Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Núna finnst mér ég geta hjálpað öðrum

Núna finnst mér ég geta hjálpað öðrum
  • FÆÐINGARÁR: 1981

  • FÖÐURLAND: GVATEMALA

  • FORSAGA: HÖRMULEG ÆSKA

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist í Acul, afskekktum bæ á hálendi vesturhluta Gvatemala. Fjölskylda mín tilheyrir Ixil, frumbyggjahópi Maja. Ég ólst upp við frumbyggjatungumálið okkar auk spænsku. Á fyrstu árunum eftir að ég fæddist var grimmilegt tímabil af 36 ára löngu borgarastríði í Gvatemala. Margt Ixil fólk dó á þessu tímabili.

Þegar ég var fjögurra ára var sjö ára bróðir minn að leika sér með handsprengju sem sprakk. Ég missti sjónina eftir þetta slys og því miður lést bróðir minn. Eftir það varði ég æskuárunum á stofnun fyrir blind börn í Gvatemalaborg, en þar lærði ég blindraletur. Starfsfólkið þar bannaði mér að tala við önnur börn og skólafélagar mínir forðuðust mig. Ég skildi ekki hvers vegna. Ég var alltaf einmanna og gat ekki beðið eftir þeim tveim mánuðum á ári sem ég gat verið heima með mömmu, en hún var allaf góð og umhyggjusöm. Hún lést því miður þegar ég var tíu ára. Ég var niðurbrotinn því að mér fannst ég hafa misst einu manneskjuna í heiminum sem elskaði mig.

Þegar ég var 11 ára flutti ég aftur til heimabæjar míns og bjó hjá hálfbróður mínum og fjölskyldu hans. Þau hugsuðu um líkamlegar þarfir mínar en enginn gat hjálpað mér tilfinningalega. Ég hrópaði stundum til Guðs: „Af hverju dó mamma mín? Af hverju þarf ég að vera blindur?“ Fólk sagði mér að þessar hörmungar væru vilji Guðs. Ég dró þá ályktun að Guð væri tilfinningalaus og ósanngjarn. Eina ástæðan fyrir því að ég framdi ekki sjálfsvíg var að ég hafði enga möguleika á því.

Ég var líkamlega og tilfinningalega varnarlaus vegna þess að ég var blindur. Ég var beittur kynferðislegu ofbeldi oftar en einu sinni. Ég sagði aldrei neinum frá þessum atvikum vegna þess að ég hélt að öllum stæði á sama. Fólk talaði sjaldan við mig og ég talaði ekki við neinn. Ég var einangraður og þunglyndur og ég treysti engum.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Snemma á unglingsárunum komu tveir vottar Jehóva (hjón) til mín í frímínútum í skólanum. Einn kennaranna í skólanum, sem hafði samúð með mér vegna aðstæðna minna, hafði beðið þau að tala við mig. Þau sögðu mér frá loforðum Biblíunnar um að látnir yrðu reistir upp og að blindir ættu eftir að fá sjónina á ný. (Jesaja 35:5; Jóhannes 5:28, 29) Ég hafði áhuga á því sem þau kenndu mér, en það var erfitt fyrir mig að spjalla við þau vegna þess að ég var ekki vanur að tala. Þótt ég væri óframfærinn sýndu þau mér vinsemd og þolinmæði og héldu áfram að heimsækja mig til að kenna mér út frá Biblíunni. Hjónin gengu meira en 10 kílómetra og yfir fjall til að komast til heimabæjar míns.

Hálfbróðir minn sagði mér að þau væru snyrtilega til fara en virtust ekki efnuð. En þau sýndu mér alltaf persónulegan áhuga og komu með litlar gjafir handa mér. Ég hugsaði að aðeins sannkristið fólk myndi sýna slíka fórnfýsi.

Ég rannsakaði Biblíuna með hjálp rita á blindraletri. Ég skildi það sem ég var að læra en sumt var tilfinningalega erfitt fyrir mig að viðurkenna. Ég átti til dæmis erfitt með að trúa því að Guði væri virkilega annt um mig sem einstakling og að aðrir gætu endurspeglað tilfinningar Guðs til mín. Ég skildi hvers vegna Jehóva leyfði illsku að viðgangast um tíma, en ég átti erfitt með að sjá hann sem kærleiksríkan föður. *

Með tímanum hjálpaði það sem ég lærði frá Biblíunni mér að breyta viðhorfi mínu. Ég komst til dæmis að því að Guð hefur mikla samúð með þeim sem þjást. Guð sagði um tilbiðjendur sína sem farið var illa með: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar ... Já, ég þekki þjáningu hennar.“ (2. Mósebók 3:7) Að kynnast ljúfum eiginleikum Jehóva fékk mig til að vígja líf mitt honum. Ég skírðist sem vottur Jehóva árið 1998.

Með bróðurnum sem tók mig inn á heimili fjölskyldu sinnar.

Um ári eftir að ég lét skírast sótti ég námskeið fyrir blinda nálægt borginni Escuintla. Öldungur í söfnuðinum á staðnum komst að því að ég átti erfitt með að sækja samkomur frá heimabæ mínum. Nálægasti söfnuðurinn var hinum megin við fjallið – fjallið sem vottahjónin fóru yfir til að aðstoða mig við biblíunám. Það var erfitt fyrir mig að fara þá leið. Öldungurinn fann fjölskyldu í Escuintla sem var fús til að taka mig inn á heimili sitt og hjálpa mér að komast á safnaðarsamkomur. Síðan þá hafa þau annast mig eins og ég væri hluti af fjölskyldunni.

Ég gæti sagt frá miklu fleiri dæmum um ósvikinn kærleika sem bræður og systur hafa sýnt mér. Öll þessi dæmi sannfæra mig um að vottar Jehóva séu sannkristnir menn. – Jóhannes 13:34, 35.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Mér líður ekki lengur eins og ég sé einskis virði og án vonar. Ég hef fundið sannan tilgang í lífinu. Ég þjóna í fullu stafi við biblíufræðslu Votta Jehóva og einbeiti mér að því að kenna öðrum dýrmæt biblíusannindi í stað þess að einblína á fötlun mína. Ég þjóna líka sem safnaðaröldungur og flyt opinbera biblíufyrirlestra í söfnuðum. Ég hef meira að segja fengið að flytja biblíutengdar ræður á umdæmismótum þar sem þúsundir manna koma saman.

Að nota biblíuna mína á blindraletri þegar ég flyt ræðu.

Árið 2010 útskrifaðist ég úr Þjónustuþjálfunarskólanum (kallast núna Skóli fyrir boðbera Guðsríkis) í El Salvador. Skólinn bjó mig undir að sinna betur ábyrgð minni í söfnuðinum. Þegar ég fékk þessa þjálfun fann ég virkilega fyrir því að Jehóva Guð kynni að meta mig og elskaði mig. Hann getur gert hvern sem er færan til að sinna starfi hans.

Jesús sagði: „Það er ánægjulegra að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Ég get með sanni sagt að ég er hamingjusamur og núna finnst mér ég geta hjálpað öðrum þó að ég hafi áður hugsað að það væri ekki mögulegt.

^ gr. 13 Nánari upplýsingar um hvers vegna Guð leyfir illsku er að finna í 11. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.