Bréfið til Filippímanna 4:1–23

  • Eining, gleði, viðeigandi hugsanir (1–9)

    • Verið ekki áhyggjufull út af neinu (6, 7)

  • Þakklátur fyrir gjafir Filippímanna (10–20)

  • Kveðjuorð (21–23)

4  Þess vegna segi ég, bræður mínir og systur sem ég elska og sakna, þið sem eruð gleði mín og kóróna: Verið þannig staðföst sem fylgjendur Drottins, mín elskuðu.  Ég hvet Evodíu og Sýntýke til að vera samlyndar í þjónustu Drottins.  Já, ég bið þig líka, trúi samstarfsmaður,* að halda áfram að hjálpa þessum konum sem hafa barist* við hlið mér við að boða fagnaðarboðskapinn ásamt Klemensi og hinum samstarfsmönnum mínum, en nöfn þeirra standa í bók lífsins.  Verið alltaf glöð í Drottni. Ég segi aftur, verið glöð!  Verið þekkt fyrir að vera sanngjörn. Drottinn er nálægur.  Verið ekki áhyggjufull út af neinu heldur segið Guði frá öllu sem ykkur liggur á hjarta með því að biðja innilega til hans og þakka honum.  Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun þá vernda hjörtu ykkar og huga* með hjálp Krists Jesú.  Að lokum, bræður og systur, allt sem er satt, allt sem er íhugunar virði, allt sem er rétt, allt sem er hreint, allt sem er elskuvert, allt sem gott orð fer af, allt sem er dyggð og allt sem er lofsvert, hugsið um* það.  Farið eftir því sem þið hafið lært og tekið við af mér, heyrt og séð hjá mér. Þá verður Guð friðarins með ykkur. 10  Sem þjónn Drottins gleðst ég mjög yfir því að þið skulið aftur geta sýnt mér umhyggju. Ykkur var auðvitað annt um mig en þið höfðuð ekki tækifæri til að sýna það. 11  Ég segi þetta ekki af því að ég líði skort því að ég hef lært að láta mér nægja* það sem ég hef, óháð aðstæðum. 12  Ég kann að búa við þröngan kost og við allsnægtir. Ég hef uppgötvað þann leyndardóm að vera ánægður með allt og við allar aðstæður, hvort sem ég er saddur eða svangur, bý við allsnægtir eða skort. 13  Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft. 14  Það var samt fallega gert af ykkur að hjálpa mér í erfiðleikum mínum. 15  Þið Filippímenn vitið líka að eftir að þið kynntust fagnaðarboðskapnum og þegar ég fór frá Makedóníu voruð þið eini söfnuðurinn sem hjálpaði mér og þáði hjálp mína. 16  Meðan ég var í Þessaloníku senduð þið mér nauðsynjar, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. 17  Ekki það að ég sé að sækjast eftir gjöf heldur vil ég að þið vinnið góð verk sem færast ykkur til tekna. 18  En ég hef allt sem ég þarf og gott betur. Mig skortir ekkert núna eftir að Epafrodítus færði mér sendinguna frá ykkur. Hún er eins og sætur ilmur fyrir Guði, fórn sem hann hefur velþóknun á. 19  Í staðinn veitir Guð ykkur í dýrlegri auðlegð sinni allt sem þið þurfið og hann gerir það fyrir milligöngu Krists Jesú. 20  Guði okkar og föður sé dýrðin um alla eilífð. Amen. 21  Ég bið að heilsa öllum hinum heilögu sem eru sameinaðir Kristi Jesú. Bræðurnir sem eru hjá mér senda ykkur kveðju. 22  Allir hinir heilögu, sérstaklega þeir sem eru í þjónustu keisarans, biðja að heilsa ykkur. 23  Megi Drottinn Jesús Kristur í einstakri góðvild sinni blessa það hugarfar sem þið sýnið.

Neðanmáls

Orðrétt „samstarfsmaður undir okinu“.
Eða „lagt hart að sér“.
Eða „hugsanir“.
Eða „hugleiðið“.
Eða „vera ánægður með“.