Hoppa beint í efnið

Hvað merkir það að ,heiðra föður sinn og móður‘?

Hvað merkir það að ,heiðra föður sinn og móður‘?

Svar Biblíunnar

 Boðorðið „heiðra föður þinn og móður“ kemur oft fyrir í Biblíunni. (2. Mósebók 20:12; 5. Mósebók 5:16; Matteus 15:4; Efesusbréfið 6:2, 3) Það felur í sér fjögur lykilatriði:

  1.   Meta þau. Þú heiðrar föður þinn og móður með því að sýna þakklæti fyrir allt sem þau hafa gert fyrir þig. Þú getur látið það í ljós með því að sýna að þú kunnir að meta ráð þeirra. (Orðskviðirnir 7:1, 2; 23:26) Í Biblíunni segir að ,foreldrarnir séu sæmd barnanna‘. Þannig að börn eru hvött til að vera ánægð með foreldra sína. – Orðskviðirnir 17:6

  2.   Virða forræði þeirra. Börn og unglingar heiðra foreldra sína einkum með því að viðurkenna þá ábyrgð sem Guð hefur falið foreldrum. Í Kólossubréfinu 3:20 segir: „Börn, verið hlýðin foreldrum ykkar í öllu því að það er Drottni þóknanlegt.“ Meira að segja Jesús hlýddi foreldrum sínum fúslega þegar hann var barn. – Lúkas 2:51.

  3.   Sýna þeim virðingu. (3. Mósebók 19:3; Hebreabréfið 12:9) Þetta á gjarnan við það sem maður segir og hvernig maður segir það. Reyndar haga sumir foreldrar sér stundum þannig að það getur verið erfitt að sýna þeim virðingu. Samt geta börnin heiðrað foreldra sína með því að forðast að sýna þeim ókurteisi í orði eða verki. (Orðskviðirnir 30:17) Það er alvarlegt mál samkvæmt Biblíunni að tala af óvirðingu um pabba sinn og mömmu. – Matteus 15:4.

  4.   Annast þau. Þegar pabbi þinn og mamma eldast gætu þau þurft á aðstoð að halda. Þú heiðrar þau með því að gera þitt besta til að sjá um að þau hafi það sem þau þurfa. (1. Tímóteusarbréf 5:4, 8) Til dæmis gerði Jesús ráðstafanir rétt áður en hann dó til að láta annast móður sína. – Jóhannes 19:25-27.

Ranghugmyndir í sambandi við að heiðra föður sinn og móður

 Ranghugmynd: Til að heiðra föður þinn og móður þarftu að leyfa þeim að stjórna hjónabandi þínu.

 Staðreynd: Í Biblíunni segir að samband hjóna eigi að vera sterkara en önnur fjölskyldubönd. 1. Mósebók 2:24 segir: „Af þessum sökum yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr með eiginkonu sinni, og þau verða eitt.“ (Matteus 19:4, 5) Hjón geta að sjálfsögðu þegið góð ráð hjá foreldrum eða tengdaforeldrum. (Orðskviðirnir 23:22) Hins vegar gætu hjónin ákveðið að takmarka afskipti ættingja af hjónabandinu. – Matteus 19:6.

 Ranghugmynd: Foreldrar þínir hafa endanlegt úrskurðarvald.

 Staðreynd: Þótt Guð hafi falið foreldrum umsjón með fjölskyldunni er öllum ákveðin takmörk sett – yfirráð þeirra eru aldrei æðri yfirráðum Guðs. Tökum dæmi: Þegar hæstiréttur Gyðinga skipaði lærisveinum Jesú að óhlýðnast Guði svöruðu þeir: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:27-29) Eins eiga börn að hlýða foreldrum sínum „vegna Drottins“, það er að segja í öllu sem stangast ekki á við lög Guðs. – Efesusbréfið 6:1.

 Ranghugmynd: Að heiðra föður og móður þýðir að börn verða að hafa sömu trú og foreldrar þeirra.

 Staðreynd: Biblían hvetur okkur til að rannsaka hvort það sem okkur hefur verið kennt sé sannleikur. (Postulasagan 17:11; 1. Jóhannesarbréf 4:1) Einstaklingur gæti valið aðra trú en foreldrarnir. Biblían nefnir nokkra trúa þjóna Guðs sem höfðu ekki sömu trú og foreldrar þeirra. Í þessum hópi voru Abraham, Rut og Páll postuli. – Jósúabók 24:2, 14, 15; Rutarbók 1:15, 16; Galatabréfið 1:14-16, 22-24.

 Ranghugmynd: Til að heiðra föður og móður verður maður að taka þátt í helgiathöfnum sem tengjast forfeðradýrkun.

 Staðreynd: Biblían segir: „Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ (Lúkas 4:8) Þeir sem tilbiðja forfeður sína eru Guði vanþóknanlegir. Auk þess segir í Biblíunni að ,hinir dauðu viti ekki neitt‘. Þeir eru ekki meðvitaðir um að þeir séu heiðraðir og geta hvorki hjálpað né skaðað þá sem eru lifandi. – Prédikarinn 9:5, 10; Jesaja 8:19.