Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farsælt fjölskyldulíf

Sýndu maka þínum virðingu

Sýndu maka þínum virðingu

Viktor * segir: „Þegar Rakel er í uppnámi grætur hún lengi. Ef við reynum að ræða saman verður hún pirruð eða neitar jafnvel að tala við mig. Það er sama hvað ég segi, mér finnst ekkert ganga og þá langar mig bara til að gefast upp.“

Rakel segir: „Þegar Viktor kom heim var ég grátandi. Ég reyndi að útskýra hvað væri að en hann greip fram í fyrir mér. Hann sagði að þetta væri ekki svo alvarlegt og að ég ætti bara að gleyma þessu. Þá leið mér enn verr.“

LÍÐUR þér stundum eins og Viktori eða Rakel? Þau vilja bæði eiga góð tjáskipti en verða oft fyrir vonbrigðum. Af hverju?

Karlar og konur tjá sig með mismunandi hætti og hafa ólíkar þarfir. Konur vilja gjarnan tjá sig opinskátt um tilfinningar sínar. Karlmenn reyna hins vegar oft að varðveita friðinn með því að leysa vandann fljótt og forðast viðkvæm mál. En hvernig er þá hægt að brúa bilið og eiga góð tjáskipti við makann? Með því að sýna honum eða henni virðingu.

Sá sem sýnir öðrum virðingu metur þá mikils og reynir að skilja tilfinningar þeirra. Kannski hefurðu alist upp við að manni beri að sýna þeim virðingu sem hafa meiri reynslu eða ábyrgð en maður sjálfur. Í hjónabandi þarftu hins vegar að bera virðingu fyrir manneskju sem er jafningi þinn – maka þínum. „Filip er þolinmóður og skilningsríkur þegar hann hlustar á aðra,“ segir Linda sem hefur verið gift í átta ár. „Ég vildi bara að hann væri jafn hugulsamur við mig.“ Líklega sýnirðu vinum þínum og jafnvel ókunnugum þolinmæði og virðingu. En ertu jafn tillitssamur við maka þinn?

Ef ekki er sýnd virðing á heimilinu skapar það spennu sem veldur deilum. Vitur stjórnandi sagði eitt sinn: „Betri er þurr brauðbiti í næði en veisla í húsi fullu af deilum.“ (Orðskviðirnir 17:1) Í Biblíunni er bent á að maður eigi að heiðra eiginkonu sína eða bera virðingu fyrir henni. (1. Pétursbréf 3:7) Eiginkona á einnig að bera „lotningu fyrir manni sínum“. – Efesusbréfið 5:33.

Hvernig geturðu sýnt virðingu í samskiptum? Skoðum nokkur góð ráð sem er að finna í Biblíunni.

Þegar makinn þarf að ræða við þig

Áskorun:

Margir eru duglegri að tala en hlusta. Á það við um þig? Í Biblíunni stendur að „svari einhver áður en hann hlustar“ sé það heimska. (Orðskviðirnir 18:13) Áður en þú segir eitthvað skaltu því hlusta. Af hverju? Klara, sem hefur verið gift í 26 ár, segir: „Ég er ekki að biðja um að maðurinn minn finni skjótar lausnir fyrir mig. Hann þarf ekki einu sinni að vera sammála mér eða skilja ástæðuna fyrir vandamálinu. Ég vil bara að hann hlusti á mig og skilji hvernig mér líður.“

Bæði karlar og konur eiga hins vegar stundum erfitt með að tjá sig og finnst óþægilegt þegar makinn reynir að þrýsta á þau til að ræða um tilfinningar. Lísa, sem er nýgift, hefur tekið eftir að eiginmaður hennar þarf sinn tíma áður en hann getur rætt tilfinningaleg mál. „Ég verð að vera þolinmóð og bíða eftir að hann opni sig,“ segir hún.

Lausn:

Ef þið hjónin þurfið að ræða mál, sem getur valdið ágreiningi, skuluð þið gera það þegar þið eruð bæði afslöppuð. Hvað ef maki þinn er tregur til að tjá sig? Mundu að „ráð mannshjartans eru sem djúp vötn og hygginn maður eys af þeim.“ (Orðskviðirnir 20:5) Ef þú dregur fötu of hratt upp úr brunni skvettist mest allt vatnið úr henni. Það er svipað ef þú reynir að þvinga maka þinn til að tjá sig, þá gæti hann farið í vörn og þú færð ekkert meira upp úr honum. Spyrðu frekar spurninga á nærgætinn hátt sem endurspegla virðingu. Og sýndu þolinmæði ef makinn tjáir ekki tilfinningar sínar eins fljótt og þú vildir.

Þegar maki þinn loks tjáir sig skaltu „vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði“. (Jakobsbréfið 1:19) Sá sem hlustar vel heyrir ekki bara það sem sagt er heldur skilur líka tilfinningarnar sem liggja að baki. Reyndu því að átta þig á hvað maki þinn er að hugsa þegar hann tjáir sig. Hvernig þú hlustar segir mikið um það hve mikla virðingu þú berð fyrir maka þínum.

Jesús kenndi okkur hvernig við ættum að hlusta. Þegar veikur maður bað hann um hjálp leysti Jesús ekki vanda mannsins strax. Fyrst tók hann sér tíma til að hlusta á manninn og setja sig í spor hans þannig að hann fann til með honum. Að lokum læknaði hann manninn. (Markús 1:40-42) Fylgdu fordæmi Jesú þegar maki þinn talar við þig. Mundu að hann eða hún vill líklega bara fá samkennd en ekki að þú komir með skjótar lausnir. Hlustaðu því vandlega. Leyfðu því sem sagt er að hreyfa við tilfinningum þínum. Þá, og ekki fyrr, geturðu svarað á viðeigandi hátt. Þannig sýnirðu að þú virðir maka þinn.

PRÓFIÐ ÞETTA: Næst þegar maki þinn vill ræða við þig, reyndu þá að forðast að svara strax. Svaraðu ekki fyrr en makinn hefur sagt það sem honum býr í brjósti og þú skilur hann til fulls. Spyrðu maka þinn síðar hvort honum hafi fundist þú hlusta nógu vel á sig.

Þegar þú þarft að ræða við makann

Áskorun:

„Í vinsælum gamanþáttum er oft gefið í skyn að það sé eðlilegt að tala illa um maka sinn og vera kaldhæðinn og dónalegur við hann,“ segir Linda sem minnst var á fyrr í greininni. Sumir alast upp við þess konar tal. Þegar þeir síðan giftast og eignast sína eigin fjölskyldu reynist þeim erfitt að breyta þessum vana. Eva, sem býr í Kanada, segir: „Ég ólst upp á heimili þar sem niðrandi tal, öskur og kaldhæðni var daglegt brauð.“

Lausn:

Þegar þú talar við aðra um maka þinn skaltu tala um „það eitt sem er gott til uppbyggingar . . . til þess að það verði til góðs þeim sem heyra.“ (Efesusbréfið 4:29) Talaðu vel um maka þinn þannig að aðrir beri virðingu fyrir honum.

Forðastu að vera kaldhæðinn og kalla maka þinn ljótum nöfnum jafnvel þótt þið séuð bara tvö saman. Míkal, eiginkona Davíðs konungs í Ísrael, reiddist honum eitt sinn og sagði kaldhæðnislega að hann hagaði sér „eins og skríllinn“. Með orðum sínum móðgaði hún ekki aðeins Davíð heldur misbauð líka Jehóva. (2. Samúelsbók 6:20-23) Hvaða lærdóm má draga af þessu? Veldu orð þín vandlega þegar þú talar við maka þinn. (Kólossubréfið 4:6) Filip viðurkennir að þau hjónin séu ekki alltaf sammála jafnvel eftir átta ár í hjónabandi. Hann hefur tekið eftir að stundum gerir hann hlutina bara verri með því sem hann segir. „Ég átta mig á því að þótt ég ,vinni‘ rökræðurnar getur það haft slæm áhrif á samband okkar. Það er miklu ánægjulegra og gagnlegra að reyna að styrkja böndin okkar í milli.“

Til forna hvatti eldri ekkja tengdadætur sínar, sem einnig voru ekkjur, til að finna sér „traust heimili með nýjum eiginmanni“. (Rutarbók 1:9) Þegar bæði hjónin virða hvort annað verður heimili þeirra traust.

PRÓFIÐ ÞETTA: Taktu frá tíma til að skoða tillögurnar undir þessari millifyrirsögn með maka þínum. Spyrðu hann eða hana: „Sýni ég þér virðingu þegar ég tala um þig við aðra eða tala ég niðrandi um þig? Hvernig get ég bætt mig?“ Hlustaðu vel á makann þegar hann tjáir sig og reyndu að fara eftir því sem hann leggur til.

Virtu það að þið hjónin eruð ólík

Áskorun:

Nýgift hjón gera stundum þau mistök að halda að þar sem Biblían segir að hjón séu „einn maður“ þurfi þau að hugsa eins og vera sammála í öllu. (Matteus 19:5) Þau uppgötva samt fljótlega að það er óraunhæft. Í hjónabandinu leiða ólíkar skoðanir oft til deilna. Linda segir: „Einn stór munur á okkur Filip er að ég hef alltaf meiri áhyggjur af hlutunum en hann. Hann getur stundum verið pollrólegur þegar ég er mjög áhyggjufull yfir einhverju og þá verð ég reið vegna þess að það virðist ekki skipta hann máli.“

Lausn:

Virðið hvort annað eins og þið eruð og sættið ykkur við að þið eruð ólík. Lýsum þessu með dæmi: Augun gegna ekki sama hlutverki og eyrun en vinna samt saman og gera þér fært að ganga óskaddaður yfir götu. Adríana, sem hefur verið gift í tæpa þrjá áratugi, segir: „Ef skoðanir okkar stangast ekki á við meginreglur Biblíunnar þurfum við hjónin ekki endilega að vera sammála. Þegar öllu er á botninn hvolft erum við bara gift en ekki klónuð.“

Hugsaðu ekki bara um eigin hag þegar þið hjónin eruð ósammála. Virtu tilfinningar maka þíns. (Filippíbréfið 2:4) Kristófer, eiginmaður Adríönu, viðurkennir: „Ég skil ekki alltaf eiginkonu mína og er henni ekki alltaf sammála. En þá hugsa ég um að mér sé meira annt um hana en um skoðanir mínar. Þegar hún er ánægð þá er ég það líka.“

PRÓFIÐ ÞETTA: Búðu til lista yfir það sem þér finnst maki þinn gera betur en þú eða takast á við með skynsamlegri hætti. – Filippíbréfið 2:3.

Virðing er mikilvæg innan hjónabandsins til að það verði hamingjuríkt og varanlegt. Linda segir: „Hjónabandið verður ánægjulegra og traustara ef virðing ríkir á milli hjónanna. Að byggja hana upp er svo sannarlega þess virði.“

^ gr. 3 Nöfnum hefur verið breytt.

SPYRÐU ÞIG . . .

  • Hvernig auðgar það fjölskyldulífið að við hjónin skulum vera ólík?

  • Hvers vegna er gott að beygja sig að vilja makans þegar málið snýst ekki um biblíulegar meginreglur?