Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | REBEKKA

„Ég vil fara“

„Ég vil fara“

REBEKKA horfði í kringum sig á stórskorið landslagið. Sólin var farin að lækka á lofti. Ferðin hafði tekið nokkrar vikur og hún var loksins farin að venjast vaggandi göngulagi úlfaldans þar sem hún sat efst á baki hans. Langt að baki, mörg hundruð kílómetra í norðaustur, lágu heimahagar hennar í Harran. Kannski sæi hún fjölskylduna sína aldrei aftur. Hún velti eflaust fyrir sér hvað biði hennar, ekki síst núna þegar hún nálgaðist áfangastað.

Úlfaldalestin hafði ferðast yfir stóran hluta Kanaanslands og nú lá leiðin yfir Negeb sem var hrjóstrugra landsvæði. (1. Mósebók 24:62) Rebekka sá líklega fé á beit. Landið var tilvalið til beitar þó að það hafi sennilega verið of harðbýlt til að stunda dreifbæran búskap. Roskni maðurinn, sem stýrði förinni, var kominn á heimaslóðir. Hann gat varla beðið eftir að flytja húsbónda sínum þær góðu fréttir að Rebekka yrði kona Ísaks. Og Rebekka hefur örugglega velt fyrir sér hvers konar líf biði hennar í þessu ókunna landi og hvernig Ísak, tilvonandi eiginmaður hennar, væri. Þau höfðu aldrei hist. Yrði hann ánægður þegar hann sæi hana? Og hvernig myndi henni lítast á hann?

Víða í heiminum þykir skrítið að foreldrar ákveði ráðahag barna sinna en sums staðar er það viðtekin venja. Hverju sem við eigum að venjast getum við verið sammála um að nú var að hefjast nýr og framandi kafli í lífi Rebekku. Hún var einstaklega hugrökk kona með mjög sterka trú. Það eru nauðsynlegir eiginleikar þegar við stöndum á krossgötum í lífinu. En Rebekka hafði til að bera fleiri fagra og fátíða eiginleika sem tengdust trú hennar.

„ÉG SKAL EINNIG AUSA HANDA ÚLFÖLDUM ÞÍNUM“

Þennan dag gerbreyttist líf Rebekku þótt hann hafi eflaust byrjað eins og hver annar dagur. Hún var alin upp í borginni Harran í Mesópótamíu. Flestir íbúarnir þar tilbáðu tunglguðinn Sin en foreldrar hennar tilbáðu hins vegar Jehóva Guð. – 1. Mósebók 24:50.

Rebekka var falleg ung kona, en hún var ekki bara fögur hið ytra. Hún var glaðvær og dugleg og lifði siðferðilega hreinu lífi. Þótt fjölskylda hennar væri nógu efnuð til að hafa þjónustufólk var Rebekka hvorki ofdekruð né meðhöndluð eins og prinsessa. Hún þurfti að vinna hörðum höndum. Líkt og margar konur á þessum tíma þurfti Rebekka að sjá um ýmis erfiðisverk eins og að sækja vatn fyrir fjölskylduna. Snemma á hverju kvöldi þurfti hún að sækja vatn í brunninn og bera vatnskerið á öxlunum heim. – 1. Mósebók 24:11, 15, 16.

Kvöld eitt, eftir að hún hafði fyllt krukkuna, kom roskinn maður til hennar. Hann sagði: „Gefðu mér sopa að drekka úr vatnskeri þínu.“ Beiðni mannsins var bæði hægversk og kurteisleg. Rebekka áttaði sig strax á að maðurinn var kominn langt að. Hún tók því vatnskrukkuna af öxlinni og gaf manninum að drekka, ekki aðeins einn sopa heldur gaf hún honum nóg af fersku, köldu vatni til að slökkva þorstann. Hún sá að hann hafði með sér tíu úlfalda sem lágu skammt undan og að vatnsþróin hafði ekki verið fyllt fyrir þá. Hún tók eftir að þessi góðlegi maður fylgdist grannt með henni. Hún vildi sýna honum örlæti og sagði því: „Ég skal einnig ausa handa úlföldum þínum uns þeir hafa drukkið nægju sína.“ – 1. Mósebók 24:17-19.

Taktu eftir að Rebekka bauðst ekki aðeins til að gefa úlföldunum tíu að drekka heldur bauðst hún til að brynna þeim þar til þeir hefðu drukkið nægju sína. Þegar úlfaldi er mjög þyrstur getur hann drukkið hátt í 100 lítra af vatni. Ef allir úlfaldarnir voru það þyrstir stóð Rebekka frammi fyrir margra klukkustunda erfiðisvinnu. Eins og sjá má af frásögunni er þó ólíklegt að úlfaldarnir hafið verið mjög þyrstir. * En Rebekka vissi það ekki þegar hún bauð fram aðstoð sína. Hún var óðfús að vinna þetta verk til að geta sýnt þessum ókunna roskna manni umhyggju sína. Hann þáði aðstoð hennar. Síðan fylgdist hann náið með henni þar sem hún fyllti kerið margsinnis með vatni og tæmdi það í vatnsþróna. – 1. Mósebók 24:20, 21.

Rebekka var dugleg og gestrisin.

Fordæmi Rebekku kennir okkur margt. Við lifum á tímum þar sem eigingirni ræður ríkjum. Eins og spáð var fyrir í Biblíunni eru menn orðnir „sérgóðir“, tregir til að leggja lykkju á leið sína til að hjálpa öðrum. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Sannkristnir menn, sem leitast við að berjast gegn þessari tilhneigingu, ættu að hugleiða frásögu Biblíunnar af þessari ungu konu og sjá hana fyrir sér þar sem hún gengur rösklega með vatnskerið til og frá brunninum.

Rebekka tók eflaust eftir því að roskni maðurinn fylgdist með henni. Það var ekkert óviðeigandi við þessa athygli heldur horfði hann á hana undrandi og glaður. Þegar Rebekka var loks búin að brynna úlföldunum gaf hann henni dýrmæta skartgripi að gjöf. Síðan spurði hann: „Segðu mér hvers dóttir þú ert. Er rúm fyrir okkur í húsi föður þíns, að við megum gista?“ Þegar hún sagði honum hverra manna hún væri varð hann enn glaðari. Hún sagði þessu næst við hann, trúlega áköf í bragði: „Við erum vel birg af hálmi og heyjum og einnig er húsrúm til gistingar.“ Þetta var rausnarlegt boð því maðurinn var ekki einn á ferð. Síðan hljóp hún af stað á undan honum til að segja móður sinni tíðindin. – 1. Mósebók 24:22-28, 32.

Rebekka var greinilega alin upp við gestrisni. En gestrisni er nokkuð sem virðist vera á undanhaldi. Fordæmi þessarar góðhjörtuðu ungu konu er okkur hvatning til að líkja eftir trú hennar. Trú okkar á Guð ætti að vekja hjá okkur löngun til að sýna öðrum gestrisni. Jehóva er gestrisinn því að hann er örlátur við alla og hann vill að tilbiðjendur sínir geri slíkt hið sama. Þegar við sýnum öðrum gestrisni – jafnvel þeim sem munu ekki endurgjalda okkur hana – gleðjum við himneskan föður okkar. – Matteus 5:44-46; 1. Pétursbréf 4:9.

„ÞÚ SKALT ... TAKA SYNI MÍNUM KONU“

Hver var þessi roskni maður við brunninn? Hann var þjónn Abrahams sem var afabróðir Rebekku. Hann var því boðinn velkominn inn á heimili Betúels, föður Rebekku. Þjónninn hét sennilega Elíeser. * Gestgjafarnir buðu honum mat en hann vildi ekki borða fyrr en hann væri búinn að segja þeim ástæðuna fyrir komu sinni. (1. Mósebók 24:31-33) Við getum séð hann fyrir okkur þar sem hann segir þeim ákafur frá erindinu. Hann var nýbúinn að fá sterka sönnun fyrir því að Jehóva hafði blessað þessa mikilvægu för hans. Hvernig þá?

Sjáðu Elíeser fyrir þér segja Betúel, föður Rebekku, og Laban, bróður hennar, ástæðuna fyrir komu sinni. Þeir hlusta hugfangnir á hann. Hann segir þeim að Jehóva hafi blessað Abraham mikillega í Kanaanslandi og að Abraham og Sara eigi soninn Ísak sem muni erfa þau. Abraham hafði falið þjóni sínum afar mikilvægt erindi: Hann átti að finna konu fyrir Ísak meðal ættingja Abrahams í Harran. – 1. Mósebók 24:34-38.

Abraham lét Elíeser vinna sér þess eið að hann myndi ekki velja konu handa Ísak af dætrum Kanverja. Hvers vegna ekki? Vegna þess að Kanverjar virtu hvorki Jehóva Guð né tilbáðu hann. Abraham vissi að Jehóva ætlaði að refsa þessari þjóð fyrir vond verk hennar þegar fram liðu stundir. Hann vildi ekki að sonur sinn tengdist þessari þjóð eða tæki upp siðlausa lifnaðarhætti hennar. Hann vissi einnig að Ísak hefði mikilvægu hlutverki að gegna í fyrirætlun Guðs. – 1. Mósebók 15:16; 17:19; 24:2-4.

Elíeser sagði síðan gestgjöfum sínum að hann hefði beðið til Jehóva Guðs þegar hann kom að brunninum við Harran. Hann bað Jehóva í raun að velja konuna fyrir Ísak með því að sjá til þess að stúlkan, sem hann vildi að Ísak kvæntist, kæmi að brunninum. Þegar Elíeser bæði hana um vatn myndi hún ekki aðeins bjóðast til að gefa honum að drekka heldur einnig brynna úlföldum hans. (1. Mósebók 24:12-14) Og Rebekka gerði einmitt það! Hugsaðu þér hvernig henni hefur verið innanbrjósts ef hún heyrði það sem Elíeser sagði fjölskyldunni.

Það sem Elíeser sagði snerti Betúel og Laban djúpt. Þeir sögðu: „Þetta er frá Drottni komið.“ Þeir gerðu hjúskaparsáttmála eins og siður var og heitbundu Rebekku Ísak. (1. Mósebók 24:50-54) En þýðir það að Rebekka réði engu um ráðahaginn?

Nokkrum vikum áður hafði Elíeser vakið máls á þessu við Abraham með því að segja: „Vera má að konan vilji ekki fara með mér.“ Og Abraham svaraði: „Þá ertu laus undan eiðnum.“ (1. Mósebók 24:39, 41) Á heimili Betúels skipti vilji ungu konunnar einnig máli. Elíeser var svo ánægður með hversu vel ferð hans hafði heppnast að hann spurði strax næsta morgun hvort hann gæti farið þegar í stað með Rebekku til Kanaanslands. Fjölskylda hennar vildi hins vegar að hún væri áfram hjá þeim í að minnsta kosti tíu daga. En á endanum leystu þau málið með þessum hætti: „Köllum á stúlkuna og spyrjum hana sjálfa.“ – 1. Mósebók 24:57.

Rebekka stóð skyndilega á krossgötum í lífinu. Hverju myndi hún svara? Myndi hún nýta sér samkennd föður síns og bróður og biðja um að vera leyst undan þessari ferð út í óvissuna? Eða myndi hún líta á það sem heiður að eiga þátt í atburðum sem Jehóva stýrði greinilega? Svar hennar leiddi í ljós hvernig henni var innanbrjósts um þessa skyndilegu og kannski ógnvekjandi breytingu á lífi hennar. Hún sagði einfaldlega: „Ég vil fara.“ – 1. Mósebók 24:58, Biblían 1981.

Rebekka sýndi einstakt hugarfar. Siðir okkar varðandi hjónaband eru sennilega allt aðrir en þessir, en við getum engu að síður lært margt af Rebekku. Það sem skipti hana mestu máli var vilji Jehóva Guðs en ekki hennar eigin. Orð Guðs hefur enn að geyma bestu leiðbeiningarnar varðandi hjónabandið, bæði þegar kemur að vali okkar á maka og hvernig hægt er að vera góður eiginmaður eða góð eiginkona. (2. Korintubréf 6:14, 15; Efesusbréfið 5:28-33) Það er viturlegt af okkur að fylgja fordæmi Rebekku og leitast við að fara eftir leiðbeiningum Guðs.

„HVER ER ÞESSI MAÐUR?“

Fjölskylda Rebekku lagði blessun sína yfir hana. Síðan lagði hún af stað með Elíeser og mönnum hans ásamt Debóru, fóstru sinni, og nokkrum þjónustustúlkum. (1. Mósebók 24:59-61; 35:8) Fljótlega var Harran langt að baki. Ferðin var löng eða um 800 kílómetrar. Hún stóð líklega yfir í þrjár vikur og var eflaust ekki auðveld. Rebekka hafði oft séð úlfalda en það er ósennilegt að hún hafi verið vön úlfaldareið. Í Biblíunni segir að fjölskylda hennar hafi verið hjarðmenn, ekki farandkaupmenn sem ráku úlfaldalestir. (1. Mósebók 29:10) Þeir sem eru óvanir úlfaldareið kvarta gjarnan undan óþægindum – jafnvel eftir mjög stutta ferð.

Rebekka horfði samt glöð fram á veginn og spurði Elíeser án efa spjörunum úr um Ísak og fjölskyldu hans. Ímyndaðu þér roskna manninn þar sem hann situr við varðeld að kvöldi dags og segir Rebekku frá loforðinu sem Guð gaf Abraham vini hans. Jehóva Guð ætlaði að hefja upp niðja af ætt Abrahams og allt mannkyn myndi hljóta blessun vegna hans. Rebekka hefur örugglega fyllst lotningu þegar hún skildi að þetta loforð yrði uppfyllt í gegnum Ísak, tilvonandi eiginmann hennar – og þar af leiðandi hana sjálfa. – 1. Mósebók 22:15-18.

Rebekka var auðmjúk en það er fagur og fátíður eiginleiki.

Að endingu rann upp dagurinn sem lýst er í byrjun þessarar greinar. Þegar úlfaldalestin ferðaðist yfir Negeb og rökkrið byrjaði að síga yfir landið kom Rebekka auga á mann sem gekk yfir akurinn. Hann virtist vera í þungum þönkum. Frásagan segir: „Sté hún þá jafnskjótt niður af úlfaldanum.“ (Biblían 1981) Sennilega beið hún ekki einu sinni eftir að úlfaldinn legðist niður. Síðan spurði hún þjóninn: „Hver er þessi maður sem gengur yfir akurinn til móts við okkur?“ Þegar hún heyrði að þetta væri Ísak tók hún blæju sína og huldi höfuðið. (1. Mósebók 24:62-65) Hvers vegna? Þetta var augljóslega merki um virðingu fyrir tilvonandi eiginmanni hennar. Slík auðmýkt kemur kannski sumum fyrir sjónir sem gamaldags. En í raun ættu allir, bæði menn og konur, að draga lærdóm af auðmýkt Rebekku. Öll getum við þroskað með okkur enn meiri auðmýkt sem er fagur eiginleiki.

Ísak, sem var um fertugt, syrgði enn Söru, móður sína, en hún dó þremur árum áður. Ísak hefur því án efa verið afar hlýlegur og blíður maður. Hvílík blessun fyrir slíkan mann að kvænast konu sem var svona iðin, gestrisin og auðmjúk. Hvernig kom Ísak og Rebekku saman? Biblían segir einfaldlega: „Ísak fékk ást á henni.“ – 1. Mósebók 24:67; 26:8.

Jafnvel núna, 39 öldum síðar, er auðvelt fyrir okkur að þykja vænt um Rebekku. Við getum ekki annað en dáðst að því hversu hugrökk hún var, iðin, gestrisin og auðmjúk. Hvort sem við erum ung eða gömul, gift eða einhleyp, menn eða konur, ættum við að líkja eftir trú Rebekku.

^ gr. 10 Það var þegar tekið að kvölda. Í frásögunni er ekkert sem bendir til þess að Rebekku hafi dvalist við brunninn í margar klukkustundir. Þar kemur heldur hvergi fram að fjölskylda hennar hafi verið farin að sofa þegar hún kom heim aftur eða að einhver hafi farið að vitja hennar.

^ gr. 15 Þótt nafnið Elíeser komi hvergi fram í frásögunni er líklegt að hann hafi verið þessi þjónn. Abraham hafði eitt sinn ætlað að ánafna Elíeser öllum eigum sínum ef hann eignaðist ekki sjálfur réttmætan erfingja. Elíeser var því án efa elsti þjónn Abrahams og sá sem hann treysti best. Það passar einnig við lýsinguna á þjóninum í þessari frásögu. – 1. Mósebók 15:2; 24:2-4.