Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Að kenna börnum lítillæti

Að kenna börnum lítillæti

VANDINN

  • Sonur þinn er farinn að sýna hroka þó að hann sé ekki nema tíu ára.

  • Hann ætlast til að allir snúist um hann.

Þú veltir fyrir þér hvað hafi hlaupið í hann. Þú vilt að vísu að hann hafi sjálfstraust en ekki að hann telji sig betri en alla aðra.

Er hægt að kenna barni lítillæti án þess að skaða sjálfstraust þess?

GOTT ER AÐ VITA

Undanfarna áratugi hafa foreldrar verið hvattir til að láta undan löngunum barna sinna, vera ósparir á hrós – jafnvel þó að þau hafi ekki gert neitt hrósvert – og fara sparlega með að leiðrétta þau og aga. Talið var að börn eignuðust gott sjálfstraust ef þeim væri talin trú um að þau séu alveg einstök. Hvað hefur reynslan sýnt? Í bókinni Generation Me segir: „Í stað þess að sjálfsálitshreyfingin gerði börnin að heilsteyptum og glöðum einstaklingum urðu þau að litlum sjálfsdýrkendum.“

Mörg börn, sem eru alin upp við að vera hrósað í tíma og ótíma, eru illa búin undir vonbrigði, gagnrýni og mistök þegar þau verða eldri. Þar sem þau eru alin upp við að einblína á eigin langanir eiga þau erfitt með að viðhalda sambandi við annað fólk þegar þau vaxa úr grasi. Mörg þeirra þjást þar af leiðandi af kvíða og þunglyndi.

Börn fá ekki sjálfstraust með því að heyra stöðugt hvað þau séu frábær heldur með því að áorka einhverju í raun og veru. Til þess þarf meira en aðeins að trúa á eigin getu. Þau þurfa að öðlast færni, þjálfa hana og bæta. (Orðskviðirnir 22:29) Þau þurfa einnig að láta sér annt um aðra. (1. Korintubréf 10:24) Allt þetta krefst lítillætis.

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Hrósaðu þegar það er verðskuldað. Ef dóttir þín fær góða einkunn á prófi skaltu hrósa henni fyrir það. En ef hún fær lága einkunn skaltu ekki skella skuldinni sjálfkrafa á kennarann. Það myndi varla kenna dóttur þinni lítillæti. Sýndu henni frekar hvernig hún getur gert betur næst. Geymdu hrósið fyrir það sem verðskuldar hrós í raun og veru.

Leiðréttu þegar þörf er á því. Það er ekki þar með sagt að þú eigir að gagnrýna barnið þitt fyrir öll mistök sem það gerir. (Kólossubréfið 3:21) En alvarleg mistök ætti að leiðrétta og það sama á við um röng viðhorf. Annars gætu þau fest rætur.

Segjum til dæmis að sonur þinn eigi það til að gorta. Ef ekki er tekið á því gæti hann orðið montinn og aðrir farið að forðast hann. Útskýrðu því fyrir honum að grobb líti ekki vel út í augum annarra og að það geti komið honum í vandræðalega stöðu að vera montinn. (Orðskviðirnir 27:2) Fræddu hann einnig um að sá sem lítur raunsæjum augum á sjálfan sig hefur ekki þörf á að láta alla vita hvað hann getur eða kann. Með því að leiðrétta hann á kærleiksríkan hátt kennirðu honum lítillæti án þess að skaða sjálfsvirðingu hans. – Meginregla: Matteus 23:12.

Búðu barnið undir alvöru lífsins. Að láta undan öllum óskum barnanna getur fengið þau til að halda að þau eigi heimtingu á öllu sem þeim dettur í hug. Ef barnið biður til dæmis um eitthvað sem þú hefur ekki ráð á geturðu útskýrt fyrir því hvers vegna er nauðsynlegt að eyða ekki um efni fram. Ef þú þarft að hætta við skemmtiferð eða frí geturðu útskýrt fyrir barninu að vonbrigði eru hluti af lífinu og jafnvel rætt um hvernig þú ferð að því að sætta þig við slík vonbrigði. Búðu börnin þín undir erfiðleika fullorðinsáranna í stað þess að verja þau fyrir öllum áföllum. – Meginregla: Orðskviðirnir 29:21.

Hvettu til gjafmildi. Kenndu barninu að „sælla er að gefa en þiggja“. (Postulasagan 20:35) Hvernig geturðu gert það? Þú gætir búið til lista með barninu yfir fólk sem þarf aðstoð við að versla, komast á milli staða eða gera við eitt og annað. Taktu síðan barnið með þér þegar þú hjálpar einhverjum þeirra. Leyfðu því að sjá gleðina og ánægjuna sem þú finnur þegar þú aðstoðar aðra. Þannig kennirðu barninu þínu lítillæti á áhrifaríkasta mátann – með fordæmi. – Meginregla: Lúkas 6:38.