Hoppa beint í efnið

Hvað er spádómur?

Hvað er spádómur?

Svar Biblíunnar

 Spádómur er boðskapur innblásinn af Guði. Í Biblíunni segir að spámenn hafi talað „orð frá Guði, knúðir af heilögum anda“. (2. Pétursbréf 1:20, 21) Spámaður er sá sem fær boðskap frá Guði og miðlar honum svo áfram til annarra. – Postulasagan 3:18.

Hvernig fengu spámenn upplýsingar frá Guði?

 Guð notaði ýmsar aðferðir til að miðla boðskap sínum til spámanna sinna:

  •   Skriflega. Guð notaði þessa aðferð að minnsta kosti einu sinni þegar hann lét Móse fá boðorðin tíu rituð á steintöflur. – 2. Mósebók 31:18.

  •   Munnlega fyrir milligöngu engla. Guð notaði til dæmis engil til að gefa Móse leiðbeiningar um skilaboðin sem hann átti að flytja faraó í Egyptalandi. (2. Mósebók 3:2-4, 10) Guð lét engla flytja boðskapinn þegar mikilvægt var að halda nákvæmu orðalagi, eins og þegar hann sagði við Móse: „Skráðu þessi fyrirmæli því að samkvæmt þeim geri ég sáttmála við þig og Ísrael.“ – 2. Mósebók 34:27. a

  •   Sýnir. Spámenn fengu stundum sýnir meðan þeir voru vakandi og með skýra hugsun. (Jesaja 1:1; Habakkuk 1:1) Sumar sýnir voru svo raunverulegar að þeir tóku þátt í þeim. (Lúkas 9:28-36; Opinberunarbókin 1:10-17) Og stundum voru spámennirnir í eins konar leiðslu. (Postulasagan 10:10, 11; 22:17-21) Guð kom boðskap sínum líka á framfæri í gegnum drauma á meðan spámaðurinn svaf. – Daníel 7:1; Postulasagan 16:9, 10.

  •   Andleg leiðsögn. Guð hafði áhrif á hugsun spámanna sinna til að koma boðskap sínum á framfæri. Það felst í eftirfarandi orðum í Biblíunni: „Sérhver ritning er innblásin af Guði.“ Orðalagið „innblásin af Guði“ getur líka þýtt „Guð blés“. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Guð notaði heilagan anda sinn eða starfskraft til að ,blása‘ boðskap sínum í hug þjóna sinna. Boðskapurinn kom frá Guði en spámennirnir völdu orðalagið. – 2. Samúelsbók 23:1, 2.

Fjalla spádómar alltaf um framtíðina?

 Nei, biblíuspádómar segja ekki bara til um framtíðina. Hins vegar tengjast flest skilaboð frá Guði framtíðinni þótt að sum geri það óbeint. Spámenn Guðs vöruðu til dæmis Ísraelsmenn til forna aftur og aftur við rangri breytni. Viðvaranirnar lýstu blessuninni sem Ísraelsmenn hlytu ef þeir tækju mark á þeim og ógæfunni sem fylgdi ef þeir óhlýðnuðust. (Jeremía 25:4-6) Niðurstaðan fór eftir því hvaða stefnu Ísraelsmenn völdu að taka. – 5. Mósebók 30:19, 20.

Dæmi um biblíuspádóma sem sögðu ekki fyrir um framtíðina

  •   Eitt sinn þegar Ísraelsmenn báðu Guð um hjálp sendi hann spámann til að segja þeim að þeir fengju hana ekki af því að þeir neituðu að hlýða boðum hans. – Dómarabókin 6:6-10.

  •   Þegar Jesús talaði við samversku konuna benti hann á ýmislegt úr fortíð hennar sem hann gat aðeins vitað af því að hann fékk opinberun frá Guði. Hún áttaði sig á að hann væri spámaður þótt hann hefði ekki spáð neinu um framtíðina. – Jóhannes 4:17-19.

  •   Þegar Jesús var fyrir dómi huldu óvinir hans andlitið á honum, börðu hann og sögðu svo: „Þú ert spámaður, segðu hver sló þig.“ Þeir báðu ekki Jesú að segja fyrir um framtíðina heldur hver hefði slegið hann til að sýna fram á að hann fengi kraft frá Guði. – Lúkas 22:63, 64.

a Við fyrstu sýn lítur kannski út fyrir að Guð sé að tala beint við Móse í þessu dæmi en Biblían sýnir að Guð sendi engla til að koma Móselögunum á framfæri.