast þá sem höfðu slæm áhrif á mig. Gömlu vinirnir viku því fyrir vinum í kristna söfnuðinum – fólki sem leysir ekki vandamál sín með ofbeldi heldur með því að fara eftir frumreglum Biblíunnar.

Rómverjabréfið 12:17-19 hafði líka djúpstæð áhrif á mig en þar segir: „Gjaldið engum illt fyrir illt ... Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf ... eins og ritað er: ,Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Drottinn.“ Ég viðurkenndi að Jehóva Guð mun sjálfur koma á réttlæti þegar hann telur það tímabært. Smám saman lagði ég af ofbeldisfulla hegðun.

Ég gleymi aldrei því sem gerðist eitt kvöld. Þegar ég var á heimleið réðst hópur unglinga úr óvinagengi á mig og forsprakkinn barði mig í bakið og öskraði: „Verðu þig!“ Ég fór með stutta bæn og bað Jehóva að hjálpa mér að þola þessa árás. Ég brann í skinninu að hefna mín og berja til baka en í stað þess tókst mér að koma mér í burtu. Daginn eftir rakst ég aftur á forsprakka gengisins. Löngunin til að hefna mín ólgaði innra með mér en aftur bað ég Jehóva að hjálpa mér að hafa stjórn á mér. Það kom mér á óvart þegar strákurinn kom til mín og sagði: „Fyrirgefðu það sem gerðist í gærkvöldi. Í sannleika sagt langar mig til að verða eins og þú. Ég vil kynna mér Biblíuna.“ Mikið var ég glaður að hafa náð að halda aftur af reiðinni. Það varð til þess að ég gat hjálpað honum að kynna sér Biblíuna.

Því miður héldu aðrir í fjölskyldunni ekki áfram að kynna sér Biblíuna á þeim tíma. Ég hafði hins vegar tekið ákvörðun um að halda náminu áfram og láta ekkert stöðva mig. Ég vissi að ef ég hefði félagsskap við þjóna Guðs myndu tilfinningasár mín gróa og ég eignaðist þá andlegu fjölskyldu sem ég þurfti á að halda. Ég hélt áfram að taka framförum og árið 1991 lét ég skírast sem vottur Jehóva.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Áður var ég fullur gremju, ráðríkur og beitti aðra ofbeldi. En orð Guðs hefur gerbreytt lífi mínu. Ég segi öllum sem vilja hlusta frá friðarboðskap Biblíunnar. Ég hef notið þess að fá að boða trúna í fullu starfi í 23 ár.

Ég var um tíma í sjálfboðavinnu við deildarskrifstofu Votta Jehóva í Mexíkó. Þar hitti ég duglega unga konu sem heitir Claudia og við giftum okkur árið 1999. Ég er afar þakklátur fyrir að Jehóva skyldi gefa mér þennan dygga lífsförunaut.

Við vorum um tíma í táknmálssöfnuði í Mexíkó þar sem við aðstoðuðum heyrnarlausa við að kynnast Jehóva. Síðar bauðst okkur að flytjast til Belís til að fræða heimamenn um Biblíuna. Við lifum fábrotnara lífi hér en höfum þó allt sem við þurfum til að vera ánægð. Við myndum ekki vilja breyta neinu.

Móðir mín byrjaði aftur að kynna sér Biblíuna og lét skírast. Eldri bróðir minn er líka orðinn vottur Jehóva ásamt konu sinni og börnum. Nokkrir af gömlu vinunum mínum, sem ég fræddi um ríki Guðs, eru líka farnir að þjóna Jehóva.

Það er sorglegt til þess að vita að sumir úr fjölskyldu minni eru látnir vegna þess að þeir breyttu ekki ofbeldisfullri hegðun sinni. Sennilega hefði ég endað eins og þeir hefði ég ekki breytt líferni mínu. Ég er þakklátur fyrir að Jehóva hefur dregið mig til sín og þjóna sinna. Þeir hafa kennt mér með þolinmæði og vinsemd að fara eftir frumreglum Biblíunnar.