Fyrra bréf Péturs 4:1–19

  • Lifið til að gera vilja Guðs eins og Kristur (1–6)

  • Endir allra hluta er í nánd (7–11)

  • Að þjást fyrir að vera kristinn (12–19)

4  Þar sem Kristur þjáðist líkamlega skuluð þið herklæðast sama hugarfari* því að sá sem hefur þjáðst líkamlega er hættur að syndga.  Hann lifir þá ekki tímann sem hann á ólifaðan fyrir mannlegar girndir heldur til að gera vilja Guðs.  Það er nóg að þið hafið hingað til gert vilja þjóðanna meðan líferni ykkar einkenndist af blygðunarlausri hegðun,* taumlausum losta, ofdrykkju, svallveislum, drykkjutúrum og fyrirlitlegri* skurðgoðadýrkun.  Fólk furðar sig á að þið hlaupið ekki með því í sama ólifnaði og siðspillingu og áður, og talar því illa um ykkur.  En þetta fólk á eftir að gera honum reikningsskil sem er tilbúinn að dæma lifandi og dauða.  Þess vegna var hinum dauðu einnig boðaður fagnaðarboðskapurinn til að þeir gætu lifað andlegu lífi í augum Guðs þó að menn dæmi þá eftir ytra útliti.  En endir allra hluta er í nánd. Verið því skynsöm og vakandi* fyrir því að biðja.  Berið umfram allt brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda.  Verið gestrisin hvert við annað án þess að kvarta. 10  Notið þá hæfileika* sem þið hafið fengið, til að þjóna hvert öðru og verið góðir ráðsmenn einstakrar góðvildar Guðs sem birtist með ýmsum hætti. 11  Ef einhver talar þá flytji hann boðskap frá Guði. Ef einhver þjónar þá reiði hann sig á máttinn sem Guð gefur, til að Guð sé upphafinn í öllu fyrir tilstilli Jesú Krists. Dýrðin og mátturinn sé Guðs um alla eilífð. Amen. 12  Þið elskuðu, furðið ykkur ekki á þeim eldraunum sem þið verðið fyrir eins og eitthvað undarlegt hendi ykkur. 13  Gleðjist heldur yfir því að eiga þátt í þjáningum Krists. Þá getið þið einnig glaðst og fagnað ákaflega þegar dýrð hans opinberast. 14  Þið eruð hamingjusöm ef þið eruð smánuð vegna nafns Krists því að andi dýrðarinnar, já, andi Guðs, hvílir yfir ykkur. 15  En ekkert ykkar ætti að þjást sem morðingi eða þjófur eða afbrotamaður eða fyrir að blanda sér í annarra manna mál. 16  En ef einhver þjáist fyrir að vera kristinn ætti hann ekki að skammast sín fyrir það heldur ætti hann að lofa Guð með því að lifa eins og kristinn maður. 17  Tími dómsins er kominn og hann hefst á húsi Guðs. En fyrst hann hefst á okkur, hvernig fer þá fyrir þeim sem hlýða ekki fagnaðarboðskap Guðs? 18  „Og fyrst réttlátur maður bjargast með erfiðismunum, hvað verður þá um hinn óguðlega og syndarann?“ 19  Þeir sem þjást fyrir að gera vilja Guðs ættu því að fela sjálfa sig* á hendur* trúum skapara og halda áfram að gera það sem er gott.

Neðanmáls

Eða „sama ásetningi; sömu einbeitni“.
Eða „ósvífinni hegðun“. Fleirtala gríska orðsins asel′geia. Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „óleyfilegri“.
Eða „árvökur“.
Orðrétt „gjöf“.
Eða „sálir sínar“.
Eða „í umsjá“.