Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Glæpir og löngun í peninga ollu mér miklum þjáningum“

„Glæpir og löngun í peninga ollu mér miklum þjáningum“
  • Fæðingarár: 1974

  • Föðurland: Albanía

  • Forsaga: Þjófur, eiturlyfjasali og fangi

FORTÍÐ MÍN

 Fjölskylda mín var fátæk og bjó í Tírana, höfuðborg Albaníu. Faðir minn var heiðarlegur og vann langan vinnudag til að sjá fyrir okkur. En samt skrimtum við varla. Sem drengur fann ég mjög til þess hversu fátæk við vorum. Stærsta hluta æsku minnar átti ég enga skó og fékk ekki alltaf nóg að borða.

 Ég byrjaði mjög ungur að stela. Mér fannst ég vera að hjálpa til við að sjá fyrir fjölskyldunni. Á endanum komst ég í kast við lögin. Árið 1988, þegar ég var 14 ára, sendi faðir minn mig því í betrunarskóla. Ég var tvö ár í skólanum og lærði rafsuðu. Þegar ég útskrifaðist langaði mig að vinna heiðarlega fyrir mér en ég fann enga vinnu. Atvinnuleysi var mikið vegna þess að stjórnmálaástandið var óstöðugt í Albaníu. Það dró úr mér kjarkinn og ég fór út á sömu braut með gömlu félögunum. Það endaði með því að ég og vinir mínir vorum handteknir og dæmdir í þriggja ára fangelsi.

 Eftir að ég losnaði úr fangelsi hélt ég áfram á glæpabraut. Hagkerfið í Albaníu hafði hrunið og það ríkti upplausn í landinu. Á þessum óreiðutíma þénaði ég vel á því að brjóta lögin. Eftir vopnað rán voru tveir félagar mínir handteknir og ég flúði land til að forðast langa fangelsisvist. Þegar hér var komið var ég giftur Julindu og við áttum lítinn dreng.

 Það endaði með því að við settumst að á Englandi. Ég sá það fyrir mér að hefja nýtt líf með konunni minni og syni en það var erfitt að breyta gömlum siðum. Ég var fljótlega farinn að taka þátt í glæpastarfsemi, núna í eiturlyfjasölu. Það var um stórar fjárhæðir að ræða.

 Hvað fannst Julindu um að ég var að selja eiturlyf? Hún segir: „Þegar ég ólst upp í Albaníu dreymdi mig um að brjótast út úr fátækt. Ég var tilbúin að reyna hvað sem er til að öðlast betra líf. Ég hélt að peningar gætu bætt líf okkar þannig að ég studdi Artan í að ljúga, stela og selja eiturlyf – allt til að eignast peninga.“

„Ég studdi Artan í að ljúga, stela og selja eiturlyf.“ – Julinda

 En líf okkar breyttist árið 2002 og skyndilega var bundinn endir á fjárhagsáætlanir okkar og drauma. Ég var tekinn við að flytja stjóra sendingu af eiturlyfjum og aftur fangelsaður.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Biblían fór að hafa áhrif á líf mitt jafnvel áður en ég tók sjálfur eftir því. Snemma árið 2000 hitti Julinda votta Jehóva og fór að rannsaka Biblíuna með þeim. Ég hafði ekki áhuga á að ræða um Biblíuna vegna þess að ég hélt að hún væri leiðinleg. En Julinda mat hana mikils. Hún segir: „Ég var alin upp í trúaðri fjölskyldu og ég elskaði og bar virðingu fyrir Biblíunni. Mig langaði alltaf að vita hvað hún kennir og var mjög spennt að skoða hana með vottum Jehóva. Margar biblíukenningar voru mjög rökréttar í mínum huga. Það sem ég lærði hjálpaði mér að gera breytingar á lífi mínu. En viðhorf mitt til peninga breyttist ekki fyrr en Artan var handtekinn. Þá rankaði ég við mér. Þá sá ég að það sem Biblían segir um peninga er sannleikur. Líf okkar hafði hreinlega snúist um það að verða rík en við vorum ekki hamingjusöm. Ég áttaði mig á því að ég þurfti að fylgja mælikvarða Guðs í öllu.“

 Árið 2004 var ég leystur úr fangelsi og reyndi fljótlega að fara að selja eiturlyf aftur. En viðhorf Julindu höfðu breyst og hún sagði nokkuð sem opnaði augu mín: „Ég vil ekki peninga þína lengur. Ég vil fá manninn minn aftur og ég vil að faðir barnanna minna sé til staðar fyrir þau.“ Ég var sleginn en þetta var rétt hjá henni. Ég hafði verið mörg ár í burtu frá fjölskyldunni. Ég hugsaði líka um sársaukann sem ég hafði upplifað vegna þess að ég notaði óheiðarlegar aðferðir til að verða mér úti um peninga. Ég ákvað því að breyta um lífsstefnu og sleit sambandinu við gömlu vinina.

 Það sem hafði mest áhrif á mig var að fara á samkomu hjá Vottum Jehóva með konunni minni og tveim sonum. Það hafði mikil áhrif á mig hvað fólk þar var vinalegt og einlægt. Með tímanum fór ég að rannsaka Biblíuna.

Ég var vanur að hugsa sem svo að ef við hefðum nóg af peningum myndum við verða hamingjusöm.

 Ég komst að því í Biblíunni að „ást á peningum er rót alls konar ógæfu. Sökum hennar hafa sumir … valdið sjálfum sér miklum þjáningum.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Ég þekkti þetta af eigin reynslu. Ég iðraðist innilega þess sem ég hafði áður gert sem bitnaði illa á fjölskyldunni og mér. (Galatabréfið 6:7) Þegar ég lærði um það hvað Jehóva og Jesús Kristur sonur hans elska okkur mikið fór ég að breyta persónuleika mínum. Ég byrjaði að hugsa minna um sjálfan mig og meira um aðra og það fól í sér að verja meiri tíma með fjölskyldunni.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Það hefur nýst mér að fylgja ráði Biblíunnar: „Látið ekki ást á peningum stjórna lífi ykkar heldur látið ykkur nægja það sem þið hafið.“ (Hebreabréfið 13:5) Nú hef ég hugarfrið og hreina samvisku. Ég nýt gleði sem ég hafði aldrei þekkt áður. Hjónabandið er sterkara og fjölskyldan nánari.

 Ég var vanur að hugsa sem svo að ef við hefðum nóg af peningum myndum við verða hamingjusöm. Nú sé ég greinilega hvað glæpir og ást á peningum hafði mikinn sársauka í för með sér. Við erum ekki rík af peningum en við höfum fundið það sem er langtum mikilvægara – vináttu við Jehóva Guð. Það færir okkur sanna hamingju að tilbiðja hann í sameiningu.

Með fjölskyldunni minni á móti Votta Jehóva.