Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

2. KAFLI

Hvernig geturðu varðveitt góða samvisku?

Hvernig geturðu varðveitt góða samvisku?

„Hafið góða samvisku.“ — 1. PÉTURSBRÉF 3:16.

1, 2. Hvers vegna er áttaviti mikilvægt leiðsögutæki og hvað er líkt með honum og samviskunni?

SKIPSTJÓRI stýrir skipi sínu um opið haf, göngumaður fer einn um óbyggðir og flugmaður flýgur vél sinni rétta leið yfir skýjabreiður sem teygja sig eins langt og augað eygir. Veistu hvað þessir menn eiga sameiginlegt? Þeir væru allir í vanda staddir ef þeir hefðu ekki áttavita eða önnur leiðsögutæki.

2 Áttaviti er einfalt tæki, yfirleitt ekki annað en skífa með segulnál sem vísar í norðurátt. En ef áttaviti er notaður rétt getur hann skilið milli lífs og dauða, ekki síst ef nákvæmt kort er einnig við höndina. Að sumu leyti má líkja áttavitanum við verðmæta gjöf sem Jehóva hefur gefið okkur. Það er samviskan. (Jakobsbréfið 1:17) Án samviskunnar værum við rammvillt. En ef við beitum henni rétt getur hún hjálpað okkur að rata rétta leið og halda réttri stefnu í lífinu. Við skulum því kanna hvað samviskan er og hvernig hún virkar. Síðan lítum við á (1) hvernig hægt er að þjálfa samviskuna, (2) hvers vegna við ættum að taka tillit til samvisku annarra og (3) hvernig það er til blessunar að varðveita góða samvisku.

HVAÐ ER SAMVISKAN OG HVERNIG VIRKAR HÚN?

3. Hvað merkir gríska orðið sem þýtt er „samviska“ og hvaða einstaka hæfileika lýsir hún?

3 Gríska biblíuorðið, sem þýtt er „samviska“, merkir bók- staflega „með-vitneskja“ eða „að vita með sjálfum sér“. Ólíkt öllum öðrum lífverum jarðar gaf Guð okkur þann hæfileika að þekkja sjálf okkur. Við getum í vissum skilningi horft á sjálf okkur úr ákveðinni fjarlægð og fellt siðferðilega dóma. Samviskan er eins og innra vitni eða dómari sem rannsakar verk okkar, viðhorf og ákvarðanir. Hún getur leiðbeint okkur svo að við tökum góða ákvörðun eða varað okkur við slæmri. Eftir á getur hún umbunað okkur fyrir að velja rétt eða refsað okkur stranglega fyrir að gera það ekki.

4, 5. (a) Hvernig vitum við að Adam og Eva höfðu samvisku og hvað gerðist þegar þau brutu lög Guðs? (b) Hvaða dæmi sýna að trúir þjónar Guðs fyrir tíma kristninnar höfðu samvisku?

4 Manninum og konunni var gefinn þessi sérstaki hæfileiki strax í upphafi. Adam og Eva sýndu bæði að þau höfðu samvisku. Við sjáum það af því að þau fundu til sektar eftir að þau höfðu syndgað. (1. Mósebók 3:7, 8) En það var til lítils fyrir þau að fá samviskubit þá. Þau höfðu brotið lög Guðs af ásettu ráði. Þau gerðu uppreisn vitandi vits, gerðust andstæðingar Jehóva Guðs. Þar sem þau voru fullkomin vissu þau mætavel hvað þau voru að gera og nú var ekki aftur snúið.

5 Ólíkt Adam og Evu hafa margir ófullkomnir menn hlýtt rödd samviskunnar. Hinn guðhræddi Job gat til dæmis sagt: „Ég ver rétt minn og sleppi honum ekki, hjarta mitt átelur mig ekki fyrir neinn af dögum mínum.“ * (Jobsbók 27:6) Job var samviskusamur maður. Hann gætti þess að taka mark á ábendingum samviskunnar og lét hana stýra verkum sínum og ákvörðunum. Hann gat því sagt með sanni að samviskan áteldi hann ekki. Hann var ekki þjakaður af sektarkennd. Að þessu leyti var munur á honum og Davíð. Í 1. Samúelsbók 24:6 segir að ,samviskan hafi angrað Davíð‘. Það gerðist eftir að hann hafði sýnt Sál konungi óvirðingu en Sál var smurður til konungs af Jehóva Guði. Hins vegar var samviskubitið Davíð til góðs því að það kenndi honum að sýna ekki slíka óvirðingu aftur.

6. Hvað sýnir að allir menn hafa fengið samviskuna í vöggugjöf?

6 Eru það þá einungis þjónar Jehóva sem hafa samvisku? Lítum á innblásin orð Páls postula: „Þegar heiðingjar, sem þekkja ekki lögmál Móse, gera það eftir eðlisboði sem lögmál Guðs býður, þá eru þeir sjálfum sér lögmál þótt þeir hafi ekki neitt lögmál. Þeir sýna að krafa lögmálsins er skráð í hjörtum þeirra með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra sem ýmist ásaka þá eða afsaka.“ (Rómverjabréfið 2:14, 15) Jafnvel þeir sem vita ekkert um lög Jehóva hegða sér stundum í samræmi við lög hans af því að þessi innri rödd lætur í sér heyra.

7. Hvers vegna getur samviskan stundum vísað rangan veg?

7 En samviskan getur stundum vísað fólki rangan veg. Af hverju? Tökum dæmi. Segjum að áttaviti sé lagður í námunda við segul. Þá getur nálin vísað í aðra átt en norður. Og ef ekki er nákvæmt kort til viðmiðunar getur svo farið að áttavitinn sé næstum gagnslaus. Hið sama er að segja um samviskuna. Ef eigingjarnar tilhneigingar fá að hafa of mikil áhrif á hana getur hún vísað okkur í ranga átt. Og ef henni er beitt án þess að örugg leiðsögn Biblíunnar sé fyrir hendi getum við orðið ófær um að gera greinarmun á réttu og röngu í mörgum mikilvægum málum. Til að samviskan virki rétt þurfum við á leiðsögn heilags anda Jehóva að halda. Páll skrifaði: „Samviska mín, upplýst af heilögum anda, vitnar . . . með mér.“ (Rómverjabréfið 9:1) En hvernig getum við fullvissað okkur um að samviskan starfi í samræmi við heilagan anda Jehóva? Það kallar á fræðslu og þjálfun.

HVERNIG ER HÆGT AÐ ÞJÁLFA SAMVISKUNA?

8. (a) Hvernig getur hjartað haft áhrif á samviskuna og hvað ætti að hafa mest áhrif á ákvarðanir okkar? (b) Af hverju er ekki alltaf nóg fyrir kristinn mann að hafa hreina samvisku? (Sjá neðanmálsgrein.)

8 Hvernig tekurðu ákvörðun með hliðsjón af samviskunni? Sumir virðast einfaldlega miða við hugsanir sínar og tilfinningar og taka ákvörðun eftir því. Síðan segja þeir: „Þetta angrar ekki samvisku mína.“ En langanir hjartans geta verið afar sterkar og jafnvel haft áhrif á samviskuna. „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert. Hver skilur það?“ segir í Biblíunni. (Jeremía 17:9) Það ætti því ekki að vera þyngst á metunum hvað hjartað þráir heldur ættum við að hugleiða fyrst hvað sé Jehóva Guði þóknanlegt. *

9. Hvað er guðsótti og hvaða áhrif getur hann haft á samviskuna?

9 Ef ákvörðun byggist í alvöru á biblíufræddri samvisku endurspeglar hún ekki okkar eigin langanir heldur guðsótta. Lítum á eitt dæmi. Nehemía landstjóri mátti innheimta vissar greiðslur og skatta frá Jerúsalembúum. En hann gerði ekki kröfu til þeirra vegna þess að hann vildi fyrir engan mun eiga á hættu að kúga þjóð Jehóva og baka sér vanþóknun hans. „Ég fór ekki þannig að af því að ég óttaðist Guð,“ sagði hann. (Nehemíabók 5:15) Við þurfum að óttast að baka okkur vanþóknun föðurins á himnum. Þessi heilbrigði og lotningarfulli ótti er okkur hvöt til að leita leiðsagnar í Biblíunni þegar við þurfum að taka ákvarðanir.

10, 11. Hvaða meginreglur er að finna í Biblíunni um notkun áfengis og hvernig getum við fengið leiðsögn Guðs til að heimfæra þær á okkur?

10 Tökum notkun áfengis sem dæmi. Segjum að við séum að gera okkur glaðan dag í góðra vina hópi og sú spurning vakni hvort við eigum að þiggja áfengi eða ekki. Fyrst þurfum við að fræða sjálf okkur. Hvaða meginreglur er að finna í Biblíunni um notkun áfengis? Í fyrsta lagi fordæmir hún ekki hóflega neyslu áfengis heldur kallar vínið gjöf Guðs. (Sálmur 104:14, 15) Hins vegar fordæmir Biblían ofneyslu áfengis og svall. (Lúkas 21:34; Rómverjabréfið 13:13) Drykkjuskapur er settur í flokk með öðrum háalvarlegum syndum á borð við saurlifnað og hórdóm. * — 1. Korintubréf 6:9, 10.

11 Meginreglur sem þessar uppfræða samvisku kristins manns og gera hana næma. Þegar við þurfum að ákveða hvort við ætlum að þiggja áfengi ættum við þess vegna að spyrja okkur: Hvers konar boð er um að ræða? Er líklegt að neysla áfengis fari úr böndum? Hvaða tilhneigingar hef ég? Langar mig í áfengi, er ég háður því eða nota ég það til að hafa áhrif á hugarsástand mitt og hegðun? Hef ég næga sjálfstjórn til að tryggja að ég drekki ekki of mikið? Þegar við íhugum meginreglur Biblíunnar og spurningarnar sem þær vekja ættum við jafnframt að biðja Jehóva að leiðbeina okkur. (Sálmur 139:23, 24) Þá erum við að biðja hann að leiða okkur með heilögum anda sínum. Við erum líka að þjálfa samviskuna svo að hún sé samstillt meginreglum hans. En við þurfum að taka annað með í reikninginn þegar við tökum ákvörðun.

HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ TAKA TILLIT TIL SAMVISKU ANNARRA?

Biblíufrædd samviska getur hjálpað þér að ákveða hvort þú eigir að neyta áfengis eða ekki.

12, 13. Af hverju getur samviskan verið breytileg hjá þjónum Guðs og hvernig eigum við að bregðast við þessum mun?

12 Það gæti komið þér á óvart hve breytileg samviskan getur verið hjá þjónum Guðs. Einn hefur andúð á einhverju sem annar hefur gaman af og finnst engin ástæða til að fordæma. Einum finnst ánægjulegt að fá sér í glas og slaka á með fáeinum vinum en öðrum fellur illa að fólk skuli gera það. Af hverju stafar þessi munur og hvaða áhrif ætti hann að hafa á ákvarðanir okkar?

13 Það eru margar ástæður fyrir því að fólk er ólíkt. Oft má rekja það til aðstæðna á uppvaxtarárunum. Sumir eru sér sárlega meðvitaðir um veikleika sem þeir hafa einhvern tíma átt í baráttu við — stundum með misjöfnum árangri. (1. Konungabók 8:38, 39) Þessir einstaklingar geta verið sérstaklega viðkvæmir þegar um áfengi er að ræða. Ef einhver slíkur kemur í heimsókn til þín má vel vera að samviska hans segi honum með réttu að afþakka áfengi ef það er í boði. Ættirðu að móðgast? Ættirðu að halda því að honum? Nei, bróðurástin gerir þig tillitssaman og gildir þá einu hvort þú veist ástæðurnar fyrir afstöðu hans. Kannski vill hann ekki ræða þær við þessar aðstæður.

14, 15. Í hvaða máli var samviska fólks í frumkristna söfnuðinum breytileg og með hverju mælti Páll?

14 Páll postuli vissi að samviskan var æði breytileg meðal kristinna manna á fyrstu öld. Sumir í söfnuðinum vildu ekki borða mat sem hafði verið færður skurðgoðum að fórn en var síðan seldur á kjöttorginu. (1. Korintubréf 10:25) Samviska Páls hafði ekkert á móti slíkum mat. Hann vissi að skurðgoð voru ekki neitt. Þau gátu aldrei átt matinn enda var hann upphaflega frá Jehóva kominn og tilheyrði honum. En Páll gerði sér grein fyrir því að það voru ekki allir á sömu skoðun og hann. Sumir höfðu ef til vill dýrkað skurðgoð af miklum trúarhita áður en þeir tóku kristna trú. Þeim bauð við öllu sem hafði tengst skurðgoðadýrkun á einn eða annan hátt. Hvernig tók Páll á málinu?

15 Páll skrifaði: „Skylt er okkur, hinum styrku, að bera veikleikann með hinum óstyrku og hugsa ekki aðeins um sjálf okkur. Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig.“ (Rómverjabréfið 15:1, 3) Páll leit svo á að við ættum að taka þarfir trúsystkina okkar fram yfir okkar eigin, alveg eins og Kristur gerði. Annars staðar, þar sem Páll fjallaði um sambærilegt mál, sagði hann að hann myndi alls ekki borða kjöt ef það hneykslaði einhvern af hinum dýrmætu sauðum sem Kristur hafði gefið líf sitt fyrir. — 1. Korintubréf 8:13; 10:23, 24, 31-33.

16. Hvers vegna ættu þeir sem eru með frekar vandláta samvisku ekki að dæma aðra?

16 Þeir sem hafa frekar vandláta samvisku ættu hins vegar ekki að gagnrýna aðra og ætlast til að allir sjái samviskumál sömu augum og þeir sjálfir. (Rómverjabréfið 14:10) Það er best að nota samviskuna til að dæma sjálfan sig. Við ættum ekki að nota hana til að dæma aðra. Munum hvað Jesús sagði: „Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd.“ (Matteus 7:1) Allir í söfnuðinum ættu að varast að gera samviskumál að ágreiningsmálum. Við ættum öllu heldur að stuðla að friði og einingu og byggja hvert annað upp en ekki brjóta niður. — Rómverjabréfið 14:19.

ÞAÐ ER TIL BLESSUNAR AÐ VARÐVEITA GÓÐA SAMVISKU

Góð samviska getur vísað okkur veginn í lífinu og veitt okkur gleði og innri frið.

17. Hvernig er komið fyrir samvisku margra nú á tímum?

17 „Hafið góða samvisku,“ skrifaði Pétur postuli. (1. Pétursbréf 3:16) Það er ólýsanleg blessun að hafa hreina samvisku frammi fyrir Jehóva Guði. Samviska margra er því miður annars eðlis. Páll talaði um menn sem hann sagði að væru „brennimerktir á samvisku sinni“. (1. Tímóteusarbréf 4:2) Brennimerkingarjárn svíður holdið og skilur eftir tilfinningalaust ör. Þannig er samviska margra. Hún er eiginlega dauð. Hún er orðin svo ónæm að hún varar ekki lengur við rangri breytni. Hún mótmælir ekki og slær ekki eiganda sinn samviskubiti eða sektarkennd. Og sumir virðast svo fegnir að losna við sektarkenndina að þeir segja við sjálfa sig: „Gott að vera laus við hana.“

18, 19. (a) Hvaða gagn er að því að finna til smánar og sektarkenndar? (b) Hvað er til ráða ef samviskan heldur áfram að refsa okkur fyrir fyrri syndir sem við höfum iðrast?

18 Sannleikurinn er sá að sektarkennd getur verið aðferð samviskunnar til að segja okkur að við höfum gert eitthvað rangt. Þegar slík tilfinning knýr syndara til að iðrast er hægt að fyrirgefa stórfelldar syndir. Davíð konungur gerði sig til dæmis sekan um mjög alvarlega synd en honum var fyrirgefið, aðallega vegna þess að hann iðraðist í fullri einlægni. Hann hafði óbeit á rangri breytni sinni og var staðráðinn í að hlýða lögum Jehóva þaðan í frá. Hann kynntist því af eigin raun að Jehóva er „góður og fús til að fyrirgefa“. (Sálmur 51:3-21; 86:5) En hvað nú ef sektarkenndin og smánin heldur áfram eftir að við höfum iðrast og hlotið fyrirgefningu?

19 Samviskan getur stundum dæmt ákaflega hart og þjakað syndara með sektarkennd löngu eftir að slíkar tilfinningar eru hættar að þjóna nokkrum tilgangi. Í slíku tilfelli þurfum við að fullvissa hið dómharða hjarta um að Jehóva sé meiri en allar mannlegar tilfinningar. Við þurfum að trúa og treysta á kærleika hans og fyrirgefningu, rétt eins og við hvetjum aðra til að gera. (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Hrein samviska veitir okkur á hinn bóginn innri frið og djúpstæða gleði sem er fágæt í þessum heimi. Margir sem gerðu sig einhvern tíma seka um alvarlega synd hafa fundið fyrir þessum óumræðilega létti og geta núna varðveitt góða samvisku í þjónustu Jehóva Guðs. — 1. Korintubréf 6:11.

20, 21. (a) Hvert er markmiðið með útgáfu þessarar bókar? (b) Hvaða frelsis njótum við en hvernig ættum við að nota það?

20 Þessari bók er ætlað að hjálpa þér að finna þessa gleði, að varðveita góða samvisku það sem eftir er af hinum erfiðu síðustu dögum í heimi Satans. Bókin getur auðvitað ekki fjallað um öll þau lög og þær meginreglur Biblíunnar sem þú þarft að hugsa um og fara eftir á hverjum degi. Og reiknaðu ekki með að fá einfaldar og afgerandi reglur í málum þar sem samviskan á að ráða ferðinni. Markmiðið með útgáfu þessarar bókar er að hjálpa þér að uppfræða samviskuna og gera hana næmari með því að kynna þér orð Guðs og fara eftir því dags daglega. „Lögmál Krists“ er að því leyti ólíkt Móselögunum að það hvetur fólk til að fylgja frekar samviskunni og meginreglum en skriflegum reglum. (Galatabréfið 6:2) Jehóva treystir kristnum mönnum fyrir einstöku frelsi en orð hans minnir okkur samt á að nota þetta frelsi aldrei til að „hylja vonsku“. (1. Pétursbréf 2:16) Slíkt frelsi gefur okkur hins vegar ómæld tækifæri til að sýna að við elskum Jehóva.

21 Ef þú hugleiðir hvernig best sé að lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar, ræðir það við Jehóva í bæn og lifir svo í samræmi við ákvarðanir þínar heldurðu áfram því mikilvæga ferli sem hófst þegar þú byrjaðir að kynnast Jehóva. Þú ert að ,aga hugann til að greina gott frá illu‘. (Hebreabréfið 5:14) Biblíufrædd samviska þín verður þér til blessunar alla ævi. Líkt og áttavitinn leiðbeinir ferðalangnum hjálpar hún þér að taka ákvarðanir sem gleðja föðurinn á himnum. Það er örugg leið til að láta kærleika Guðs varðveita sig.

^ gr. 5 Í frummálum Hebresku ritninganna er ekki notað ákveðið orð yfir samvisku. Þetta dæmi sýnir hins vegar greinilega að samviskan var að verki. Yfirleitt er notað orðið „hjarta“ til að lýsa hinum innri manni. Í tilfellum sem þessu er það greinilega notað um ákveðinn hluta hins innri manns, það er að segja samviskuna. Orðið, sem þýtt er „samviska“, stendur hins vegar um 30 sinnum í Grísku ritningunum.

^ gr. 8 Í Biblíunni kemur fram að hrein samviska nægir ekki alltaf. Páll postuli sagði til dæmis: „Ég er mér ekki neins ills meðvitandi en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig.“ (1. Korintubréf 4:4) Það er jafnvel hugsanlegt að þeir sem ofsækja þjóna Guðs, líkt og Páll gerði einu sinni, geri það með góðri samvisku af því að þeir halda að Guð hafi velþóknun á því. Það er ákaflega mikilvægt að samviskan sé bæði hrein í augum sjálfra okkar og Jehóva Guðs. — Postulasagan 23:1; 2. Tímóteusarbréf 1:3.

^ gr. 10 Rétt er að nefna að margir læknar telja að hófleg neysla áfengis komi ekki til greina hjá alkóhólistum. Í þeirra tilfelli sé „hófsemi“ hið sama og algert bindindi.