Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI

Að hjálpa börnum að takast á við mistök

Að hjálpa börnum að takast á við mistök

 Fyrr eða síðar þurfa börnin þín að takast á við mistök og vonbrigði. Hvernig geturðu hjálpað þeim?

 Gott er að vita

 Allir gera mistök. Biblían segir að ,við hrösum öll margvíslega‘. (Jakobsbréfið 3:2) Börn gera það líka. Afturkippur getur haft eitthvað jákvætt í för með sér – hann gefur börnum tækifæri til að þroska með sér þrautseigju. Börn fæðast ekki endilega með þennan eiginleika en þau geta öðlast hann. „Við hjónin höfum tekið eftir því að það er betra þegar börn læra að takast á við mistök í staðinn fyrir að láta sem þau hafi ekki gert þau,“ segir Laura sem er móðir. „Þau geta lært að gefast ekki upp þegar illa gengur“.

 Mörg börn kunna ekki að takast á við mistök. Sum börn hafa ekki lært að takast á við mistök vegna þess að foreldrar þeirra hlífa þeim við því að axla ábyrgð. Ef barn fær til dæmis lága einkunn, kenna sumir foreldrar kennaranum sjálfkrafa um það. Ef barn er ósátt við vin, skella foreldrarnir sjálfkrafa skuldinni á vininn.

 En hvernig eiga börn að læra að taka ábyrgð á mistökum sínum ef foreldrarnir hlífa þeim við afleiðingunum?

 Hvað er til ráða

  •   Kenndu börnunum þínum að hegðun þeirra hefur afleiðingar.

     Í Biblíunni segir: „Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera“ – Galatabréfið 6:7.

     Allt sem við gerum hefur afleiðingar. Það kostar að gera við það sem er skemmt. Mistök hafa afleiðingar. Börn þurfa að skilja sambandið milli orsaka og afleiðinga og axla ábyrgð á þeirra hlut í því sem gerðist. Forðastu því að skella skuldinni á aðra eða koma með afsakanir fyrir börnin þín. Leyfðu þeim að finna á sanngjarnan hátt fyrir afleiðingum gerða sinna í samræmi við aldur þeirra. Barnið ætti auðvitað að geta séð augljós tengsl þess að gera rangt og afleiðinganna.

  •   Hjálpaðu börnunum þínum að finna lausnir.

     Meginregla Biblíunnar: „Því að sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur.“ – Orðskviðirnir 24:16.

     Mistök geta verið sársaukafull en þau eru ekki heimsendir. Hjálpaðu börnunum þínum að einbeita sér að lausnum í stað þess að horfa bara á það sem virðist vera óréttlátt. Ef sonur þinn fellur til dæmis á prófi í skólanum skaltu hjálpa honum að taka málin föstum tökum, leggja harðar að sér og einsetja sér að gera betur næst. (Orðskviðirnir 20:4) Ef dóttir þín er ósátt við vinkonu sína skaltu hjálpa henni að sjá hvernig hún getur tekið frumkvæði að því að sættast, burtséð frá því hver á sökina. – Rómverjabréfið 12:18; 2. Tímóteusarbréf 2:24.

  •   Kenndu börnunum þínum að vera hógvær.

     Meginregla Biblíunnar: „Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber.“ – Rómverjabréfið 12:3.

     Það er hvorki raunhæft né gagnlegt að segja barninu sínu að það sé „best“ í þessu eða hinu. Þegar allt kemur til alls þá fá börn ekki hæstu einkunn í hvert skipti sem þau taka próf þótt þeim gangi vel í skóla. Og börn sem eru góð í íþróttum sigra ekki alltaf. Lítillátum börnum gengur betur að takast á við mistök og bakslag.

     Biblían segir að mótlæti geti gert okkur sterkari og hjálpað okkur að þroska með okkur þolgæði. (Jakobsbréfið 1:2–4) Þótt mistök og bakslag valdi vonbrigðum geturðu hjálpað börnunum þínum að sjá þau í réttu ljósi.

     Að hjálpa börnum að þroska með sér þrautseigju getur tekið tíma og kostað erfiði eins og segja má um hvers konar færni. En það skilar sér þegar þau komast á unglingsárin. „Unglingar sem kunna að takast á við erfiðleika eru ólíklegri til að gera eitthvað hættulegt eða heimskulegt,“ segir í bókinni Letting Go With Love and Confidence. „Þau eru líklegri til að blómstra í nýjum og óvæntum aðstæðum.“ Þrautseigja kemur auðvitað líka að gagni á fullorðinsárunum.

 Gott ráð: Settu gott fordæmi. Mundu að það getur hjálpað börnunum þínum að takast á við þeirra vonbrigði að sjá hvernig þú tekst á við vonbrigði.