Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um að annast aldraða foreldra?

Hvað segir Biblían um að annast aldraða foreldra?

Svar Biblíunnar

 Uppkomin börn bera þá mikilvægu ábyrgð að ganga úr skugga um að hugsað sé um aldraða foreldra þeirra. Í Biblíunni segir að uppkomin börn eigi að „sýna guðrækni í sinni eigin fjölskyldu og endurgjalda foreldrum sínum ... því að það er þóknanlegt í augum Guðs“. (1. Tímóteusarbréf 5:4) Þegar uppkomin börn ganga úr skugga um að hugsað sé um aldraða foreldra þeirra hlýða þau einnig boði Biblíunnar um að heiðra foreldra sína. – Efesusbréfið 6:2, 3.

 Það eru ekki nákvæmar leiðbeiningar í Biblíunni um hvernig eigi að annast aldraða foreldra en í henni eru dæmi um trúfasta menn og konur sem gerðu það. Þar eru líka hagnýt ráð sem geta hjálpað þeim sem sinna umönnuninni.

 Hvernig önnuðust sumir foreldra sína á biblíutímanum?

 Fólk gerði það á ýmsa vegu. Það var mismunandi eftir aðstæðum.

  •   Jósef bjó langt í burtu frá Jakobi föður sínum. Þegar hann hafði tök á gerði hann ráðstafanir svo að Jakob gæti flust nær honum. Jósef sá þá föður sínum fyrir húsnæði og mat og verndaði hann. – 1. Mósebók 45:9–11; 47:11, 12.

  •   Rut fluttist til lands tengdamóður sinnar og vann hörðum höndum við að annast hana. – Rutarbók 1:16; 2:2, 17, 18, 23.

  •   Jesús valdi einhvern til að annast Maríu móður sína rétt áður en hann dó, en hún var líklega orðin ekkja. – Jóhannes 19:26, 27. a

 Hvaða hagnýtu ráð Biblíunnar geta hjálpað þeim sem annast foreldra sína?

 Í Biblíunni eru meginreglur sem geta hjálpað þeim sem annast aldraða foreldra sína að takast á við þetta verkefni sem getur stundum reynt mikið á bæði líkamlega og tilfinningalega.

  •   Sýndu foreldrum þínum virðingu.

     Hvað segir Biblían? „Heiðra föður þinn og móður.“ – 2. Mósebók 20:12.

     Hvernig er hægt að fylgja þessari meginreglu? Sýndu foreldrum þínum virðingu með því að leyfa þeim að vera eins sjálfstæð og aðstæður þeirra leyfa. Leyfðu þeim að taka ákvarðanir sjálf um umönnun sína eins og hægt er. En á sama tíma skaltu virða þau með því að gera það sem þú getur til að aðstoða þau.

  •   Sýndu skilning og vertu fús til að fyrirgefa.

     Hvað segir Biblían? „Það er viska að vera seinn til reiði og sæmd að láta rangsleitni ekki á sig fá.“ – Orðskviðirnir 19:11.

     Hvernig er hægt að fylgja þessari meginreglu? Ef aldrað foreldi þitt segir eitthvað særandi eða virðist vanþakklátt fyrir umönnun þína skaltu spyrja þig hvernig þér myndi líða ef þú værir að glíma við svipaðar takmarkanir og vonbrigði. Þegar þú reynir að sýna skilning og vera fús til að fyrirgefa kemurðu í veg fyrir að gera slæmt ástand enn verra.

  •   Leitaðu ráða hjá öðrum.

     Hvað segir Biblían? „Áform verða að engu þar sem engin er ráðagerðin en ef margir leggja á ráðin rætast þau.“ – Orðskviðirnir 15:22.

     Hvernig er hægt að fylgja þessari meginreglu? Kannaðu hvernig takast megi á við þau heilsuvandamál sem foreldrar þínir glíma við. Reyndu að komast að því hvað er í boði í samfélaginu ykkar til að hjálpa til við umönnina. Ræddu við aðra sem hafa annast aldraða foreldra. Ef þú átt systkini gæti verið sniðugt að skipuleggja fjölskyldufund til að ræða þarfir foreldra ykkar, hvernig þið ætlið að annast þau og hvernig þið getið skipt með ykkur verkum.

    Það gæti verið sniðugt að skipuleggja fjölskyldufund til að ræða umönnun aldraðra foreldra.

  •   Sýndu hógværð.

     Hvað segir Biblían? „Hjá hinum hógværu er viska.“ – Orðskviðirnir 11:2.

     Hvernig er hægt að fylgja þessari meginreglu? Gerðu þér grein fyrir takmörum þínum. Allir hafa takmarkaðan tíma og orku. Þessar takmarkanir geta haft áhrif á það hve mikla aðstoð er raunhæft að þú veitir foreldrum þínum. Ef þér finnst þú vera að bugast undan álaginu sem fylgir því að annast aldraða foreldra þína skaltu biðja um hjálp frá ættingjum eða fagaðilum.

  •   Sinntu sjálfum þér.

     Hvað segir Biblían? „Enginn hefur nokkurn tíma hatað eigin líkama heldur nærir hann líkamann og annast.“ – Efesusbréfið 5:29.

     Hvernig er hægt að fylgja þessari meginreglu? Þó að þú berir ábyrgð á að annast foreldra þína þarftu líka að sinna þínum eigin þörfum og þörfum fjölskyldu þinnar ef þú ert giftur. Þú þarft að borða hollan mat. Þú verður að fá næga hvíld og svefn. (Prédikarinn 4:6) Og þú þarft að taka þér pásu þegar þú getur. Ef þú gerir þetta verðurðu betur í stakk búinn – tilfinningalega, andlega og líkamlega – til að annast foreldra þína.

 Segir Biblían að það eigi að annast aldraða forelda á heimili fjölskyldunnar?

 Í Biblíunni eru engar sérstakar leiðbeiningar um það hvort uppkomin börn verði að annast foreldrana á heimilinu. Sumar fjölskyldur velja að hafa aldraða foreldra heima eins lengi og hægt er. En það getur komið að því að fjölskyldunni finnist betri kostur að foreldrarnir flytjist á hjúkrunarheimili. Fjölskyldan gæti hist til að taka ákvörðun um hvað sé best í stöðunni fyrir alla. – Galatabréfið 6:4, 5.

a Biblíuskýringarrit eitt segir um þessa frásögn: „Það er líklegt að Jósef [eiginmaður Maríu] hafi látist löngu áður og að Jesús sonur hennar hafi séð fyrir henni. Hvað yrði þá um hana núna þegar hann var að deyja? ... Kristur hefur hér kennt börnum að sjá um aldraðra foreldra sína.“ – The NIV Matthew Henry Commentary in One Volume, bls. 428–429.