Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Munu hryðjuverk einhvern tíma heyra sögunni til?

Munu hryðjuverk einhvern tíma heyra sögunni til?

 Eftir hryðjuverkaárás er eðlilegt að fólk spyrji sig: „Er Guði alveg sama? Hvers vegna gerist þetta? Taka hryðjuverk a einhvern tíma enda? Hvernig get ég lifað við óttann sem ég finn?“ Biblían gefur fullnægjandi svör við þessum spurningum.

Hvað finnst Guði um hryðjuverk?

 Guð hatar ofbeldi og hryðjuverk. (Sálmur 11:5; Orðskviðirnir 6:16, 17) Og fulltrúi Guðs, Jesús, ávítaði lærisveina sína þegar þeir gripu til ofbeldis. (Matteus 26:50–52) Þótt sumir segist beita ofbeldi í nafni Guðs veitir hann þeim ekki leyfi fyrir þessum verkum. Hann hlustar ekki einu sinni á bænir þeirra. – Jesaja 1:15.

 Jehóva er annt um alla sem þjást, þar á meðal þá sem verða fyrir hryðjuverkaárásum. (Sálmur 31:7; 1. Pétursbréf 5:7) Biblían segir líka að Guð eigi eftir að taka í taumana og binda enda á ofbeldi. – Jesaja 60:18.

Rót vandans

 Biblían segir hver sé raunveruleg ástæða hryðjuverka: „Alla tíð hefur einn maður drottnað yfir öðrum honum til tjóns.“ (Prédikarinn 8:9) Í gegnum tíðina hefur valdamikið fólk notað hryðjuverk til að kúga aðra. Og þeir sem sæta kúgun nota hryðjuverk til að berjast á móti. – Prédikarinn 7:7.

Endir hryðjuverka

 Guð lofar að eyða ótta og ofbeldi og koma á friði á jörð. (Jesaja 32:18; Míka 4:3, 4) Hann mun gera eftirfarandi:

  •   Fjarlægja orsök hryðjuverka. Guð skiptir stjórnum manna út fyrir alheimsstjórn sína. Stjórnandi hennar, Jesús Kristur, mun koma fram við alla af sanngirni og útrýma kúgun og ofbeldi. (Sálmur 72:2, 14) Þá grípur enginn til hryðjuverka. Fólk mun „gleðjast yfir miklum friði“. – Sálmur 37:10, 11.

  •   Bæta allan þann skaða sem hryðjuverk hafa valdið. Guð mun lækna fólk af sárum af völdum hryðjuverka, hvort sem þau eru líkamleg eða tilfinningaleg. (Jesaja 65:17; Opinberunarbókin 21:3, 4) Hann lofar meira að segja að vekja látna til lífs á ný á friðsælli jörð. – Jóhannes 5:28, 29.

 Biblían gefur okkur góða ástæðu til að trúa því að Guð taki brátt í taumana. En þú veltir kannski fyrir þér hvers vegna Guð hafi ekki nú þegar bundið enda á hryðjuverk. Sjáðu svarið við því í myndbandinu Af hverju leyfir Guð þjáningar?

a „Hryðjuverk“ á yfirleitt við það þegar fólk beitir eða hótar ofbeldi – sérstaklega gegn óbreyttum borgurum – til að vekja ótta og ná ákveðnu markmiði í stjórnmálum, trúmálum eða þjóðfélagsmálum. En fólki getur greint á um hvort ákveðinn verknaður ætti að teljast hryðjuverk eða ekki.