Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Elias Hutter og markverðar biblíur hans á hebresku

Elias Hutter og markverðar biblíur hans á hebresku

GETUR þú lesið forn-hebresku? Sennilega ekki. Kannski hefurðu ekki einu sinni séð biblíu á hebresku. En eftir að hafa lesið um Elias Hutter, fræðimann frá 16. öld, og biblíurnar tvær sem hann gaf út á hebresku, kanntu eflaust enn betur að meta biblíuna þína.

Elias Hutter fæddist árið 1553 í Görlitz, litlum þýskum bæ sem liggur nú nálægt landamærum Póllands og Tékklands. Hann nam austurlensk tungumál í lúterska háskólanum í Jena. Þegar Hutter var rétt orðinn 24 ára var hann skipaður prófessor í hebresku við háskólann í Leipzig. Sem umbótasinni á sviði menntamála stofnaði hann síðar skóla í Nürnberg þar sem nemendur gátu lært hebresku, grísku, latínu og þýsku á innan við fjórum árum. Það var eini skólinn sem bauð upp á slíkt nám á þeim tíma.

„ÞESSI ÚTGÁFA ER HIN GLÆSILEGASTA“

Titilsíða hebreskrar biblíu Hutters frá 1587.

Árið 1587 gaf Hutter út Gamla testamentið á hebresku. Þessi útgáfa bar titilinn Derek ha-Kodes. Hann er tekinn úr Jesaja 35:8 og þýðir „Brautin helga“. Leturgerðin í bókinni var svo falleg að sagt var um hana: „Þessi útgáfa er hin glæsilegasta í alla staði.“ En það sem gerði hana einstaklega verðmæta var að hún var gott hjálpargagn fyrir nemendur í hebresku.

Til að skilja hvers vegna hebresk biblía Hutters var sérlega gagnleg skulum við skoða tvær áskoranir sem nemendur stóðu frammi fyrir þegar þeir reyndu að lesa Biblíuna á hebresku. Í fyrsta lagi var hún skrifuð með framandi stafrófi og í öðru lagi gerðu forskeyti og viðskeyti nemendum erfitt fyrir að finna stofn orðanna. Skoðum til dæmis hebreska orðið נפשׁ (umritað nefes) sem merkir „sál“. Í Esekíel 18:4 er forskeytinu ה (ha) bætt framan við og myndar þannig orðið הנפשׁ (han·nefes) sem þýðir „sálin“. Í augum þess sem er óvanur að lesa hebresku gæti orðið הנפשׁ (han·nefes) virst alveg óskylt orðinu נפשׁ (nefes).

Til þess að nemendurnir ættu auðveldara með að læra hebresku notaði Hutter mjög snjalla prenttækni. Hann notaði leturgerð sem sýndi hebresku orðin bæði með venjulegu letri og útlínuletri. Stofn allra orða var með venjulegu letri en forskeytin og viðskeytin með útlínuletri. Þessi einfalda aðferð gerði nemendum auðveldara um vik að koma auga á stofn hebresku orðanna. Í biblíuþýðingunni New World Translation of the Holy Scriptures – With References er notuð svipuð aðferð í neðanmálsathugasemdum. * Stofn orðanna er umritaður með feitu letri en forskeytin og viðskeytin með grönnu letri. Upplýstir fletir myndanna hér að ofan sýna leturgerðina sem notuð var í hebreskri biblíu Hutters í Esekíel 18:4 og einnig leturgerðina sem notuð er í neðanmálsathugasemdum í Reference Bible við sama vers.

HEBRESK ÚTGÁFA AF NÝJA TESTAMENTINU

Hutter gaf einnig út Nýja testamentið þar sem textinn var þýddur á 12 tungumál. Bókin kom út í Nürnberg árið 1599 og er oft nefnd Nürnberg Polyglot. Hutter vildi að ein þýðingin væri á hebresku. En hann sagði að þótt hann „hefði viljað borga stórfé“ fyrir hebreska þýðingu hefði leit að henni engu skilað. * Hann ákvað því að þýða sjálfur Nýja testamentið úr grísku yfir á hebresku. Hutter lagði öll önnur verk til hliðar og lauk þýðingunni á aðeins einu ári.

Hversu vönduð var hebresk þýðing Hutters á Nýja testamentinu? Franz Delitzsch, þekktur hebreskufræðingur á 19. öld, skrifaði: „Hebresk þýðing hans ber merki um skilning á tungumálinu sem var fátíður meðal kristinna manna. Það er enn hægt að styðjast við þýðinguna því að hvað eftir annað nær hann að nota hárrétt orðalag.“

VARANLEG ÁHRIF

Hutter varð ekki ríkur af þýðingum sínum því að biblíur hans virðast ekki hafa selst vel. Samt sem áður hafa verk hans haft mikil og varanleg áhrif. Hebresk þýðing hans á Nýja testamentinu var til dæmis endurskoðuð og endurprentuð árið 1661 af William Robertson og aftur árið 1798 af Richard Caddick. Þegar Hutter þýddi úr gríska frummálinu þýddi hann titlana Kyrios (Drottinn) og þeos (Guð) réttilega sem „Jehóva“ (יהוה, JHVH) á stöðum þar sem vitnað var í Gamla testamentið eða þar sem hann taldi að átt væri við Jehóva Guð. Jafnvel þótt nafni Guðs sé sleppt í mörgum þýðingum á Nýja testamentinu gerir Hutter það ekki og færir þannig frekari sönnur á að nota ætti nafn Guðs í Nýja testamentinu.

Næst þegar þú sérð nafn Guðs, Jehóva, í Nýja testamentinu eða skoðar neðanmálsathugasemd í Reference Bible skaltu minnast verka Eliasar Hutters og markverðra biblía hans á hebresku.

^ gr. 7 Sjá seinni neðanmálsathugasemd við Esekíel 18:4 og viðauka 3B í Reference Bible.

^ gr. 9 Svo virðist sem aðrir fræðimenn hafi áður þýtt Nýja testamentið yfir á hebresku. Einn þeirra var Simon Atoumanos, býsanskur munkur sem lauk þýðingu sinni um 1360. Annar var Oswald Schreckenfuchs, þýskur fræðimaður sem lauk við þýðingu sína um 1565. Þessar þýðingar voru aldrei gefnar út og eru nú glataðar.