Fyrsta bréf Jóhannesar 5:1–21

  • Trú á Jesú sigrar heiminn (1–12)

    • Það sem felst í því að elska Guð (3)

  • Treystum á mátt bænarinnar (13–17)

  • Gætið ykkar í illum heimi (18–21)

    • Allur heimurinn á valdi hins vonda (19)

5  Allir sem trúa að Jesús sé Kristur eru fæddir af Guði og allir sem elska föðurinn elska þann sem er fæddur af honum.  Við vitum að við elskum börn Guðs ef við elskum Guð og förum eftir boðorðum hans.  Að elska Guð felur í sér að halda boðorð hans og boðorð hans eru ekki þung  því að allir* sem eru fæddir af Guði sigra heiminn. Og það er trú okkar sem hefur gert okkur kleift að sigra heiminn.  Hver getur sigrað heiminn? Er það ekki sá sem trúir að Jesús sé sonur Guðs?  Jesús Kristur er sá sem kom með vatni og blóði, ekki aðeins með vatninu heldur með vatninu og blóðinu. Andinn vitnar um það því að andinn er sannleikurinn.  Þeir eru sem sagt þrír sem vitna:  andinn, vatnið og blóðið, og þeim þrem ber saman.  Við tökum vitnisburð manna gildan en vitnisburður Guðs vegur þyngra. Og Guð hefur sjálfur vitnað um son sinn. 10  Sá sem trúir á son Guðs hefur vitnisburðinn innra með sér. Sá sem trúir ekki á Guð hefur gert hann að lygara því að hann trúir ekki þeim vitnisburði sem Guð hefur gefið um son sinn. 11  Vitnisburðurinn er sá að Guð gaf okkur eilíft líf og þetta líf er í syni hans. 12  Sá sem viðurkennir soninn hlýtur eilíft líf. Sá sem viðurkennir ekki son Guðs hlýtur ekki eilíft líf. 13  Ég skrifa ykkur þetta til að þið vitið að þið hljótið eilíft líf, þið sem trúið á nafn sonar Guðs. 14  Og við berum það traust til Guðs að hann heyri* okkur, hvað sem við biðjum um samkvæmt vilja hans. 15  Fyrst við vitum að hann heyrir okkur, sama hvað við biðjum um, vitum við líka að við fáum það sem við höfum beðið hann um. 16  Ef einhver sér bróður sinn drýgja synd sem leiðir ekki til dauða skal hann biðja og Guð veitir bróðurnum líf, það er að segja þeim sem drýgir ekki synd sem leiðir til dauða. En til er synd sem leiðir til dauða. Ég er ekki að segja honum að biðja fyrir þess konar synd. 17  Allt ranglæti er synd en til er synd sem leiðir ekki til dauða. 18  Við vitum að enginn sem er fæddur af Guði heldur áfram að syndga. Sonur Guðs* gætir hans og hinn vondi getur ekki gert honum neitt.* 19  Við vitum að við erum Guðs megin en allur heimurinn er á valdi hins vonda. 20  Við vitum að sonur Guðs kom og veitti okkur skilning* til að við gætum kynnst hinum sanna Guði. Við erum sameinuð honum vegna sonar hans, Jesú Krists. Þetta er hinn sanni Guð og uppspretta eilífs lífs. 21  Börnin mín, varið ykkur á skurðgoðum.

Neðanmáls

Orðrétt „allt“.
Eða „við getum talað óhikað við hann þar sem hann heyrir“.
Orðrétt „Sá sem er fæddur af Guði“.
Eða „nær ekki taki á honum“.
Orðrétt „greind; vitsmuni“.