Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UNGLINGAR

Er jaðarsport áhættunnar virði?

Er jaðarsport áhættunnar virði?

VANDINN

„Ég stóð inni í lestargöngum þegar lest kom á ógnarhraða. Ég fann adrenalínið flæða um líkamann þar sem ég stóð rétt hjá lestinni og vandamál mín virtust hverfa.“ – Leon. *

„Þegar ég stakk mér ofan í vatn af hættulega háum klettum fann ég fyrir fullkomnu frelsi í nokkrar sekúndur. Oftast var það gaman en stundum var ég samt hrædd.“ – Larissa.

Mörgum ungmennum finnst spennandi að ögra sér líkt og Leon og Larissu. Stundum leggja þau sig jafnvel í mikla hættu til þess. Freistar það þín? Þá er þessi grein fyrir þig.

GOTT ER AÐ VITA

Eftirsókn í spennu getur orðið að fíkn. Hún getur gefið þér sælutilfinningu um stund en síðan fengið þig til að þurfa enn meiri spennu. Marco leitaði spennu í lestargöngum eins og Leon. Hann segir: „Þetta var vítahringur. Það var gaman í smá stund en ég þurfti alltaf meira.“

Justin fannst gaman að skauta á fleygiferð með því að grípa í bíla sem keyrðu hjá. Hann segir: „Spennan, sem ég upplifði, fékk mig til að gera það aftur. Ég vildi láta aðra dást að mér en í staðinn endaði ég á sjúkrahúsi.“

Hópþrýstingur getur skert dómgreindina. Ungur maður að nafni Marvin segir: „Vinir mínir mönuðu mig til að klifra án nokkurs öryggisbúnaðar upp háa byggingu. Þeir sögðu: ,Koma svo, þú getur þetta!‘ Ég var mjög óöruggur og skalf þar sem ég fikraði mig upp vegginn.“ Larissa, sem minnst var á fyrr í greininni, segir: „Ég gerði bara eins og allir hinir og fylgdi hópnum.“

Á Netinu myndast líka hópþrýstingur þegar spennufíklarnir eru hylltir og lítið er gert úr hættunum. Sum áhættuatriði, sem eru sett á samfélagsmiðla, verða gífurlega vinsæl. Þeir sem stunda jaðarsport fá þannig viðurkenningu og athygli.

Til dæmis eru vinsæl myndskeið sem sýna „parkour“ – en þeir sem stunda það hlaupa, klifra og stökkva hratt og fimlega án nokkurs öryggisbúnaðar yfir hindranir svo sem veggi, hús og tröppur. Af þessum myndskeiðum gæti maður dregið tvær rangar ályktanir: (1) að hætturnar séu óverulegar og (2) að allir stundi þetta. Það gæti freistað manns til að prófa eitthvað sem setur mann í lífshættu.

Það er hægt að reyna á getu sína á öruggari hátt. „Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu,“ segir í Biblíunni. (1. Tímóteusarbréf 4:8) En hún minnir okkur einnig á að „lifa hóglátlega“. (Títusarbréfið 2:12) Hvernig getum við gert það?

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Áttaðu þig á hættunum. Í Biblíunni segir: „Vitur maður fer að öllu með hyggindum en flónið dreifir um sig heimsku.“ (Orðskviðirnir 13:16) Kynntu þér hætturnar áður en þú ákveður að taka þátt í ákveðnu sporti. Spyrðu þig hvort þú værir að setja þig í lífshættu með því. – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 14:15.

Veldu þér vini sem bera virðingu fyrir lífinu. Sannir vinir myndu ekki reyna að hvetja þig til að taka óþarfa áhættu eða reyna að fá þig til að gera eitthvað sem þú vilt ekki. Larissa segir: „Góðir og traustir vinir hjálpuðu mér að taka skynsamlegar ákvarðanir um áhugamál. Þegar ég breytti vali mínu á vinum breyttist líf mitt.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 13:20.

Spyrðu þig hvort þú værir að setja þig í lífshættu með því að stunda ákveðið sport.

Leyfðu hæfileikum þínum að njóta sín án þess að leggja lífið að veði. Hluti af því að fullorðnast er „að setja sér sínar eigin lífsreglur og mörk“, segir í bókinni Adolescent Risk Behaviors. Þú getur prófað getu þína í öruggu umhverfi og með viðeigandi varúðarráðstafanir.

Byggðu upp virðingu fyrir sjálfum þér. Fólk á eftir að meta þig eftir því hvernig þú tekst á við áskoranir daglegs lífs en ekki fyrir hvaða áhættur þú þorir að taka. Larissa segir: „Klettadýfingar voru bara byrjunin á tímabili í lífi mínu þar sem ég gerði margt sem gat skaðað mig. Það hefði verið betra fyrir mig að kunna að setja mörk.“

Kjarni málsins: Sýndu góða dómgreind þegar þú velur þér áhugamál í stað þess að sækja í spennu sem kostar óþarfa áhættu. – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 15:24.

^ gr. 4 Sumum nöfnum í þessari grein er breytt.