Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | ÞEGAR ÁSTVINUR DEYR

Að hughreysta syrgjendur

Að hughreysta syrgjendur

Hefur það komið fyrir þig að horfa upp á einhvern nákominn þér syrgja látinn ástvin og finnast þú ekkert geta gert? Stundum er erfitt að vita hvað við eigum að segja eða gera sem verður til þess að við gerum ekkert. En hægt er að gera ýmislegt sem kemur að gagni.

Oft þarf ekki meira til en að vera til staðar og segja að þú samhryggist viðkomandi. Víða er það merki um væntumþykju að klappa á öxlina á fólki eða taka utan um það. Ef syrgjandinn vill tala skaltu hlusta á hann með samúð. Best er að gera eitthvað fyrir fjölskylduna sem syrgir. Til dæmis er hægt að ganga í verk sem vinur þinn á erfitt með að sinna svo sem að elda mat, hugsa um börnin eða aðstoða við að undirbúa jarðarförina, ef hann vill það. Slík verk segja meira en mörg orð.

Með tímanum langar þig kannski að tala um hinn látna, rifja upp ánægjulegar minningar eða tala um góða eiginleika hans. Samræður af því tagi geta glatt þann sem syrgir. Pam missti manninn sinn fyrir sex árum. Hún segir: „Stundum segir fólk mér frá einhverju góðu sem Ian gerði og ég hafði aldrei heyrt um áður. Mér hlýnar um hjartarætur að heyra þannig sögur.“

Rannsóknir sýna að algengt er að syrgjendur fá mikla hjálp til að byrja með en gleymast síðan fljótt þegar vinirnir verða aftur uppteknir af daglegum störfum. Leggðu þig því fram um að hafa reglulegt samband við vin sem hefur misst ástvin. * Margir syrgjendur kunna vel að meta slíkan stuðning sem hjálpar þeim að lina langvarandi sorg.

Tökum unga japanska konu að nafni Kaori sem dæmi. Hún brotnaði niður þegar hún missti móður sína og síðan eldri systur sína aðeins 15 mánuðum síðar. Til allrar hamingju fékk hún stuðning til lengri tíma frá trúföstum vinum. Ein vinkona Kaori, sem heitir Ritsuko og er mun eldri en hún, bauðst til að verða náin vinkona hennar. „Ef ég á að vera alveg hreinskilin,“ segir Kaori, „var ég ekkert hrifin af því. Ég vildi ekki að neinn kæmi í stað mömmu minnar og ég hafði heldur ekki trú á að neinn gæti það. En ég fór að tengjast Ritsuko nánari böndum vegna þess hvernig hún kom fram við mig. Í hverri viku fórum við saman í boðunarstarfið og á safnaðarsamkomur. Hún bauð mér í te, færði mér mat og skrifaði mér oft bréf og kort. Jákvæðni Ritsuko hafði góð áhrif á mig.“

Tólf ár eru liðin síðan móðir Kaori dó. Núna boða Kaori og maðurinn hennar trúna í fullu starfi. Kaori segir: „Ritsuko sýnir mér alltaf sömu umhyggjuna. Þegar ég fer heim heimsæki ég hana alltaf og nýt uppbyggjandi félagsskapar hennar.“

Annað dæmi um einstakling, sem naut góðs af stuðningi til langs tíma, er Poli en hún er vottur Jehóva á Kýpur. Eiginmaður hennar, Sozos, var góður maður og til fyrirmyndar í að huga að öðrum í söfnuðinum. Hann bauð oft þeim sem minna máttu sín í mat og varði tíma með þeim. (Jakobsbréfið 1:27) Því miður lést Sozos vegna heilaæxlis þegar hann var 53 ára. „Ég missti trúfastan eiginmann minn eftir 33 ára hjónaband,“ segir Poli.

Leitaðu leiða til að veita þeim sem syrgja hagnýta aðstoð.

Eftir jarðarförina flutti Poli til Kanada með yngsta son sinn, Daniel, sem var 15 ára. Þau tóku þátt í safnaðarlífi votta Jehóva á staðnum. „Vinirnir í nýja söfnuðinum vissu ekkert um okkur eða það sem við höfðum gengið í gegnum,“ segir Poli. „En það kom ekki í veg fyrir að þeir uppörvuðu okkur með hlýlegum orðum og aðstoðuðu okkur. Það var ómetanlegt, sérstaklega á þessum tíma þegar sonur minn þarfnaðist föður síns sem mest. Þeir sem fóru með umsjón í söfnuðinum sýndu Daniel persónulegan áhuga. Einn þeirra gerði sér sérstaklega far um að taka Daniel með þegar hann hitti vini úr söfnuðinum eða fór í fótbolta.“ Þeim mæðginum líður vel núna.

Það er enginn vafi á að við getum boðið þeim sem syrgja hagnýta aðstoð og hughreystingu á marga vegu. Biblían hughreystir okkur einnig með stórkostlegri framtíðarvon.

^ gr. 6 Sumir hafa jafnvel merkt við dánardaginn á dagatalinu til að minna sig á að hughreysta syrgjandann á þeim degi eða dagana þar í kring. Þá þurfa syrgjendur oft mest á hughreystingu að halda.