Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau buðu sig fúslega fram – í Rússlandi

Þau buðu sig fúslega fram – í Rússlandi

VOTTAR JEHÓVA í Rússlandi voru alsælir þegar starfsemi þeirra var leyfð aftur árið 1991 eftir áratugalangt bann og þeir hlutu opinbera viðurkenningu sem trúfélag. Á þeim tíma hefðu fáir getað ímyndað sér að tala votta þar í landi myndi tífaldast. Núna eru þeir um 170.000 talsins. Meðal þessara dugmiklu boðbera Guðsríkis í Rússlandi eru vottar sem hafa flust að frá öðrum löndum til að hjálpa til við andlegu uppskeruna. (Matt. 9:37, 38) Kynnumst nokkrum þeirra.

FÚSIR BRÆÐUR HJÁLPUÐU TIL VIÐ AÐ STYRKJA SÖFNUÐINA

Matthew, sem bjó í Bretlandi, var 28 ára þegar banninu var aflétt í Rússlandi. Á móti, sem var haldið sama ár, var flutt ræða þar sem bent var á hve mikil þörf var á aðstoð í söfnuðum í Austur-Evrópu. Ræðumaðurinn nefndi dæmi um söfnuð í Sankti Pétursborg í Rússlandi þar sem var aðeins einn safnaðarþjónn og engir öldungar. Boðberarnir stýrðu samt nokkur hundruð biblíunámskeiðum. „Ég gat ekki hætt að hugsa um Rússland eftir þessa ræðu,“ segir Matthew. „Í bænum mínum til Jehóva ræddi ég því sérstaklega um löngun mína til að flytja þangað.“ Hann lagði fyrir, seldi flest sem hann átti og flutti til Rússlands árið 1992.Hvernig gekk honum þar?

Matthew

„Tungumálið var erfitt,“ segir Matthew. „Ég gat ekki átt neinar almennilegar samræður um andleg mál.“ Það var ekki heldur auðvelt að finna húsnæði. „Ég hætti að telja öll skiptin sem ég þurfti að flytja með stuttum fyrirvara.“ Þrátt fyrir þessa byrjunarörðugleika segir Matthew: „Að flytja til Rússlands var besta ákvörðun sem ég hef tekið.“ Hann útskýrir hvers vegna: „Eftir að ég kom hingað hef ég lært að treysta miklu meira á Jehóva en áður og ég hef fundið fyrir leiðsögn hans á margan hátt.“ Matthew var síðar útnefndur öldungur og sérbrautryðjandi og núna starfar hann á deildarskrifstofunni í grennd við Sankti Pétursborg.

Hiroo útskrifaðist úr Þjónustuþjálfunarskólanum í Japan árið 1999, þá 25 ára að aldri. Einn kennaranna hvatti hann til að flytja til annars lands til að hjálpa til. Hiroo hafði heyrt um hve mikil þörf var á bræðrum í Rússlandi og fór því að læra rússnesku. Hann gerði líka annað. „Ég fór til Rússlands í hálft ár. Þar sem veturnir þar eru erfiðir fór ég í nóvember til að sjá hvort ég gæti þolað kuldann,“ segir hann. Þegar veturinn var á enda fór hann aftur til Japans. Þar lifði hann mjög einföldu lífi til að geta safnað sér fyrir næstu ferð en í þetta sinn var stefnan að flytja til Rússlands til frambúðar.

Hiroo og Svetlana

Hiroo hefur nú búið í Rússlandi í 12 ár og starfað í nokkrum söfnuðum. Stundum var hann eini öldungurinn í rúmlega hundrað manna söfnuði. Í einum söfnuðinum sá hann í hverri viku um flest atriði þjónustusamkomunnar, Boðunarskólann, Varðturnsnámið og stýrði bóknáminu í fimm mismunandi hópum. Auk þess fór hann í margar hirðisheimsóknir. Hiroo lítur um öxl og segir: „Það veitti mér mikla ánægju að geta hjálpað bræðrum og systrum að verða sterkari í trúnni.“ Hvaða áhrif hafði það á hann að starfa þar sem þörfin var mikil? Hann segir: „Áður en ég kom til Rússlands var ég öldungur og brautryðjandi en hér finnst mér ég hafa kynnst Jehóva alveg upp á nýtt. Ég hef lært að leggja meira traust á hann á öllum sviðum lífsins.“ Árið 2005 kvæntist Hiroo Svetlönu og þau starfa nú saman sem brautryðjendur.

Michael og Olga með Marinu og Matthew

Matthew, sem er 34 ára, og bróðir hans Michael, sem er 28 ára, eru frá Kanada. Þeir fóru báðir í heimsókn til Rússlands og fannst merkilegt að sjá hve margir áhugasamir mættu á samkomur en hve fáir bræðurnir voru sem gátu séð um þær. Matthew segir: „Í söfnuðinum, sem ég heimsótti, mættu 200 manns á samkomur en það var bara einn roskinn öldungur og einn ungur safnaðarþjónn sem stýrðu öllum samkomunum. Þegar ég sá þetta langaði mig til að flytja þangað og aðstoða þessa bræður.“ Hann flutti til Rússlands árið 2002.

Fjórum árum síðar flutti Michael til Rússlands og hann komst fljótlega að raun um að þar var enn mikil þörf á bræðrum. Þar sem hann var safnaðarþjónn var honum falið að sjá um bókhaldið, ritin og svæðin. Hann var líka beðinn um að annast störfin sem ritari safnaðarins sér venjulega um, flytja opinbera fyrirlestra og hjálpa til við að skipuleggja mót og byggja ríkissali. Reyndar er enn þá mikil þörf á aðstoð í söfnuðunum. Þó að það kosti heilmikla vinnu að sinna mörgum verkefnum segir Michael sem nú er orðinn öldungur: „Það veitir mér mikla lífsfyllingu að aðstoða bræðurna. Ég gæti ekki notað líf mitt á betri hátt!“

Báðir bræðurnir eru nú kvæntir, Matthew kvæntist Marinu og Michael Olgu. Hjónin halda áfram að hjálpa til í sívaxandi söfnuðum ásamt mörgum öðrum fúsum þjónum Jehóva.

DUGMIKLAR SYSTUR HJÁLPA TIL VIÐ UPPSKERUNA

Tatjana

Árið 1994, þegar Tatjana var 16 ára, fluttu sex sérbrautryðjendur frá Tékklandi, Póllandi og Slóvakíu í söfnuðinn hennar í Úkraínu. Hún minnist þeirra með hlýju og segir: „Þetta voru dugmiklir brautryðjendur. Það var auðvelt að nálgast þá, þeir voru góðhjartaðir og vel að sér í Biblíunni.“ Hún tók eftir að Jehóva blessaði fórnfýsi þeirra og hugsaði með sér: „Mig langar að vera eins og þeir.“

Það var Tatjönu mikil hvatning að fylgjast með brautryðjendunum og hún notaði því skólafríin til að ferðast með öðrum til afskekktra svæða í Úkraínu og Hvíta-Rússlandi þar sem aldrei hafði verið starfað áður. Hún hafði svo mikla ánægju af þessum boðunarferðum að hún ákvað að auka starfið með því að flytja til Rússlands. Hún byrjaði á að fara í stutta heimsókn til að leita sér að vinnu sem hentaði samfara brautryðjandastarfinu og bjó þá hjá systur sem hafði flutt þangað áður. Árið 2000 flutti hún svo til Rússlands. Var þetta erfið breyting?

Tatjana segir: „Ég hafði ekki efni á íbúð svo að ég þurfti að leigja herbergi á heimili annarra. Það var ekki auðvelt. Stundum langaði mig til að flytja aftur heim. En Jehóva hjálpaði mér alltaf að sjá að það væri mér til góðs að halda út.“ Núna er Tatjana trúboði í Rússlandi. Hún segir: „Öll þessi ár fjarri heimalandinu hafa veitt mér ómetanlega reynslu og marga vini. Og það verðmætasta er að trú mín hefur styrkst.“

Masako

Masako frá Japan, sem er núna rúmlega fimmtug, hafði alltaf langað til að verða trúboði en vegna heilsuvandamála virtist það ekki vera hægt. Heilsan batnaði þó aðeins og hún ákvað þá að flytja til Rússlands til að taka þátt í uppskerustarfinu. Þó að það væri erfitt að finna hentugt húsnæði og örugga vinnu tókst henni að sjá fyrir sér með því að kenna japönsku og taka að sér ræstingar. Hvað hefur hjálpað henni að halda út í brautryðjandastarfinu?

Masako hefur nú starfað í Rússlandi í rúm 14 ár. Hún lítur um öxl og segir: „Ánægjan af boðuninni bætir upp alla erfiðleika sem mæta mér. Að boða trúna á svæðum þar sem mikil þörf er á boðberum gerir lífið innihaldsríkt og spennandi.“ Hún bætir við: „Það hefur verið algert kraftaverk að finna persónulega fyrir því hvernig Jehóva hefur séð mér fyrir mat, fatnaði og húsnæði öll þessi ár.“ Auk þess að starfa þar sem er mikil þörf í Rússlandi hefur Masako tekið þátt í uppskerustarfinu í Kirgistan. Hún hefur líka aðstoðað í ensku-, kínversku- og úýgúrmælandi hópum. Núna er hún brautryðjandi í Sankti Pétursborg.

FJÖLSKYLDUR VEITA STUÐNING OG HLJÓTA BLESSUN FYRIR

Inga og Mikhail

Vegna óstöðugs efnahags í heimalandinu hafa margar fjölskyldur flutt út fyrir landsteinana til að bæta fjárhagsstöðu sína. En sumar fjölskyldur hafa flutt til annars lands vegna andlegra markmiða líkt og Abraham og Sara gerðu forðum daga. (1. Mós. 12:1-9) Mikhail og Inga eru hjón frá Úkraínu sem fluttu til Rússlands árið 2003. Ekki leið á löngu þar til þau hittu fólk sem leitaði að sannleika Biblíunnar.

Mikhail segir svo frá: „Eitt sinn störfuðum við á svæði þar sem vottar höfðu aldrei áður boðað trúna. Aldraður maður kom til dyra í húsi einu og spurði: ,Eruð þið í trúboði?‘ Þegar við játuðum því sagði hann: ,Ég vissi að þið kæmuð fyrr eða síðar. Það er óhugsandi að orð Jesú rætist ekki.‘ Síðan vitnaði hann í Matteus 24:14.“ Mikhail bætir við: „Á sama svæði hittum við hóp baptista, um tíu einlægar konur sem þyrsti í sannleikann. Þær áttu bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð og notuðu hana við biblíunám hverja helgi. Við sátum með þeim í marga klukkutíma, svöruðum spurningum þeirra, sungum saman ríkissöngva og borðuðum svo með þeim kvöldmat. Fátt er mér eins minnisstætt og þessi heimsókn.“ Mikhail og Inga eru sammála um að það hafi dregið þau nær Jehóva að starfa á svæði þar sem mikil þörf er á boðberum. Það hefur líka styrkt kærleika þeirra til fólks og veitt þeim mikla ánægju í lífinu. Þau eru núna í farandstarfi.

Oksana, Aleksej og Júrí

Júrí og Oksana, hjón á fertugsaldri frá Úkraínu, og sonur þeirra Aleksej, sem núna er 13 ára, heimsóttu deildarskrifstofuna í Rússlandi árið 2007. Þar sáu þau kort af Rússlandi sem sýndi að stór svæði voru enn óúthlutuð. Oksana segir: „Þegar við sáum þetta kort gerðum við okkur grein fyrir hve gífurleg þörf var á boðberum. Þetta hjálpaði okkur að ákveða að flytja til Rússlands.“ Hvað annað hjálpaði þeim að taka þessa ákvörðun? Júrí segir: „Við lásum greinar í ritunum okkar eins og ,Geturðu starfað erlendis?‘ og það var okkur mikil hvatning. * Deildarskrifstofan mælti með ákveðnu svæði sem við gætum flutt á. Við fórum því þangað til að leita að húsnæði og vinnu.“ Þau fluttu síðan til Rússlands árið 2008.

Til að byrja með var erfitt að finna vinnu og þau þurftu nokkrum sinnum að flytja úr einni íbúð í aðra. Júrí segir: „Við báðum Jehóva oft um hjálp til að missa ekki móðinn. Síðan héldum við boðuninni áfram og treystum að hann myndi styðja okkur. Við fundum hvernig Jehóva annaðist okkur þegar við settum ríki hans í fyrsta sæti. Það hefur bæði styrkt fjölskylduböndin og samband okkar við Jehóva að starfa þar sem þörfin er mikil.“ (Matt. 6:22, 33) Og hvaða áhrif hefur það haft á Aleksej? „Það hefur sannarlega verið honum til góðs,“ segir Oksana. „Hann vígði sig Jehóva og skírðist níu ára gamall. Hann sér hve mikil þörf er á svæðinu og notar því öll skólafríin til að vera aðstoðarbrautryðjandi. Við erum mjög ánægð að sjá hve annt honum er um boðunina og hve mikið hann leggur sig fram við hana.“ Júrí og Oksana eru nú sérbrautryðjendur.

„ÞAÐ EINA SEM ÉG SÉ EFTIR“

Þeir sem flytja búferlum til að geta átt meiri þátt í uppskerustarfinu þurfa að treysta Jehóva í einu og öllu eins og frásögur þessara dyggu þjóna bera með sér. Þeir mæta vissulega ýmsum erfiðleikum á nýja starfssvæðinu en þeir fá líka að finna fyrir þeirri miklu gleði sem fylgir því að boða fagnaðarerindið meðal fólks sem tekur boðskapnum fagnandi. Gætir þú hjálpað til við uppskerustörfin á svæði þar sem enn er mikil þörf á boðberum? Ef þú ákveður að gera það á þér kannski eftir að líða eins og Júrí sem sagði um ákvörðun sína að flytja á slíkt svæði: „Það eina sem ég sé eftir er að hafa ekki gert það fyrr.“

^ Greinin kom ekki út á íslensku en birtist á ensku í Varðturninum 15. október 1999, bls. 23-27.