Hoppa beint í efnið

Eru peningar rót alls ills?

Eru peningar rót alls ills?

Svar Biblíunnar

 Nei. Í Biblíunni er hvorki sagt að peningar tengist illsku né að þeir séu undirliggjandi ástæða alls þess sem er illt. Stundum er sagt að peningar séu rót alls ills og talið að það standi í Biblíunni en hún segir í raun: „Fégirndin er rót alls ills.“ a – 1. Tímóteusarbréf 6:10, Biblían 2010, leturbreyting okkar.

 Hvað er sagt í Biblíunni um peninga?

 Í Biblíunni er viðurkennt að peningar geti verið gagnlegir þegar þeir eru notaðir skynsamlega og veiti jafnvel öryggi. (Prédikarinn 7:12) Auk þess er þeim sem sýna öðrum örlæti hrósað í Biblíunni en það getur falið í sér að gefa peninga. – Orðskviðirnir 11:25.

 En í Biblíunni er varað við því að gera peninga að aðalatriðinu í lífinu. Þar segir: „Látið ekki ást á peningum stjórna lífi ykkar heldur látið ykkur nægja það sem þið hafið.“ (Hebreabréfið 13:5) Aðalatriðið er að nota peninga rétt en sækjast ekki eftir auði. Við ættum þess í stað að láta okkur nægja það sem við þurfum, eins og mat, föt og húsaskjól. – 1. Tímóteusarbréf 6:8.

 Hvers vegna er varað við ást á peningum í Biblíunni?

 Ágjarnt fólk fær ekki eilíft líf. (Efesusbréfið 5:5) Í fyrsta lagi er ágirnd ein mynd skurðgoðadýrkunnar, það er að segja falskrar tilbeiðslu. (Kólossubréfið 3:5) Í öðru lagi hafnar ágjarnt fólk oft góðum meginreglum þegar það streitist við að fá það sem það girnist. „Sá sem fljótt vill verða ríkur, sleppur ekki við refsingu,“ segir í Orðskviðunum 28:20. Hann gæti freistast til að drýgja glæpi eins og fjárkúgun, svik, mannrán eða morð.

 Og þótt ást á peningum leiði menn ekki út í illskuverk getur hún haft aðrar slæmar afleiðingar. Í Biblíunni er sagt: „Þeir sem ætla sér að verða ríkir falla í freistni og snöru og láta undan alls kyns heimskulegum og skaðlegum girndum.“ – 1. Tímóteusarbréf 6:9.

 Hvernig geta ráð Biblíunnar varðandi peninga gagnast okkur?

 Við höfum sjálfsvirðingu ásamt velþóknun og stuðningi Guðs ef við brjótum ekki gegn því sem er rétt í augum hans til að eignast peninga. Guð lofar þeim sem reyna í einlægni að gleðja hann: „Ég mun aldrei snúa baki við ykkur og aldrei yfirgefa ykkur.“ (Hebreabréfið 13:5, 6) Hann fullvissar okkur einnig um að „áreiðanlegur maður blessast ríkulega“. – Orðskviðirnir 28:20.

a Versið hefur einnig verið þýtt: „Ást á peningum er rót alls konar ógæfu.“