Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um að fasta?

Hvað segir Biblían um að fasta?

Svar Biblíunnar

 Á biblíutímanum hafði Guð velþóknun á föstum ef fólk fastaði af réttum hvötum. Annars voru þær Guði vanþóknanlegar. Hins vegar er fólki hvorki fyrirskipað né bannað að fasta nú á dögum samkvæmt Biblíunni.

Við hvaða tækifæri föstuðu sumir á biblíutímanum?

  •   Þegar þeir leituðu hjálpar Guðs og leiðsagnar. Fólk sem var á leið til Jerúsalem fastaði til að sýna að það leitaði í einlægni hjálpar Guðs. (Esrabók 8:21-23) Páll og Barnabas föstuðu stundum þegar þeir völdu safnaðaröldunga. – Postulasagan 14:23.

  •   Þegar þeir íhuguðu fyrirætlun Guðs. Jesús fastaði í 40 daga eftir skírn sína til að búa sig undir að gera vilja Guðs í þjónustunni sem var framundan. – Lúkas 4:1, 2.

  •   Þegar iðrun vegna fyrri synda var látin í ljós. Guð sagði ótrúum Ísraelsmönnum fyrir milligöngu spámannsins Jóels: ,Snúið yður til mín af öllu hjarta yðar, með föstu, með gráti, með harmakveini.‘ – Jóel 2:12-15.

  •   Þegar friðþægingardagurinn var haldinn hátíðlegur. Í lögmálinu, sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni, var meðal annars boð um að fasta á árlegum friðþægingardegi. a (3. Mósebók 16:29-31) Það var við hæfi að fasta þennan dag því það minnti Ísraelsmenn á að þeir væru ófullkomnir og þyrftu á fyrirgefningu Guðs að halda.

Hvaða röngu hvatir geta búið að baki föstu?

  •   Að vekja aðdáun annarra. Jesús kenndi að trúarleg fasta ætti að vera einkamál milli manns og Guðs. – Matteus 6:16-18.

  •   Að sýna fram á eigið réttlæti. Fasta gerir mann hvorki betri siðferðilega né trúarlega. – Lúkas 18:9-14.

  •   Að reyna að bæta fyrir synd af yfirlögðu ráði. (Jesaja 58:3, 4) Guð viðurkenndi aðeins föstur ef þeim fylgdi hlýðni og einlæg iðrun fyrir syndir.

  •   Þegar fastan er trúarlegt formsatriði. (Jesaja 58:5-7) Að þessu leyti er Guð eins og foreldri, honum mislíkar ef börnin hans tjá honum kærleika af skyldukvöð en ekki af öllu hjarta.

Ber kristnum mönnum skylda til að fasta?

 Nei, Guð ætlaðist til þess að Ísraelsmenn föstuðu á friðþægingardeginum, en þetta boð féll úr gildi þegar Jesús friðþægði fyrir syndir iðrandi fólks í eitt skipti fyrir öll. (Hebreabréfið 9:24-26; 1. Pétursbréf 3:18) Kristnir menn eru ekki undir Móselögunum sem kváðu á um friðþægingardaginn. (Rómverjabréfið 10:4; Kólossubréfið 2:13, 14) Þeir geta þess vegna sjálfir ákveðið hvort þeir fasta. – Rómverjabréfið 14:1-4.

 Kristnir menn skilja að þeir þurfa ekki að fasta til að tilbeiðsla þeirra sé Guði þóknanleg. Í Biblíunni tengist fasta aldrei hamingju. En trú sannkristinna manna einkennist af gleði sem endurspeglar persónuleika Jehóva „hins sæla Guðs“. – 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912; Prédikarinn 3:12, 13; Galatabréfið 5:22.

Ranghugmyndir um afstöðu Biblíunnar til föstu

 Ranghugmynd: Páll postuli ráðlagði kristnum hjónum að fasta. – 1. Korintubréf 7:5, King James á ensku.

 Staðreynd: Í elstu biblíuhandritunum er ekki minnst á föstu í 1. Korintubréfi 7:5. b Biblíuafritarar hafa greinilega bætt við vísunum í föstu, ekki aðeins í þessu versi heldur líka í Matteusi 17:21 og Postulasögunni 10:30. Í flestum nútíma biblíuþýðingum er þessum röngu vísunum í föstu sleppt.

 Ranghugmynd: Kristnir menn eiga að fasta til að minnast þess að Jesús fastaði í 40 daga í eyðimörkinni eftir skírn sína.

 Staðreynd: Jesús fyrirskipaði aldrei slíka föstu og það er heldur ekkert í Biblíunni sem bendir til þess að kristnir menn á fyrstu öld hafi haldið slíkt boð. c

 Ranghugmynd: Kristnir menn eiga að fasta þegar þeir minnast dauða Krists.

 Staðreynd: Jesús sagði ekki að lærisveinar hans ættu að fasta þegar þeir minnast dauða hans. (Lúkas 22:14-18) Enda þótt Jesús hafi sagt að lærisveinar hans myndu fasta þegar hann dæi, voru það ekki fyrirmæli heldur var hann bara að segja hvað myndi gerast. (Matteus 9:15) Í Biblíunni er kristnum mönnum sagt að borða heima hjá sér áður en þeir halda minningarhátíðina um dauða Jesú. – 1. Korintubréf 11:33, 34.

a Guð sagði við Ísraelsmenn: Á friðþægingardeginum „skuluð þið fasta“. (3. Mósebók 16:29, 31; Jesaja 58:3)

b Sjá A Textual Commentary on the Greek New Testament eftir Bruce M. Metzger, þriðja útgáfa, bls. 554.

c Um sögu 40 daga páskaföstu eða lönguföstu segir New Catholic Encyclopedia: „Fyrstu þrjár aldirnar var föstutímabilið í aðdraganda páskahátíðarinnar í mesta lagi ein vika. Það takmarkaðist yfirleitt við einn eða tvo daga ... Það var fyrst minnst á 40 daga föstu í ályktun kirkjuþingsins í Níkeu (325), en sumir fræðimenn draga í efa að um páskaföstu sé að ræða.“ – Önnur útgáfa, 8. bindi, bls. 468.