Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Ég er ekki lengur þræll ofbeldis“

„Ég er ekki lengur þræll ofbeldis“
  • Fæðingarár: 1956

  • Föðurland: Kanada

  • Forsaga: Vonsvikinn, lauslátur og ofbeldisfullur

FORTÍÐ MÍN

 Ég fæddist í Calgary í Alberta í Kanada. Þegar ég var ungbarn skildu foreldrar mínir og við mamma fluttum til ömmu og afa. Afi og amma elskuðu okkur mömmu og ég var mjög hamingjusamt barn. Ég á góðar minningar frá þessum friðsömu æskuárum.

 Þegar ég var sjö ára breyttist líf mitt til hins verra þegar foreldrar mínir tóku saman aftur og við fluttum til St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum. Ég komst fljótlega að því að faðir minn gat verið mjög grimmur. Þegar ég kom heim eftir fyrsta skóladaginn komst hann að því að ráðist hafði verið á mig en ég ekki svarað fyrir mig. Hann varð ofsareiður og lamdi mig enn fastar en krakkarnir í skólanum. Ég var fljótur að læra þessa vafasömu lexíu og lenti í mínum fyrstu slagsmálum þegar ég var bara sjö ára.

 Geðvonska föður míns fyllti móður mína gremju og þau rifust oft heiftarlega. Ég byrjaði að drekka og nota eiturlyf þegar ég var 11 ára. Ég varð sífellt árásagjarnari og lenti oft í götuslagsmálum. Þegar ég útskrifaðist úr framhaldsskóla var ég orðinn mjög ofbeldisfullur.

 Ég gerðist sjóliði í hernum18 ára. Þar magnaðist árásargirni mín enn frekar þegar ég fékk þjálfun í að drepa. Eftir fimm ár hætti ég í hernum og fór að læra sálfræði í þeirri von að fá vinnu hjá Alríkislögreglu Bandaríkjanna. Ég hóf háskólanám í Bandaríkjunum og hélt því áfram í Kanada eftir að hafa flust þangað aftur.

 Í háskólanum missti ég alla trú á mannkyninu og samfélaginu almennt. Fólk virtist svo eigingjarnt, allt svo innantómt og engar lausnir á vandamálum manna voru í sjónmáli. Ég missti alla trú á því að menn gætu bætt heiminn.

 Tilgangsleysið varð til þess að ég sogaðist inn í sífellt meiri drykkju, eiturlyfjaneyslu og græðgi í peninga og kynlíf. Lífið snerist bara um næsta partí og næstu konu til að sofa hjá. Þjálfunin í hernum ýtti undir að ég lenti oft í slagsmálum. Ég hafði mína eigin réttlætisstaðla og tók málin óhræddur í mínar hendur ef mér fannst einhver órétti beittur. En í raun lét ég ofbeldi stjórna hegðun minni í æ ríkari mæli.

BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Eitt sinn þegar við vinur minn vorum í vímu í kjallaranum heima hjá mér og vorum að skipuleggja ólöglegan flutning á maríjúana til að selja spurði hann mig hvort ég tryði á Guð. Ég svaraði: „Ef Guð ber ábyrgð á þjáningunum í heiminum vill ég ekkert með hann hafa.“ Daginn eftir byrjaði ég í nýrri vinnu. Vinnufélagi sem var vottur Jehóva spurði mig: „Heldurðu að Guð beri ábyrgð á þjáningunum í heiminum?“ Ég varð mjög hissa vegna þess sem ég hafði sagt daginn áður og vildi því vita meira. Næsta hálfa árið ræddum við oft saman og hann sýndi mér svör Biblíunnar við sumum af erfiðustu spurningum mínum um lífið.

 Kærasta mín, sem ég bjó með á þessum tíma, vildi ekki að ég segði sér frá því sem ég var að læra. Sunnudag einn sagði ég henni að ég hefði boðið vottunum í heimsókn til að skoða Biblíuna með okkur. Daginn eftir þegar ég kom heim úr vinnunni hafði hún tæmt húsið og var farin frá mér. Ég fór út og brast í grát. Ég bað líka til Guðs og sárbændi hann um hjálp. Þetta var í fyrsta skipti sem ég notaði nafn Guðs, Jehóva, í bæn. – Sálmur 83:18.

 Tveim dögum síðar átti ég fyrstu biblíunámsstundina mína með hjónum sem voru vottar Jehóva. Eftir að þau fóru hélt ég áfram að lesa í námsbókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð og sleit mig ekki frá henni fyrr en ég hafði lokið við hana. a Það sem ég lærði um Jehóva Guð og Jesú Krist son hans snerti hjarta mitt. Ég skildi að Jehóva er samúðarfullur og finnur til þegar við þjáumst. (Jesaja 63:9) Það snerti mig sérstaklega hversu mikinn kærleika Guð ber til mín og hverju sonur hans fórnaði í mína þágu. (1. Jóhannesarbréf 4:10) Ég áttaði mig á því að Jehóva hafði verið þolinmóður við mig „því að hann vill ekki að neinn farist heldur að allir fái tækifæri til að iðrast“. (2. Pétursbréf 3:9) Ég fann að Jehóva var að draga mig til sín. – Jóhannes 6:44.

 Ég byrjaði að sækja samkomur þessa sömu viku. Ég var með sítt hár, eyrnalokka og útlit sem gæti hrætt suma. En vottarnir komu fram við mig eins og ættingja sem þeir höfðu ekki hitt lengi. Þeir hegðuðu sér eins og sannkristnir menn. Mér leið eins og ég væri komin heim til afa og ömmu, bara á enn betri stað.

 Fljótlega tók það sem ég lærði frá Biblíunni að hafa mikil áhrif á líf mitt. Ég lét klippa hárið, hætti að stunda siðleysi, nota eiturlyf og drekka vín. (1. Korintubréf 6:9, 10; 11:14) Ég vildi gleðja Jehóva. Þegar ég komst að því að hann var óánægður með eitthvað stakk það mig í hjartað og ég reyndi aldrei að afsaka mig. „Ég get ekki hagað mér þannig lengur,“ sagði ég við sjálfan mig. Og án þess að hika reyndi ég að breyta hugsun minni og verkum. Það varð til þess að ég fann fljótlega árangurinn af að gera hlutina eins og Jehóva vill. Þann 29. júlí 1989, hálfu ári eftir að ég byrjaði að rannsaka Biblíuna, lét ég skírast sem vottur Jehóva.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Biblían hefur hjálpað mér að gerbreyta persónuleika mínum. Áður fyrr brást ég oft við með ofbeldi þegar einhver sýndi mér fjandskap. En nú legg ég hart að mér til að „halda frið við alla menn“. (Rómverjabréfið 12:18) Ég álít það alls ekki sjálfum mér að þakka heldur þakka ég Jehóva fyrir mátt orðs hans og heilags anda til að gera breytingar. – Galatabréfið 5:22, 23; Hebreabréfið 4:12.

 Í stað þess að vera þræll eiturlyfja, ofbeldis og siðlausra langana legg ég kapp á að gleðja Jehóva Guð og gefa honum mitt besta. Það felur meðal annars í sér að hjálpa öðrum að kynnast honum. Fáum árum eftir að ég lét skírast fluttist ég til annars lands til að hjálpa þar sem þörfin var meiri fyrir boðbera. Í gegnum árin hef ég notið þeirrar gleði að kenna mörgum og sjá hvernig Biblían hefur hjálpað þeim að bæta líf sitt. Ég er líka ótrúlega glaður að mamma er orðin vottur Jehóva – að hluta til vegna þess að hún sá hvernig ég breytti viðhorfum mínum og hegðun.

 Árið 1999 útskrifaðist ég úr Skólanum fyrir boðbera Guðsríkis í El Salvador. Í skólanum fékk ég þjálfun til að taka forystuna í boðun trúarinnar og að kenna í söfnuðinum og annast bræður og systur. Síðar sama ár kvæntist ég Eugeniu, yndislegri eiginkonu minni. Saman þjónum við í fullu starfi í Gvatemala.

 Í stað þess að vera vonsvikin með lífið er ég nú mjög hamingjusamur. Að fylgja ráðum Biblíunnar hefur frelsað mig frá siðleysi og ofbeldi og veitt mér líf sem er fullt af kærleika og friði.

a Vottar Jehóva nota núna gjarnan námsbókina Von um bjarta framtíð.