Postulasagan 5:1–42

  • Ananías og Saffíra (1–11)

  • Postularnir gera mörg tákn (12–16)

  • Hnepptir í fangelsi og leystir úr því (17–21a)

  • Leiddir fyrir Æðstaráðið á ný (21b–32)

    • „Hlýða Guði frekar en mönnum“ (29)

  • Ráð Gamalíels (33–40)

  • Boðað hús úr húsi (41, 42)

5  Maður að nafni Ananías seldi ásamt Saffíru konu sinni eign nokkra.  Hann kom með hluta af andvirðinu og afhenti postulunum en hélt nokkru af því eftir með leynd en þó með vitund konu sinnar.  Pétur sagði þá: „Ananías, hvers vegna léstu Satan telja þig á að ljúga að heilögum anda og halda eftir hluta af andvirði akursins með leynd?  Var akurinn ekki þinn meðan þú áttir hann og máttirðu ekki gera það sem þú vildir við andvirðið? Hvernig gastu látið þér detta annað eins í hug? Þú hefur ekki logið að mönnum heldur Guði.“  Þegar Ananías heyrði þetta hneig hann niður og dó. Mikill ótti greip alla sem heyrðu af þessu.  Ungu mennirnir stóðu þá upp, vöfðu dúk um hann, báru hann út og jörðuðu.  Um þrem tímum síðar kom kona hans inn en hún vissi ekki hvað hafði gerst.  Pétur spurði hana: „Segðu mér, selduð þið akurinn fyrir þetta verð?“ „Já, þetta var verðið,“ svaraði hún.  Pétur sagði þá við hana: „Hvers vegna komuð þið ykkur saman um að ögra anda Jehóva?* Þú heyrir við dyrnar fótatak þeirra sem jörðuðu eiginmann þinn og þeir munu líka bera þig út.“ 10  Hún hneig samstundis niður við fætur hans og dó. Þegar ungu mennirnir komu inn fundu þeir hana dána, báru hana út og jörðuðu hjá eiginmanni hennar. 11  Mikill ótti greip allan söfnuðinn og alla sem fréttu af þessu. 12  Postularnir héldu áfram að gera mörg tákn og undur meðal fólksins og hittust að jafnaði í súlnagöngum Salómons. 13  Engir aðrir þorðu að ganga í lið með þeim. En fólkið talaði lofsamlega um þá 14  og enn fleiri fóru að trúa á Drottin, mikill fjöldi bæði karla og kvenna. 15  Fólk bar jafnvel sjúklinga út á strætin og lagði þá þar á bedda og mottur þannig að í það minnsta skugginn af Pétri félli á suma þeirra þegar hann gengi fram hjá. 16  Fólk streymdi líka að frá borgunum kringum Jerúsalem og flutti með sér sjúklinga og þá sem voru haldnir óhreinum öndum, og þeir læknuðust allir sem einn. 17  En æðstipresturinn og allir fylgismenn hans, sem voru af flokki* saddúkea, risu upp fullir öfundar. 18  Þeir handtóku postulana og vörpuðu þeim í borgarfangelsið. 19  En um nóttina opnaði engill Jehóva* fangelsisdyrnar, leiddi þá út og sagði: 20  „Farið í musterið og haldið áfram að flytja fólkinu boðskapinn um lífið.“ 21  Þeir gerðu eins og þeim var sagt, fóru í musterið í dögun og tóku að kenna. Æðstipresturinn og fylgismenn hans kölluðu nú saman Æðstaráðið og allt öldungaráð Ísraelsmanna og sendu varðmenn til að sækja postulana í fangelsið. 22  En þeir fundu þá ekki þegar þeir komu í fangelsið svo að þeir sneru aftur og sögðu svo frá: 23  „Fangelsið var tryggilega læst og verðirnir stóðu við dyrnar en þegar við opnuðum fundum við engan þar inni.“ 24  Þegar varðforingi musterisins og yfirprestarnir heyrðu þetta urðu þeir ráðþrota og spurðu sig hvernig þetta mál færi. 25  Þá kom maður og sagði við þá: „Vitið þið hvað? Mennirnir sem þið vörpuðuð í fangelsi standa í musterinu og kenna fólkinu.“ 26  Varðforinginn fór þá með varðmönnunum og sótti postulana. Þeir beittu samt ekki hörku þar sem þeir óttuðust að fólkið myndi grýta þá. 27  Þeir komu með þá og leiddu fyrir Æðstaráðið. Æðstipresturinn yfirheyrði þá síðan 28  og sagði: „Við harðbönnuðum ykkur að halda áfram að kenna í þessu nafni og samt hafið þið fyllt Jerúsalem með boðskap ykkar og ætlist til að við tökum á okkur sökina á dauða þessa manns.“* 29  Pétur og hinir postularnir svöruðu: „Við verðum að hlýða Guði* frekar en mönnum. 30  Guð forfeðra okkar reisti upp Jesú sem þið hengduð á staur* og drápuð. 31  Guð upphóf hann sér til hægri handar sem höfðingja og frelsara til að Ísrael gæti iðrast og fengið syndir sínar fyrirgefnar. 32  Við erum vottar þessa og sömuleiðis heilagur andi sem Guð hefur gefið þeim sem hlýða honum.“* 33  Þeir urðu öskureiðir þegar þeir heyrðu þetta og vildu ryðja þeim úr vegi. 34  Farísei sem hét Gamalíel reis þá á fætur í Æðstaráðinu. Hann var lagakennari og allir virtu hann mikils. Hann skipaði að farið yrði með mennina út um stund. 35  Síðan sagði hann: „Ísraelsmenn, hugsið ykkur vel um hvað þið gerið við þessa menn. 36  Fyrir nokkru kom Þevdas fram og þóttist vera eitthvað. Um 400 menn gengu í lið með honum. En hann var drepinn og allir fylgismenn hans tvístruðust og hópurinn leystist upp. 37  Eftir hann, um það leyti sem manntalið var tekið, kom Júdas frá Galíleu fram og fékk fólk til fylgis við sig. Hann dó líka og allir fylgismenn hans dreifðust. 38  Í ljósi aðstæðna segi ég ykkur: Látið þessa menn í friði og skiptið ykkur ekki af þeim. Ef hugmyndir þeirra eða verk eru frá mönnum verður þetta að engu 39  en ef það er frá Guði getið þið ekki stöðvað þá. Gætið ykkar, annars getur svo farið að þið berjist gegn Guði sjálfum.“ 40  Þeir fóru að ráði hans, kölluðu á postulana, hýddu* þá, bönnuðu þeim að tala í nafni Jesú og létu þá síðan lausa. 41  Postularnir fóru burt frá Æðstaráðinu, glaðir yfir því að teljast þess verðir að vera vanvirtir vegna nafns hans. 42  Þeir fóru daglega í musterið og hús úr húsi og héldu sleitulaust áfram að kenna og boða fagnaðarboðskapinn um Krist, það er Jesú.

Neðanmáls

Sjá orðaskýringar.
Eða „sértrúarflokki“.
Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „og viljið láta blóð þessa manns koma yfir okkur“.
Eða „hlýða Guði sem stjórnanda“.
Eða „tré“.
Eða „hlýða honum sem stjórnanda“.
Eða „börðu“.