Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Ég fann sönn verðmæti

Ég fann sönn verðmæti
  • Fæðingarár: 1968

  • Föðurland: Bandaríkin

  • Forsaga: Framkvæmdastjóri sem bað til Guðs um að verða ríkur

FORTÍÐ MÍN

 Ég ólst upp sem kaþólikki í Rochester í New Yorkfylki. Foreldrar mínir skildu þegar ég var átta ára. Ég bjó hjá mömmu á virkum dögum í félagslegu húsnæði og hjá pabba um helgar í hverfi ríkra. Þegar ég sá hversu erfitt það var fyrir mömmu að ala upp sex krakka dreymdi mig um að verða ríkur til að hjálpa fjölskyldunni.

 Faðir minn vildi að ég kæmist áfram í lífinu og sá til þess að ég fór og skoðaði virtan skóla í hótelrekstri. Mér leist rosalega vel á hann og áleit að Guð væri að svara bæn minni um að verða ríkur og hamingjusamur. Ég lærði hótelrekstur, verslunarrétt og fjármál fyrirtækja á sama tíma og ég vann í hótelspilavíti í Las Vegas í Nevada.

Hluti af vinnunni minni var að sjá um þarfir og óskir ríkra fjárhættuspilara.

 Þegar ég var 22 ára var ég orðinn aðstoðarforstjóri hótelspilavítis. Ég var álitinn ríkur og farsæll og naut þess að borða fínasta matinn og drekka dýrustu vínin. Félagar mínir sögðu gjarnan: „Mundu að peningar eru það sem lífið gengur út á.“ Að þeirra mati voru peningar lykillinn að sannri hamingju.

 Hluti af vinnunni minni var að sjá um þarfir og óskir ríka fólksins sem kom til Las Vegas til að spila fjárhættuspil. Þótt það væri ríkt virtist það óhamingjusamt. Ég fór líka að verða óhamingjusamur. Satt best að segja því meiri peninga sem ég þénaði því meiri kvíða og svefnlausar nætur upplifði ég. Ég fór að velta því fyrir mér hvort ég ætti að binda enda á líf mitt. Ég var vonsvikinn og sneri mér til Guðs og spurði hann: „Hvar get ég fundið sanna hamingju?“

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Um þetta leyti fluttu tvær systur mínar sem voru orðnar vottar Jehóva til Las Vegas. Þótt ég vildi ekki þiggja rit samþykkti ég að lesa með þeim í minni eigin Biblíu. Í Biblíunni minni var allt sem Jesús sagði skrifað með rauðu bleki. Þar sem ég samþykkti allt sem hann hafði sagt beindu systur mínar athyglinni að orðum hans. Ég las líka Biblíuna í einrúmi.

 Margt sem ég las vakti undrun mína. Jesús sagði til dæmis: „Þyljið ekki bænir ykkar í belg og biðu eins og heiðingjarnir. Þeir halda að bænin verði heyrð ef hún er nógu löng og fagurlega orðuð.“ (Matteus 6:7, Lifandi Orð Nýja testamentið og Sálmarnir.) Samt hafði prestur gefið mér mynd af Jesú og sagt að ef ég myndi biðja til myndarinnar og fara með tíu faðirvor og tíu Maríubænir myndi Guð gefa mér eins mikið af peningum og mig vantaði. En væri ég þá ekki að þylja bænir mínar án þess að þær hefðu nokkra þýðingu fyrir mig? Ég las líka það sem Jesús sagði: „Kallið engan föður ykkar á jörð því að einn er faðir ykkar og hann er á himnum.“ (Matteus 23:9) Ég velti því þess vegna fyrir mér hvers vegna við kaþólikkar kölluðum prestinn „föður“.

 Þegar ég las Jakobsbréfið fór ég að hugsa alvarlega um það hvert líf mitt stefndi. Jakob sagði í 4. kafla: „Vitið þið ekki að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem vill vera vinur heimsins gerir sig þess vegna að óvini Guðs.“ (Jakobsbréfið 4:4) Vers 17 hafði enn meiri áhrif á mig: „Ef því einhver hefur vit á að gera rétt en gerir það ekki syndgar hann.“ Ég hringdi í systur mínar og sagði þeim að ég ætlaði að hætta að vinna í hótelspilavítinu vegna þess að það fól í sér það sem var ekki lengur ásættanlegt, eins og fjárhættuspil og græðgi.

„Þegar ég las Jakobsbréfið fór ég að hugsa alvarlega um það hvert líf mitt stefndi.“

 Ég vildi bæta sambandið við Guð og líka við foreldra mína og systkin. Ég ákvað að einfalda lífið svo ég gæti einbeitt mér að þessu. En það reyndist ekki auðvelt. Ég fékk freistandi tilboð í hótelspilavítageiranum um að tvöfalda eða þrefalda launin sem ég hafði. En eftir að hafa talað um þetta við Jehóva í bæn ákvað ég að þetta væri ekki fyrir mig. Ég hætti í vinnunni, flutti í bílskúrinn hjá mömmu og stofnaði lítið fyrirtæki sem þjónustaði veitingahús.

 Þótt Biblían hefði hjálpað mér að forgangsraða í lífinu fór ég ekki enn þá á samkomur Votta Jehóva. Systur mínar spurðu hvað ég hefði á móti vottunum. Ég svaraði: „Guð ykkar, Jehóva, sundrar fjölskyldum. Eini tíminn sem ég hef með fjölskyldunni er á jólunum og afmælum og þið haldið ekki upp á þessar hátíðir.“ Önnur systir mín brast í grát og spurði: „Hvar ertu hina daga ársins? Við viljum vera með þér hvenær sem er. En þú vilt bara hitta okkur á hátíðum – af skyldurækni.“ Það sem hún sagði hafði mikil áhrif á mig og ég gat ekki tára bundist.

 Þegar ég áttaði mig á því hvað ég hafði haft rangt fyrir mér og hversu mikið vottar Jehóva elska fjölskyldur sínar ákvað ég að mæta á samkomu í ríkissalnum í nágrenninu. Þar hitti ég Kevin, reyndan biblíukennara og fór að lesa Biblíuna með honum.

 Kevin og konan hans lifðu einföldu lífi til að geta notað eins mikinn tíma og mögulegt var til að hjálpa öðrum að skilja Biblíuna. Þau þénuðu nóg til að geta líka ferðast til Afríku og Mið-Ameríku þar sem þau hjálpuðu til við byggingaframkvæmdir við deildarskrifstofur safnaðarins. Þau voru mjög hamingjusöm og elskuðu hvort annað. Ég hugsaði með mér að þetta væri það líf sem ég vildi.

 Kevin sýndi mér myndband um þá gleði sem trúboðsstarf veitir og ég ákvað að gera þetta að markmiði mínu. Eftir að hafa rannsakað Biblíuna vandlega í sex mánuði lét ég skírast sem vottur Jehóva árið 1995. Í stað þess að biðja Guð um að gera mig ríkan fór ég að biðja: „Veittu mér hvorki fátækt né auðæfi.“ – Orðskviðirnir 30:8.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Núna er ég ríkur – ekki af peningum heldur vegna þess að ég á samband við Guð. Ég kynntist Nuriu, yndislegu konunni minni, í Hondúras og saman höfum við starfað sem trúboðar í Panama og Mexíkó. Biblían hittir naglann á höfuðið þegar hún segir: „Blessun Jehóva auðgar og henni fylgir engin kvöl.“ – Orðskviðirnir 10:22.