Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Bestu verðlaun lífs míns

Bestu verðlaun lífs míns
  • FÆÐINGARÁR: 1967

  • FÖÐURLAND: FINNLAND

  • FORSAGA: ATVINNUMAÐUR Í TENNIS

FORTÍÐ MÍN

 Ég ólst upp á rólegum grónum stað í útjaðri borgarinnar Tampere í Finnlandi. Fjölskylda mín var ekki mjög trúuð en mat mikils menntun og góða mannasiði. Móðir mín er þýsk og þegar ég var krakki dvaldi ég stundum í Vestur-Þýskalandi þar sem afi minn og amma bjuggu.

 Ég hef alltaf verið hrifinn af íþróttum. Sem krakki stundaði ég alls konar íþróttir en þegar ég var um 14 ára fór ég að einbeita mér að tennis. 16 ára æfði ég tvisvar eða þrisvar á dag. Ég fór á tvær æfingar með þjálfara og æfði svo sjálfur á kvöldin. Ég var heillaður af öllu í sambandi við tennis. Að spila tennis var leið til að ögra sjálfum mér bæði andlega og líkamlega. Þótt ég hefði gaman að því að vera með vinum mínum og fá mér bjór öðru hvoru lenti ég aldrei í vandræðum með vímuefni eða áfengi. Líf mitt snerist um að spila tennis. Það var í fyrsta sæti.

 Ég byrjaði að spila í ATP-mótaröðinni þegar ég var 17 ára. a Eftir að hafa unnið á mörgum mótum var ég orðinn landsþekktur. Þegar ég var 22 ára var ég á meðal 50 bestu tennisleikara í heimi.

 Í mörg ár ferðaðist ég um heiminn og spilaði sem atvinnumaður í tennis. Ég sá heillandi staði en tók líka eftir mörgum vandamálum um allan heim, þar á meðal glæpum, vímuefnanotkun og umhverfisvandamálum. Þegar ég var til dæmis í Bandaríkjunum var okkur sagt að fara ekki í suma borgarhluta vegna hárrar glæpatíðni. Allt þetta angraði mig. Þótt ég væri að gera það sem ég mér fannst frábært var þegar upp var staðið tómarúm innra með mér.

BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Kærastan mín, Sanna, hafði byrjað að lesa Biblíuna með vottum Jehóva. Mér fannst þessi trúaráhugi hennar svolítið fyndinn en setti mig ekki upp á móti því að hún væri að lesa með þeim. Við giftum okkur 1990 og hún lét skírast sem vottur Jehóva ári síðar. Ég leit ekki á sjálfan mig sem trúaðan mann þótt ég tryði að Guð væri til. Ég mundi að þýska amma mín las mikið í Biblíunni og hún kenndi mér jafnvel að biðja til Guðs.

 Dag einn þegar við Sanna vorum í heimsókn hjá hjónum sem eru vottar sýndi Kari, eiginmaðurinn, mér biblíuspádóma um ,síðustu daga‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þetta hafði mikil áhrif á mig því þarna var svarið við því hvers vegna ástandið í heiminum var orðið svona slæmt. Við töluðum ekki mikið um trú þennan dag. En upp frá þessu fór ég að spjalla við Kari um Biblíuna og mér fannst allt sem ég lærði skynsamlegt. Annríki og tíð ferðalög gerðu það að verkum að við gátum ekki hist mjög reglulega en Kari gafst ekki upp. Hann svaraði spurningum mínum í námsstundunum með því að skrifa mér bréf. Öllum stórum spurningum lífsins var svarað skynsamlega í Biblíunni og smátt og smátt sá ég heildarmyndina – ríki Guðs lætur tilgang hans ná fram að ganga. Að fá að vita nafn Guðs, Jehóva, og sjá hvað hann hefur gert fyrir okkur hafði sterk áhrif á mig. (Sálmur 83:19) Það sem snerti mig mest var lausnarfórnin sem Jehóva sá fyrir. Hún var ekki einungis tæknileg ráðstöfun eða lögformlegt atriði heldur sýndi kærleika Guðs. (Jóhannes 3:16) Ég komst líka að því að mér stóð til boða að eignast Guð fyrir vin og lifa að eilífu í friðsamri paradís. (Jakobsbréfið 4:8) Ég fór að velta fyrir mér hvernig ég gæti sýnt þakklæti mitt.

 Ég hugsaði alvarlega um líf mitt. Ég lærði í Biblíunni að mesta gleðin felst í því að gefa og fann fyrir löngun til að segja öðrum frá trú minni. (Postulasagan 20:35) Sem atvinnuíþróttamaður var ég í keppnisferðum um 200 daga á ári. Fjölskyldulíf okkar snerist um mig, mína þjálfun, mína dagskrá, minn feril. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti að gera breytingar.

 Ég vissi að fáir myndu skilja þá ákvörðun að gefa efnilegan íþróttaferil upp á bátinn af trúarlegum ástæðum. En tækifærið til að kynnast Jehóva betur og öðlast eilíft líf er miklu dýrmætara en nokkur verðlaun sem ég fengi fyrir að spila tennis þannig að það var frekar auðvelt að taka ákvörðun. Ég var ákveðinn í að taka það ekki nærri mér hvað öðrum fyndist. Þetta var mín ákvörðun. Sálmur 118:6 veitti mér sérstaklega hvatningu til að standast slíkan þrýsting. En þar segir: „Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?“

 Um þetta leyti buðu styrktaraðilar mér mjög góðan samning sem myndi gera mér kleift að spila atvinnutennis áhyggjulaus í mörg ár. En ég hafði gert upp hug minn svo ég hafnaði tilboðinu og hætti að lokum að spila í ATP-mótaröðinni. Ég hélt áfram að kynna mér Biblíuna og 2. júlí 1994 lét ég skírast sem vottur Jehóva.

ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Það þurfti ekki harmleik til að ég færi að hugsa um Guð. Og ég var ekki að leita að sannleikanum. Mér fannst líf mitt frekar gott og fór ekki fram á meira. Það var eins og sannleikur Biblíunnar biði eftir því að ég fyndi hann og ég uppgötvaði alveg óvænt að lífið hefur dýpri merkingu og það hefur orðið miklu betra en ég hefði getað ímyndað mér. Fjölskylda okkar er sterkari og samhentari en nokkru sinni fyrr. Og ég er svo ánægður að synir mínir þrír hafa fylgt í mín fótspor – ekki sem íþróttamenn heldur þjónar Guðs.

 Mér finnst enn þá gaman að spila tennis. Í áranna rás hef ég unnið vinnu tengda tennis, til dæmis sem þjálfari og framkvæmdastjóri tennismiðstöðvar. En líf mitt snýst ekki lengur um íþróttir. Áður æfði ég marga klukkutíma á viku til að verða betri tennisleikari, meistari. Núna nýt ég þess að nota tíma minn til að boða trúna í fullu starfi og hjálpa öðrum að læra að heimfæra sömu meginreglur Biblíunnar og breyttu lífi mínu. Ég finn að mesta gleðin felst í því að hafa sambandið við Jehóva Guð í fyrsta sæti og segja öðrum frá voninni um bjartari framtíð. – 1. Tímóteusarbréf 6:19.

a ATP stendur fyrir Samtök atvinnumanna í tennis. Það er stjórn tennismóta í karlaflokki. ATP-mótaröðin stendur fyrir mörgum mótum fyrir atvinnumenn og veitir sigurvegurum stig og verðlaunafé. Heildarstigafjöldi á mótunum ákveður hvar í röðinni spilarinn er á heimslistanum.