Hoppa beint í efnið

Mun Guð fyrirgefa mér?

Mun Guð fyrirgefa mér?

Svar Biblíunnar

 Já, Guð mun fyrirgefa þér ef þú berð þig rétt að. Í Biblíunni segir að Guð sé „fús til að fyrirgefa“ og að hann ‚fyrirgefi ríkulega‘. (Nehemíabók 9:17; Sálmur 86:5; Jesaja 55:7, neðanmáls) Þegar hann fyrirgefur okkur gerir hann það algerlega. Syndir okkar eru „afmáðar“, eða þurrkaðar út. (Postulasagan 3:19) Fyrirgefning Guðs er líka varanleg því að hann segir: „Ég mun … ekki framar minnast synda þeirra“. (Jeremía 31:34) Þegar hann fyrirgefur minnist hann ekki synda okkar aftur til að ásaka okkur eða refsa í sífellu.

 En fyrirgefning Guðs er ekki byggð á veikleika eða tilfinningasemi. Hann breytir aldrei réttlátum mælikvarða sínum. Og þess vegna fyrirgefur hann ekki sumar syndir. – Jósúabók 24:19, 20.

Hvað þarftu að gera til að hljóta fyrirgefningu Guðs?

  1.  Viðurkenndu að synd þín sé brot á mælikvarða Guðs. Synd þín gæti hafa sært aðra en þú þarft fyrst og fremst að gera þér grein fyrir að hún er brot gegn Guði. – Sálmur 51:1, 4; Postulasagan 24:16.

  2.  Játaðu synd þína fyrir Guði í bæn. – Sálmur 32:5; 1. Jóhannesarbréf 1:9.

  3.  Iðrastu syndar þinnar. „Hryggðin sem er Guði að skapi“ leiðir til iðrunar, eða breytingu á hugsunarhætti. (2. Korintubréf 7:10) Það felur í sér að sjá eftir því sem leiddi til syndarinnar. – Matteus 5:27, 28.

  4.  Breyttu um stefnu, eða ‚snúðu við‘. (Postulasagan 3:19) Það getur þýtt að forðast einn ákveðinn verknað eða venju. En það getur líka þýtt að þú þurfir að breyta því algerlega hvernig þú hugsar og hegðar þér. – Efesusbréfið 4:23, 24.

  5.  Leggðu þig fram um að leiðrétta það sem miður fór eða bæta skaðann sem þú ollir. (Matteus 5:23, 24; 2. Korintubréf 7:11) Biddu þá sem við koma málinu afsökunar og gerðu þitt besta til að ná sáttum. – Lúkas 19:7–10.

  6.  Biddu Guð um fyrirgefningu á grundvelli lausnarfórnar Jesú. (Efesusbréfið 1:7) Til að bæn þinni verði svarað þarft þú að fyrirgefa þeim sem hafa gert á hlut þinn. – Matteus 6:14, 15.

  7.  Ef syndin er alvarleg skaltu tala við einhvern sem er hæfur til að veita þér þá andlegu aðstoð sem þú þarft og getur beðið fyrir þér. – Jakobsbréfið 5:14–16.

Ranghugmyndir um fyrirgefningu Guðs

 „Ég hef syndgað of mikið til að fá fyrirgefningu.“

Guð fyrirgaf Davíð hjúskaparbrot og morð.

 Svo framarlega sem við fylgjum leiðbeiningum Biblíunnar fáum við fyrirgefningu þar sem geta Guðs til að fyrirgefa er meiri en syndir okkar. Hann getur bæði fyrirgefið alvarlegar syndir og syndir sem við höfum drýgt aftur og aftur. – Jesaja 1:18.

 Davíð konungi Ísraels var til dæmis fyrirgefið hjúskaparbrot og morð. (2. Samúelsbók 12:7–13) Páli postula fannst hann hafa verið versti syndari í heimi, en honum var líka fyrirgefið. (1. Tímóteusarbréf 1:15, 16) Og Gyðingunum á fyrstu öld sem voru ábyrgir fyrir því að drepa Jesú, Messías, var meira að segja fyrirgefið ef þeir breyttu um stefnu. – Postulasagan 3:15, 19.

 „Syndir mínar eru fyrirgefnar ef ég játa þær fyrir presti.“

 Enginn maður hefur umboð til að fyrirgefa öðrum manni synd sem hann drýgði gegn Guði. Þó að það geti hjálpað manni að játa syndir fyrir öðrum er það aðeins Guð sem getur fyrirgefið syndir. – Efesusbréfið 4:32; 1. Jóhannesarbréf 1:7, 9.

 En hvað átti Jesús þá við þegar hann sagði postulunum: „Ef þið fyrirgefið öðrum syndir þeirra eru þær fyrirgefnar. Ef þið fyrirgefið ekki syndir annarra eru þær ekki fyrirgefnar“? (Jóhannes 20:23) Hann var að lýsa einstakri heimild sem hann myndi veita postulunum þegar þeir fengju heilagan anda. – Jóhannes 20:22.

 Eins og lofað hafði verið fengu postularnir þessa náðargjöf þegar heilögum anda var úthellt árið 33. (Postulasagan 2:1–4) Pétur postuli nýtti sér þessa heimild þegar hann dæmdi í máli Ananíasar og Saffíru. Páll vissi fyrir kraftaverk af ráðabruggi þeirra og dómur hans gaf í skyn að þeim yrði ekki fyrirgefið. – Postulasagan 5:1–11.

 Þessi náðargjöf heilags anda og aðrar, eins og að lækna og tala önnur tungumál, dóu út með postulunum. (1. Korintubréf 13:8–10) Þess vegna getur enginn maður í dag sýknað annan mann af synd sinni.