Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Mig dreymdi um að verða prestur“

„Mig dreymdi um að verða prestur“
  • FÆÐINGARÁR: 1957

  • FÖÐURLAND: MEXÍKÓ

  • FORSAGA: PRESTSNEMI; OFSAFENGINN Í SKAPI

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist í smábænum Texcoco. Á þeim tíma voru flestar götur bæjarins rykugir malarvegir. Það var algeng sjón að sjá fólk frá nærliggjandi þorpum koma með asna klyfjaða vörum sem það ætlaði að selja í bænum. Fjölskylda mín var mjög fátæk og ég var sjöundi í röð níu systkina. Faðir minn gerði við sandala til að framfleyta fjölskyldunni en hann dó þegar ég var sjö ára. Móðir mín streittist við að sjá fyrir fjölskyldunni eftir það.

Afi minn spilaði á fiðlu og var stjórnandi í hljómsveit sem spilaði aðallega klassíska trúartónlist. Næstum því allir í fjölskyldunni léku á hljóðfæri. Móðir mín söng í kirkjukór og frændi minn var óperusöngvari og píanóleikari. Við vorum heittrúaðir kaþólikkar. Ég var altarisdrengur og dreymdi um að verða kaþólskur trúboði en ég hafði líka mikinn áhuga á karatemyndum. En því meir sem ég horfði á þessar myndir þeim mun ofbeldishneigðari varð ég.

Í borginni Puebla gekk ég í trúarlegan skóla sem var hálfgerður prestaskóli. Ég ætlaði mér að verða prestur en á síðasta námsárinu varð ég fyrir miklum vonbrigðum með kaþólsku kirkjuna. Ung nunna reyndi að fá mig til við sig en ég stóðst freistinguna. Þetta vakti þó hjá mér löngun til að giftast. Ég tók líka eftir því að margir prestanna lifðu hræsnisfullu lífi. Að lokum langaði mig ekki lengur til að verða prestur.

Sem altarisdrengur dreymdi mig um að verða kaþólskur trúboði en ég hafði líka mikinn áhuga á karatemyndum og varð mjög ofbeldishneigður.

Ég ákvað að stunda nám við Þjóðartónlistarskólann í Mexíkóborg. Eftir að ég útskrifaðist gifti ég mig og við hjónin eignuðumst fjögur börn. Til að sjá fyrir fjölskyldunni söng ég við messu í kaþólsku kirkjunni.

Allt frá fyrsta degi áttum við í erfiðleikum í hjónabandinu. Við rifumst mikið, aðallega vegna þess að við vorum bæði mjög afbrýðisöm. Í fyrstu hreyttum við stöðugt ónotum hvort í annað en með tímanum breyttist það í líkamlegt ofbeldi. Eftir að hafa verið gift í þrettán ár ákváðum við að slíta samvistum og síðar skildum við.

BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Ég komst í kynni við votta Jehóva á meðan ég var enn giftur. Tveir vottar bönkuðu upp á hjá okkur og buðust til að ræða við okkur um Biblíuna. Ég taldi mig vita mikið um trúmál og ætlaði að sýna þeim fram á að þeir hefðu rangt fyrir sér. Ég spurði erfiðra spurninga sem ég hélt að enginn gæti svarað. En mér til undrunar komu þeir alltaf með góð svör sem þeir byggðu á Biblíunni. Þá fór ég að skilja hvað ég vissi í raun lítið. En vegna þess hve konan mín var ókurteis við vottana og ég alltaf svo upptekinn hættu þeir að heimsækja okkur.

Fimm árum seinna náði ég aftur sambandi við vottana en þá bjó ég með konu sem heitir Elvíra. Hún hafði ekkert á móti vottunum og það auðveldaði mér að ræða reglulega við þá um Biblíuna. Það tók mig samt sem áður mörg ár að gera breytingar á lífi mínu.

Ég gerði mér grein fyrir því að ef ég ætlaði að tilbiðja Jehóva heilshugar þyrfti ég að gera stórtækar breytingar. Í fyrsta lagi varð ég að hætta að syngja við messur í kaþólsku kirkjunni og það þýddi að ég þurfti að leita mér að annarri vinnu. (Opinberunarbókin 18:4) Í öðru lagi urðum við Elvíra að gifta okkur.

Eitt af því erfiðasta sem ég þurfti að takast á við var að læra að hemja skapið. Það voru tvö biblíuvers sem hjálpuðu mér hvað mest. Sálmur 11:5 kenndi mér að Jehóva hatar ofbeldi og ég lærði af 1. Pétursbréfi 3:7 að ef ég vildi að Jehóva hlustaði á bænir mínar þyrfti ég að virða konuna mína. Með því að hugleiða það sem stóð í þessum biblíuversum og biðja um hjálp frá Jehóva náði ég smám saman tökum á skapinu.

Ég lærði af Biblíunni að ef ég vildi að Jehóva hlustaði á bænir mínar þyrfti ég að virða konuna mína.

LÍFIÐ HEFUR BREYST TIL HINS BETRA:

Við eigum nú ánægjulegt fjölskyldulíf. Ég reyni hvað ég get að bæta samband mitt við syni mína frá fyrra hjónabandi og hjálpa fjölskyldu minni að viðhalda sterkri trú.

Mig dreymdi um að verða prestur og fá að hjálpa fólki þegar ég var ungur. En núna finnst mér ég hafa öðlast sannan tilgang í lífinu. Ég sé fyrir fjölskyldunni sem tónlistarkennari og er Jehóva óendanlega þakklátur fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að breyta mér og verða betri maður.