Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Ég fór að hugsa alvarlega um það hvert líf mitt stefndi“

„Ég fór að hugsa alvarlega um það hvert líf mitt stefndi“
  • FÆÐINGARÁR: 1941

  • FÖÐURLAND: ÁSTRALÍA

  • FORSAGA: REYKTI OG MISNOTAÐI ÁFENGI

FORTÍÐ MÍN:

Ég ólst upp í Warialda, litlum bæ úti á landi í Nýja-Suður-Wales. Í Warialda er landbúnaðarsamfélag þar sem bændur stunda fjölbreyttan búskap. Þeir stunda fjárrækt, nautgriparækt, kornrækt og aðra ræktun. Bærinn er snyrtilegur og glæpir eru fátíðir.

Ég var elstur tíu systkina og byrjaði því að vinna þegar ég var 13 ára til að hjálpa til við að sjá fjölskyldunni farborða. Ég var með litla menntun og fór þess vegna að vinna á sveitabæjum. Þegar ég var 15 ára var ég farinn að vinna við að temja hesta.

Vinnan í sveitinni hafði bæði sína kosti og galla. Ég naut þess að vinna og vera í þessu umhverfi. Ég sat við varðeld á kvöldin og virti tunglið og stjörnurnar fyrir mér meðan ilmur af gróðri barst með kvöldblænum. Ég man eftir því að hafa hugsað að einhver hlyti að hafa skapað þessa dásamlegu veröld. En ég varð líka fyrir skaðlegum áhrifum af félagsskapnum á sveitabæjunum. Fólk blótaði mikið og það var auðvelt að verða sér úti um sígarettur. Fljótlega var mér orðið tamt að reykja og blóta.

Þegar ég var 18 ára flutti ég til Sydney. Ég reyndi að komast í herinn en umsókninni var hafnað því að mig skorti menntun. Ég fékk vinnu og dvaldi í Sydney í eitt ár en þar hitti ég votta Jehóva í fyrsta skipti. Ég þáði boð um að fara á samkomu og skynjaði strax að það sem þeir kenndu væri sannleikurinn.

Stuttu síðar ákvað ég að fara aftur út á land. Ég endaði í Goondiwindi í Queensland. Ég fékk vinnu, gifti mig og byrjaði því miður líka að drekka.

Við eignuðumst tvö börn. Eftir að synir mínir komu í heiminn fór ég að hugsa alvarlega um það hvert líf mitt stefndi. Ég mundi eftir því sem ég hafði heyrt á samkomunni hjá vottunum í Sydney og ákvað að gera eitthvað í málunum.

Ég fann eintak af Varðturninum með heimilisfangi deildarskrifstofu Votta Jehóva í Ástralíu. Ég sendi bréf þangað og bað um aðstoð. Í kjölfarið heimsótti vingjarnlegur og kærleiksríkur vottur mig. Fljótlega var hann farinn að aðstoða mig við biblíunám.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Þegar ég rannsakaði Biblíuna rann upp fyrir mér að ég þyrfti að gera miklar breytingar á lífi mínu. Eitt biblíuvers sem hafði sérstaklega mikil áhrif á mig var 2. Korintubréf 7:1. Þetta vers hvetur okkur til að „hreinsa okkur af öllu sem óhreinkar líkama“ okkar.

Ég ákvað að hætta að reykja og misnota áfengi. Það var ekki auðvelt þar sem þetta hafði verið hluti af lífi mínu mjög lengi. En ég var ákveðinn í að lifa lífinu í samræmi við vilja Guðs. Það sem hjálpaði mér mest var að fylgja meginreglunni í Rómverjabréfinu 12:2: „Látið ekki heiminn móta ykkur lengur heldur umbreytist með því að endurnýja hugarfarið.“ Ég áttaði mig á því að til að breyta venjum mínum þyrfti ég að breyta hugarfari mínu og sjá þessar venjur sömu augum og Guð – sem skaðlegar. Með hans hjálp náði ég að hætta að reykja og misnota áfengi.

„Ég áttaði mig á því að ég yrði að breyta hugarfarinu ef ég vildi breyta venjum mínum.“

Það sem reyndist erfiðast var að hætta að blóta. Ég vissi hvað segir í Efesusbréfinu 4:29: „Látið ekkert fúkyrði koma af vörum ykkar.“ En það tók sinn tíma að breyta því hvernig ég talaði. Það reyndist hjálp í að hugleiða það sem segir í Jesaja 40:26. Þar segir um stjörnurnar á himni: „Horfið upp til himins og sjáið. Hver hefur skapað allt þetta? Það er hann sem leiðir stjörnurnar eins og her og telur þær, hann kallar þær allar með nafni. Hann býr yfir svo gríðarlegum krafti og ógurlegum mætti að enga þeirra vantar.“ Ég ályktaði að ef Guð hefði mátt til að skapa allan alheiminn, sem ég hafði svo mikið yndi af að skoða, þá hlyti hann að geta gefið mér styrk til að gera breytingar í samræmi við vilja hans. Mér tókst smám saman að ná tökum á því hvað ég læt út úr mér með því að biðja mikið og leggja hart að mér.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Þegar ég vann í sveitinni hafði ég sjaldan tækifæri til að tala við fólk þar sem fáir voru á sveitabæjunum þar sem ég vann. En þjálfunin sem ég hef fengið á samkomum Votta Jehóva hefur hjálpað mér að tjá mig. Ég hef til dæmis lært að tala við aðra um fagnaðarboðskapinn um Guðsríki. – Matteus 6:9, 10; 24:14.

Ég er ánægður að hafa getað þjónað sem öldungur í söfnuðinum um árabil. Mér finnst heiður að geta hjálpað trúsystkinum mínum.

Ég er Jehóva þakklátur að leyfa mér með svona litla menntun að fá að njóta kennslu hans. (Jesaja 54:13) Ég er innilega sammála því sem segir í Orðskviðunum 10:22: „Blessun Jehóva auðgar.“