Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Jehóva hefur gefið mér miklu meira en ég á skilið

Jehóva hefur gefið mér miklu meira en ég á skilið

Ég var aðeins 17 ára og átti mér svipaða drauma og áhugamál og flestir aðrir unglingar. Mér fannst gaman að vera með vinum mínum, synda og spila fótbolta. En kvöld eitt breyttist líf mitt til frambúðar. Ég lenti í hræðilegu mótorhjólaslysi og lamaðist upp að hálsi. Það eru liðin 30 ár frá slysinu og ég hef verið rúmfastur lengi.

Ég ólst upp í borginni Alicante á austurströnd Spánar. Ég kem af erfiðu heimili og var því mikið til alinn upp á götunni. Í nágrenninu var hjólbarðaverkstæði og ég vingaðist við José María, einn starfsmanninn þar. Hann var hlýlegur og gaf mér þá athygli sem mig skorti svo sárlega að heiman. Þegar mér leið illa var hann mér eins og bróðir. Hann var sannur vinur þó að hann væri 20 árum eldri en ég.

José María var að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Ég fann að hann var hrifinn af Biblíunni og hann sagði mér oft frá því sem hann lærði. Ég hlustaði af virðingu en hafði í rauninni ekki áhuga á því sem hann sagði. Eins og flestir unglingar var ég upptekinn af öðrum hlutum. En það átti eftir að breytast.

SLYS SEM BREYTTI LÍFI MÍNU

Ég vil ekki tala mikið um slysið. Ég get þó sagt að ég var kærulaus og hegðaði mér heimskulega. Á einum degi gerbreyttist líf mitt. Ég var fjörmikill unglingur sem allt í einu lá inni á sjúkrahúsi og gat hvorki hreyft legg né lið. Það var mjög erfitt að sætta sig við það og ég spurði mig aftur og aftur hvort það væri til einhvers að lifa.

José María kom til mín og gerði strax ráðstafanir til að vottar Jehóva úr söfnuðinum á staðnum kæmu að heimsækja mig á sjúkrahúsið. Þessar reglulegu heimsóknir snertu mig djúpt. Um leið og ég losnaði af gjörgæslu byrjaði ég að kynna mér Biblíuna. Ég fékk svör við því hvers vegna fólk þjáist og deyr og hvers vegna Guð leyfir að slæmir hlutir gerist. Ég lærði líka hverju Guð lofar um framtíðina – að öll jörðin verði byggð fullkomnu fólki og enginn mun nokkurn tíma segja: „Ég er veikur.“ (Jesaja 33:24) Í fyrsta sinn á ævinni eignaðist ég dásamlega von.

Þegar ég útskrifaðist af sjúkrahúsinu tók ég skjótum framförum í námi mínu í Biblíunni. Með því að nota sérhannaðan hjólastól gat ég meira að segja sótt samkomur Votta Jehóva af og til og tekið þátt í boðunarstarfi þeirra. Þann 5. nóvember 1988, þegar ég var tvítugur, skírðist ég niðurdýfingarskírn í sérútbúnu baðkari. Jehóva Guð hafði gefið mér alveg nýja sýn á lífið. En hvað gat ég gert til að sýna þakklæti mitt?

ÉG HEF Í NÓGU AÐ SNÚAST ÞRÁTT FYRIR FÖTLUNINA

Ég var staðráðinn í að láta ekki aðstæður mínar hindra mig í að gera mitt besta til að þjóna Jehóva. Mig langaði að taka framförum. (1. Tímóteusarbréf 4:15) Það var ekki auðvelt til að byrja með því að fjölskyldan var mótfallin trú minni. En ég átti trúsystkini sem voru mér eins og fjölskylda. Þau hjálpuðu mér að komast á allar samkomur og tóku mig reglulega með í boðunarstarfið.

Með tímanum varð þó ljóst að ég þyrfti á sólarhringsumönnun að halda. Eftir langa leit fann ég loks heimili fyrir fatlaða sem hentaði mér. Það var í borginni Valencia sem er um 160 kílómetra norður af Alicante. Þangað flutti ég.

Þó að ég sé rúmfastur er ég staðráðinn í að segja öðrum frá trúnni.

Þó að ég væri rúmfastur var ég staðráðinn í að halda áfram að þjóna Jehóva. Ég keypti tölvu fyrir örorkubæturnar og aðra fjárstyrki og lét setja hana upp við rúmið mitt. Ég keypti mér líka farsíma. Á hverjum morgni aðstoðar starfsmaður mig við að kveikja á tölvunni og símanum. Ég nota stýripinna, sem ég stýri með hökunni, til að vinna í tölvunni. Ég er líka með sérstakt prik sem ég held á með munninum. Með því get ég slegið inn stafi á lyklaborðið eða valið númer í símanum.

Með sérstöku priki get ég valið númer í símanum.

Hvernig hefur þessi tækni gagnast mér? Fyrst og fremst gefur hún mér aðgang að vefsetrinu okkar jw.org og að VEFBÓKASAFNI Varðturnsins. Þessi verkfæri hafa reynst mér ómetanleg! Ég nota oft marga tíma á dag í að rannsaka og lesa biblíutengd rit til að læra meira um Guð og stórkostlega eiginleika hans. Og þegar ég er einmana eða niðurdreginn finn ég alltaf eitthvað á vefsíðunni sem hressir mig við.

Með tölvunni get ég líka hlustað á safnaðarsamkomur og tekið þátt í þeim. Ég get gefið svör, farið með bæn fyrir hönd safnaðarins, flutt ræður og jafnvel lesið upp úr Varðturninum þegar mér er falið það verkefni. Þó að ég komist ekki á staðinn sjálfur finnst mér ég samt taka fullan þátt í starfsemi safnaðarins.

Að vera með síma og tölvu gerir mér þar að auki kleift að taka fullan þátt í boðunarstarfinu. Ég get auðvitað ekki gengið hús úr húsi eins og flestir vottar Jehóva gera. En ég læt það ekki aftra mér. Ég get notað þessi tæki til að segja öðrum frá trú minni. Ég hef svo mikla ánægju af þessum símtölum að öldungarnir í söfnuðinum mínum hafa stundum beðið mig að skipuleggja boðunarstarf gegnum síma. Það hefur reynst sérlega gagnlegt fyrir þá safnaðarmenn sem komast ekki út úr húsi.

Að stýra biblíunámskeiði.

En líf mitt snýst ekki eingöngu um tæki. Ég fæ heimsóknir frá góðum vinum á hverjum degi. Þeir taka með sér ættingja og vini sem hafa áhuga á Biblíunni og biðja mig oft að stýra biblíukennslunni. Og stundum koma fjölskyldur í heimsókn og bjóða mér að vera með á biblíunámskvöldi þeirra. Mér finnst sérstaklega gaman þegar lítil börn sitja við rúmstokkinn minn og segja mér hvers vegna þau elska Jehóva.

Ánægjulegt biblíunámskvöld með vinum.

Ég er þakklátur fyrir að fá svona marga gesti. Herbergið mitt er oft fullt af lífi og fjöri þegar vinir heimsækja mig úr ýmsum áttum. Þessi umhyggjusemi fyrir mér vekur auðvitað eftirtekt starfsmanna heimilisins. Ég þakka Jehóva daglega fyrir að leyfa mér að tilheyra svona yndislegum söfnuði.

ÉG HELD ÓTRAUÐUR ÁFRAM

Þegar fólk spyr mig hvernig ég hafi það svara ég einfaldlega: „Ég held enn ótrauður áfram.“ Ég veit að sjálfsögðu að ég er ekki einn um að þurfa að glíma við erfiðleika. Hvernig sem aðstæður okkar eru eiga allir kristnir menn í baráttu – „trúarinnar góðu baráttu“. (1. Tímóteusarbréf 6:12) Hvað hefur hjálpað mér að halda baráttunni áfram öll þessi ár? Ég bið til Jehóva á hverjum degi og þakka honum fyrir að gefa mér tilgang í lífinu. Ég reyni að vera eins upptekinn og ég get við að þjóna Guði og einblíni á framtíðarvonina sem ég á.

José María

Ég hugsa oft um nýja heiminn og hvernig verði að geta hlaupið og stokkið aftur. Minn kæri vinur, José María, er með lömunarveiki. Stundum tölum við um það í gamni að hlaupa maraþon saman. Ég spyr hann: „Hvor heldurðu að vinni?“ Hann svarar þá: „Það er alveg sama hvor vinnur. Það sem skiptir máli er að við verðum í paradís og getum tekið þátt í hlaupinu.“

Ég hef átt erfitt með að sætta mig við fötlunina. Ég veit að ég hagaði mér heimskulega þegar ég var unglingur og það var mér dýrkeypt. En ég er mjög þakklátur fyrir að Jehóva skyldi aldrei sleppa af mér hendinni. Hann hefur gefið mér svo margt – stóra andlega fjölskyldu, lífsvilja, gleðina af að hjálpa öðrum og dásamlega framtíðarvon. Ef ég á að lýsa tilfinningum mínum með einni setningu myndi ég segja að Jehóva hefur gefið mér miklu meira en ég á skilið.