Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Ég virtist hafa allt sem mig hafði dreymt um“

„Ég virtist hafa allt sem mig hafði dreymt um“
  • FÆÐINGARÁR: 1962

  • FÖÐURLAND: KANADA

  • FORSAGA: Siðlaust líferni

FORTÍÐ MÍN

 Ég fæddist í Montreól í Kanada sem er stærsta borgin í Quebec-fylki. Systkini mín þrjú og ég vorum alin upp af kærleiksríkum foreldrum í fallegu hverfi sem heitir Rosemont. Við lifðum friðsælu og kyrrlátu lífi.

 Þegar ég var strákur hafði ég áhuga á Biblíunni. Ég minnist þess að þegar ég var 12 ára gamall naut ég þess að lesa um líf Jesú í Nýja testamentinu. Það snerti mig hvað hann sýndi fólki mikinn kærleika og umhyggju. Mig langaði að verða eins og hann. Því miður dofnaði þessi löngun með aldrinum þegar ég byrjaði að umgangast vafasama félaga.

 Pabbi var saxófónleikari og hann gaf mér ekki bara hljóðfærið sitt heldur miðlaði hann til mín ást sinni á tónlist sem varð að þungamiðju lífs míns. Ég hafði svo mikið yndi af tónlist að ég lærði líka á gítar. Þegar fram liðu stundir stofnaði ég rokkhljómsveit með nokkrum vinum og við komum fram á tónleikum. Nokkrir vel þekktir útgefendur í tónlistariðnaðinum veittu okkur athygli og gáfu mér tilboð. Ég skrifaði undir samning hjá þekktu hljómplötufyrirtæki. Tónlistin mín varð talsvert vinsæl og var reglulega leikin á útvarpsstöðinni í Quebec.

 Ég virtist hafa allt sem mig hafði dreymt um. Ég var ungur og frægur og græddi mikla peninga á því sem ég elskaði að gera. Á daginn stundaði ég líkamsrækt, fór í viðtöl, gaf eiginhandaráritanir og mætti í sjónvarpsþætti. Á kvöldin spilaði ég á tónleikum og stundaði skemmtanalífið. Til að þola áreitið af mannfjöldanum fór ég að drekka og með tímanum fór ég líka út í neyslu. Auk þess var ég kærulaus og stundaði siðlaust líferni.

 Sumir öfunduðu mig af því að ég virtist vera hamingjusamur. En innst inni fann ég fyrir yfirþyrmandi tómleika, sérstaklega þegar ég var einn. Ég fann til þunglyndis og kvíða. Þegar ferill minn stóð sem hæst létust tveir að umboðsmönnum mínum úr eyðni. Það var áfall. Tónlistin var yndi mitt en ég hafði óbeit á lífsmátanum sem fylgdi henni.

BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Þrátt fyrir velgengni mína vissi ég að ástand heimsins væri alger hörmung. Hvernig stóð á öllu þessu óréttlæti? Ég velti fyrir mér hvers vegna Guð héldi aftur af sér með að grípa til aðgerða. Ég bað Guð reyndar oft að gefa mér svör. Ég fór aftur að lesa Biblíuna, þegar ég var ekki á tónlistarferðalögum. Þó að ég skildi lítið af því sem ég var að lesa komst ég að þeirri niðurstöðu að heimsendir hlyti að vera í nánd.

 Ég uppgötvaði það í biblíulestri mínum að Jesús hafði eitt sinn fastað í 40 daga í eyðimörkinni. (Matteus 4:1, 2) Ég hugsaði með mér að ef ég gerði hið sama myndi Guð kannski gera vart við sig í lífi mínu. Ég ákvað daginn sem ég myndi hefja föstuna. Tveim vikum áður en fastan átti að hefjast stóðu tveir af vottum Jehóva við dyrnar hjá mér og ég bauð þeim inn eins og ég hefði átt von á þeim. Ég horfði beint í augu Jacques, sem var annar þeirra, og spurði hann: „Hvernig vitum við að við lifum á síðustu dögum þessa heims?“ Hann svaraði mér með því að opna Biblíuna sína og lesa 2. Tímóteusarbréf 3:1–5. Ég lét öllum spurningum mínum um Biblíuna rigna yfir þá og ég furðaði mig á því hvað svörin, sem alltaf voru byggð á Biblíunni, voru rökrétt og fullnægjandi. Nokkrum heimsóknum síðar var mér ljóst að ég þyrfti ekki að fara í neina föstu.

 Ég byrjaði í biblíunámskeiði hjá vottum Jehóva. Það kom að því að ég lét klippa síða hárið og fór að sækja allar samkomurnar í ríkissalnum. Hlýlegar móttökurnar sannfærðu mig enn frekar um að ég hefði fundið sannleikann.

 Ég þurfti að gera nokkrar meiriháttar breytingar í lífi mínu til að geta farið eftir því sem ég var að læra úr Biblíunni. Ég þurfti að hætta að nota eiturlyf, hætta siðlausu lífi mínu, venja mig af sjálfhverfu hugarfari og fara að sýna öðrum meiri umhyggju. Ég var einstæður faðir og þurfti að læra að annast tilfinningalegar og andlegar þarfir barnanna minna tveggja. Ég gaf því tónlistarferilinn upp á bátinn og fékk láglaunastaf í verksmiðju í staðinn.

 Það var ekki auðvelt að gera allar þessar breytingar. Þegar ég reyndi að losa mig við fíknina komu fráhvarfseinkennin og ég féll stundum. (Rómverjabréfið 7:19, 21–24) Það var sérstaklega erfitt að hætta siðlausum lífsmáta. Svo var ég úrvinda í nýju vinnunni auk þess sem launin voru niðurdrepandi. Það tók mig þrjá mánuði að vinna mér inn þann pening sem ég fékk á tveim klukkustundum sem tónlistarmaður.

 Bænin hjálpaði mér að halda út meðan ég var að gera þessar erfiðu breytingar. Reglulegur biblíulestur reyndist mér líka ómissandi. Einstaka biblíuvers voru sérstaklega uppörvandi. Eitt þeirra var 2. Korintubréf 7:1 þar sem kristnir menn eru hvattir til að „hreinsa [sig] af öllu sem óhreinkar líkama og huga“. Annað vers sem fullvissaði mig um að hægt væri að rjúfa slæmar venjur var Filippíbréfið 4:13 sem segir: „Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft.“ Jehóva Guð svaraði bænum mínum og hjálpaði mér loks að skilja og fara eftir sannindum Biblíunnar. Þetta hvatti mig til að vígja Guði líf mitt. (1. Pétursbréf 4:1, 2) Ég lét skírast sem vottur Jehóva árið 1997.

ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Ég er sannfærður um að ef ég hefði haldið áfram fyrri stefnu væri ég ekki lengur á lífi. Ég er hamingjusamur í dag. Elvie, yndislega konan mín, hefur reynst mér sannkölluð blessun. Við njótum þess að fræða aðra um Biblíuna í fullu starfi. Þetta starf er mjög fullnægjandi og veitir mér mikla geði. Ég er Jehóva innilega þakklátur fyrir að hafa dregið mig til sín. – Jóhannes 6:44.