Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er hægt að hafa stjórn á áhyggjum?

Hvernig er hægt að hafa stjórn á áhyggjum?

 Óhóflegar áhyg gjur geta skaðað mann líkamlega og tilfinningalega. Þær geta jafnvel orsakað alvarlegri vandamál en þau sem þú hafðir upphaflega áhyggjur af.

Ráð til að takmarka áhyggjur

  •  Takmarkaðu hversu mikið þú horfir á, lest eða hlustar á slæmar fréttir. Þú þarft ekki að vita allt um það slæma sem gerist. Að fylgjast í þaula með slæmum fréttum eykur aðeins á ótta og örvæntingu.

     Meginregla Biblíunnar: „Depurð dregur úr manni allan þrótt.“ – Orðskviðirnir 17:22.

     „Það er auðvelt að verða háður því að þurfa stöðugt að fylgjast með nýjum og átakanlegum fréttum, en það er óheilbrigð venja. Áhyggjurnar minnka umtalsvert þegar ég fylgist ekki eins mikið með fréttum.“ – John.

     Til umhugsunar: Hversu oft þarftu í raun að fylgjast með fréttum?

  •  Fylgdu dagskrá. Reyndu að vakna, borða, gera húsverk og fara í háttinn á ákveðnum tíma. Að fylgja dagskrá hjálpar til við að hafa ákveðinn takt í lífinu og dregur úr áhyggjum.

     Meginregla Biblíunnar: „Áform hins iðna leiða til góðs.“ – Orðskviðirnir 21:5.

     „Þegar COVID-19 faraldurinn braust út vanrækti ég algerlega dagskrána mína og það endaði með því að ég notaði of mikinn tíma í afþreyingu. Mig langaði að nota tímann betur svo að ég gerði dagskrá yfir það sem ég þurfti að gera daglega.“ – Joseph.

     Til umhugsunar: Ertu með dagskrá sem hjálpar þér að finnast þú hafa áorkað einhverju í lok hvers dags?

  •  Einbeittu þér að því sem er jákvætt. Ef þú hugsar stöðugt „hvað ef“ og sérð fyrir þér það versta sem getur gerst eykur það aðeins tilhneiginguna til að hafa áhyggjur. Hugsaðu þess í stað um tvennt eða þrennt sem þú getur verið þakklátur fyrir.

     Meginregla Biblíunnar: „Verið … þakklát.“ – Kólossubréfið 3:15.

     „Þegar ég les í Biblíunni hjálpar það mér að fylla ekki hugann af vondum fréttum en horfa frekar á það jákvæða. Þetta hljómar kannski klisjukennt, en það virkar!“ – Lisa.

     Til umhugsunar: Hefurðu tilhneigingu til að hugsa um það neikvæða í lífinu og gleyma því jákvæða?

  •  Hugsaðu um aðra. Ef þú hefur stöðugar áhyggjur finnst þér kannski freistandi að einangra þig. Hugsaðu þess í stað um hvernig þú gætir hjálpað öðrum.

     Meginregla Biblíunnar: „Hugsið ekki aðeins um ykkar eigin hag heldur einnig hag annarra.“ – Filippíbréfið 2:4.

     „Að gera eitthvað fyrir aðra gefur mér gleði. Það hefur góð áhrif á þá og á sama tíma dregur það úr áhyggjum hjá mér. Meðan ég er upptekin við að hjálpa öðrum hef ég ekki tíma til að hafa áhyggjur.“ – Maria.

     Til umhugsunar: Hverjir gætu þurft á hjálp að halda sem þú þekkir og hvað gætirðu gert til að hjálpa þeim?

  •  Hlúðu að heilsunni. Fáðu næga hreyfingu og hvíld. Borðaðu hollan mat. Þegar þú hugsar vel um heilsuna getur það hjálpað þér að hafa jákvætt viðhorf til lífsins og dregið úr áhyggjum.

     Meginregla Biblíunnar: „Líkamleg æfing er gagnleg.“ – 1. Tímóteusarbréf 4:8.

     „Við sonur minn getum ekki verið eins mikið úti við og við vildum þannig að æfingar innandyra eru hluti af dagskrá okkar heima. Þetta hjálpar okkur að vera sátt við okkur sjálf og bætir líka samskiptin okkar á milli.“ – Catherine.

     Til umhugsunar: Þyrftirðu að bæta mataræði þitt og æfa þig meira til að stuðla að betri heilsu?

 Auk þess að fylgja þessum ráðum til að draga úr áhyggjum hafa margir haft gagn af því að kynnast áreiðanlegum loforðum Biblíunnar um betri framtíð. Sjá greinina „Hverju kemur ríki Guðs til leiðar?