Hoppa beint í efnið

Hvernig á maður að biðja? Er faðirvorið besta leiðin?

Hvernig á maður að biðja? Er faðirvorið besta leiðin?

Svar Biblíunnar

 Í faðirvorinu fáum við leiðsögn um það hvernig við ættum að biðja og hvað við ættum að biðja um. Jesús fór með þessa bæn þegar lærisveinar hans sögðu við hann: „Drottinn, kenndu okkur að biðja.“ (Lúkas 11:1) En faðirvorið er ekki eina bænin sem Guð tekur við. a Jesús fór með hana til að gefa fyrirmynd um bænir sem Guð hlustar á.

Í þessari grein

 Hvað segir í faðirvorinu?

 Faðirvorið, sem er að finna í Matteusi 6:9–13, er orðað á mismunandi hátt í ýmsum biblíuþýðingum. Hér eru tvö dæmi:

 Nýheimsþýðing Biblíunnar: „Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist. Láttu ríki þitt koma. Láttu vilja þinn verða á jörð eins og á himni. Gefðu okkur brauð fyrir daginn í dag og fyrirgefðu skuldir okkar eins og við höfum fyrirgefið þeim sem skulda okkur. Leiddu okkur ekki í freistingu heldur frelsaðu okkur frá hinum vonda.“

 Biblían 2010: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni heldur frelsa oss frá illu.“ b

 Hvað merkir faðirvorið?

 Kennsla Jesú var í samræmi við heildarboðskap Biblíunnar svo að við megum búast við því að aðrir hlutar hennar hjálpi okkur að skilja hvað faðirvorið merkir.

„Faðir okkar á himnum“

 Það er við hæfi að kalla Guð ‚föður okkar‘ því að hann skapaði okkur og gaf okkur líf. – Jesaja 64:8.

„Við biðjum að nafn þitt helgist“

 Nafn Guðs, Jehóva, ætti að vera virt og litið á sem heilagt. Fólk á þátt í að helga nafn Guðs þegar það talar um eiginleika hans og segir frá fyrirætlun hans. – Sálmur 83:18; Jesaja 6:3.

„Láttu ríki þitt koma“

 Ríki Guðs er stjórn á himnum með Jesú sem konung. Jesús kenndi okkur að biðja fyrir því að þessi stjórn tæki við völdum og ríkti yfir allri jörðinni. – Daníel 2:44; Opinberunarbókin 11:15.

„Láttu vilja þinn verða á jörð eins og á himni“

 Það er engin illska eða dauði á himnum. Og sömuleiðis er vilji Guðs með jörðina sá að menn lifi á henni að eilífu við frið og öryggi. – Sálmur 37:11, 29.

„Gefðu okkur brauð fyrir daginn í dag“

 Á dögum Jesú var brauð uppistöðufæða. Við ættum að muna að við erum háð skapara okkar til að sjá okkur fyrir því sem við þurfum til að viðhalda lífinu. – Postulasagan 17:24, 25.

„Fyrirgefðu skuldir okkar eins og við höfum fyrirgefið þeim sem skulda okkur“

 Í þessu samhengi er orðið „skuldir“ annað orð yfir syndir. (Lúkas 11:4) Allir menn syndga og þurfa á fyrirgefningu að halda. En ef við viljum fá fyrirgefningu Guðs þurfum við að vera fús til að fyrirgefa þeim sem gera á hlut okkar. – Matteus 6:14, 15.

„Leiddu okkur ekki í freistingu heldur frelsaðu okkur frá hinum vonda“

 Jehóva Guð freistar okkar aldrei til að gera það sem er rangt. (Jakobsbréfið 1:13) En ‚hinn vondi‘, það er að segja Satan Djöfullinn, freistar okkar, en hann er einnig kallaður „freistarinn“. (1. Jóhannesarbréf 5:19; Matteus 4:1–4) Við biðjum Jehóva að hjálpa okkur að vera honum hlýðin þegar við stöndum andspænis freistingum.

 Er það að þylja upp faðirvorið eina leiðin til að biðja?

 Jesús gaf faðirvorið sem fyrirmynd. Hann ætlaðist ekki til þess að það yrði þulið upp orð fyrir orð. Jesús sagði rétt áður en hann fór með faðirvorið: „Þegar þið biðjist fyrir skuluð þið ekki fara með sömu orðin aftur og aftur.“ (Matteus 6:7) Í annarri fyrirmyndarbæn notaði hann öðruvísi orðalag. – Lúkas 11:2–4.

 Besta leiðin til að biðja er að segja Guði í einlægni frá hugsunum okkar og tilfinningum. – Sálmur 62:8.

 Hvernig ættum við að biðja?

 Faðirvorið er gott dæmi um það hvernig við getum beðið þannig að Guð hlusti. Taktu eftir hvernig það er í samræmi við önnur biblíuvers um bænina.

  •   Biddu aðeins til Guðs

     Biblíuvers: „Segið Guði frá öllu sem ykkur liggur á hjarta með því að biðja innilega til hans og þakka honum.“ – Filippíbréfið 4:6.

     Hvað merkir það? Bænir okkar ættu að beinast að Guði – ekki Jesú, Maríu eða dýrlingum. Með upphafsorðunum „faðir okkar“ kennir faðirvorið okkur að biðja aðeins til Jehóva Guðs.

  •   Biddu í samræmi við vilja Guðs

     Biblíuvers: ‚Hann heyrir okkur, hvað sem við biðjum um samkvæmt vilja hans.‘ – 1. Jóhannesarbréf 5:14.

     Hvað merkir það? Við getum beðið um allt sem er í samræmi við vilja Guðs. Jesús kenndi okkur hve mikilvægur vilji Guðs er með því að segja í faðirvorinu: „Láttu vilja þinn verða.“ Við getum fræðst um vilja Guðs með jörðina og mennina með því að rannsaka Biblíuna.

  •   Biddu um það sem snertir þig persónulega

     Biblíuvers: „Varpaðu byrði þinni á Jehóva og hann mun styðja þig.“ – Sálmur 55:22.

     Hvað merkir það? Guði er umhugað um hvernig okkur líður. Rétt eins og Jesús nefndi nokkrar persónulegar bónir í faðirvorinu getum við nefnt í bænum okkar það sem við þurfum dags daglega. Við getum einnig beðið um leiðsögn þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir, stuðning á erfiðum tímum og fyrirgefningu synda okkar. c

a Jesús og lærisveinar hans báðu til dæmis bæna sem voru ekki orðrétt eins og faðirvorið. – Lúkas 23:34; Filippíbréfið 1:9.

b Biblían 2010 lýkur faðirvorinu á frasanum: „Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.“ Þessa leið til að lofa Guð er að finna í sumum biblíum og er þekkt sem lofgjörð. En í The Jerome Biblical Commentary segir: „Lofgjörðina … er ekki að finna í áreiðanlegustu [handritunum].“

c Þeim sem finnst þeir þurfa á fyrirgefningu Guðs að halda gætu verið með of mikið samviskubit til að biðja. En Jehóva höfðar til þeirra þegar hann segir: „Greiðum úr málum okkar.“ (Jesaja 1:18) Hann hafnar ekki neinum sem leitar fyrirgefningar hans í einlægni.