Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABANDIÐ

Að ræða vandamál

Að ræða vandamál

VANDINN

Getið þið hjónin ekki rætt vandamál án þess að vera ósáttari þegar upp er staðið? Ef svo er getið þið gert ýmislegt til bóta. En fyrst skulum við þó skoða muninn á því hvernig karlar og konur tjá sig. *

GOTT ER AÐ VITA

Konur vilja yfirleitt ræða málin áður en lausnin er rædd. Reyndar felst lausnin stundum í því að ræða saman.

„Mér léttir þegar ég hef sagt hvað mér býr í brjósti og veit að maðurinn minn skilur mig. Þegar við erum búin að tala saman líður mér yfirleitt miklu betur.“ – Sara. *

„Ef ég fæ ekki tækifæri til að útskýra fyrir manninum mínum hvernig mér líður get ég ekki gleymt vandmálinu. En ef ég fæ að tala út um það get ég lagt það að baki.“ – Anna.

„Þegar ég tala um vandamálið brýt ég það til mergjar og reyni að komast að því hvað veldur því, líkt og ég sé að vinna að rannsókn.“ – Lára.

Karlmenn hugsa gjarnan í lausnum. Það er ósköp skiljanlegt vegna þess að karlmanni finnst hann gera gagn þegar hann lagfærir hlutina. Þegar hann kemur með lausn á einhverjum vanda er hann að sýna eiginkonunni að hún geti treyst á hjálp hans. Það kemur honum því í opna skjöldu þegar úrlausnum hans er ekki tekið opnum örmum. „Ég skil ekki hvers vegna þarf að ræða vandamálið ef maður vill ekki fá lausn á því,“ segir eiginmaður að nafni Kristófer.

„Á undan ráðleggingum þarf að vera skilningur,“ segir í bókinni The Seven Principles for Making Marriage Work. „Þú þarft að fullvissa makann um að þú skiljir vandann til hlítar áður en þú stingur upp á lausnum. Oft þarfnast makinn ekki lausna heldur einfaldlega að þú hlustir á hann.“

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Fyrir eiginmenn: Temdu þér að hlusta af athygli. Eiginmaður, sem heitir Tómas, segir: „Ég hugsa stundum þegar ég er búinn að hlusta á konuna mína að það hafi ekki gert neitt gagn. En oft þarf hún ekki annað en að ég hlusti á hana.“ Stefán er sama sinnis. Hann segir: „Mér finnst best að leyfa konunni minni að tala út án þess að grípa fram í fyrir henni. Oftar en ekki nægir henni að tala um vandann og þá líður henni betur.“

Prófaðu eftirfarandi: Næst þegar þið hjónin ræðið eitthvert vandamál skaltu standast löngunina að koma með óumbeðin ráð. Horfðu í augun á henni og einbeittu þér að því sem hún segir. Kinkaðu kolli til samþykkis þegar það á við og sýndu að þú skiljir kjarna málsins með því að endurtaka meginatriðin. „Oft þarf konan mín einfaldlega að vita að ég skilji hana og að ég standi með henni,“ segir maður sem heitir Pétur. – Ráðlegging Biblíunnar: Jakobsbréfið 1:19.

Fyrir eiginkonur: Útskýrðu fyrir manninum þínum hvað þú vilt að hann geri. „Oft gerum við ráð fyrir að makinn viti hvers við þörfnumst,“ segir eiginkona sem heitir Elín, „en stundum þarf maður að útskýra það nákvæmlega.“ Önnur kona, að nafni Katrín, leggur þetta til: „Ég gæti sagt við manninn minn: ,Ég hef áhyggjur af dálitlu og mig langar til að þú hlustir á það sem ég hef að segja. Ég er ekki að biðja þig um að leysa málið heldur vil ég gjarnan að þú skiljir hvernig mér líður.‘“

Prófaðu eftirfarandi: Ef maðurinn þinn er of fljótur að stinga upp á lausnum skaltu ekki gera ráð fyrir að hann sé tillitslaus. Hann vill líklega aðeins létta þér byrðina. „Í stað þess að verða pirruð,“ segir Ester, „reyni ég að muna að maðurinn minn ber umhyggju fyrir mér og vill hlusta á mig en að hann langar jafnframt að hjálpa mér.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Rómverjabréfið 12:10.

Fyrir bæði hjónin: Við komum gjarnan fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur. En til að ræða vandamál með góðum árangri þarftu að hugsa um hvernig makinn vill láta koma fram við sig. (1. Korintubréf 10:24) Eiginmaður að nafni Mikael kemst svo að orði: „Eiginmaður þarf að vera fús til að hlusta af athygli. Eiginkona þarf að vera fús til að hlusta á lausnir af og til. Þegar hjón mætast á miðri leið er það þeim báðum til góðs.“ – Ráðlegging Biblíunnar: 1. Pétursbréf 3:8.

^ gr. 4 Tjáskiptamunurinn, sem lýst er í þessari grein, á ekki við um öll hjón. Samt sem áður geta meginreglurnar hjálpað öllum hjónum að eiga betri tjáskipti og skilja hvort annað betur.

^ gr. 7 Nöfnum í þessari grein er breytt.