Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | ÆTLAR ÞÚ AÐ ÞIGGJA MESTU GJÖF GUÐS?

Mesta gjöf Guðs – hvers vegna er hún svona verðmæt?

Mesta gjöf Guðs – hvers vegna er hún svona verðmæt?

Hvað finnst þér gera gjöf sérstaklega verðmæta? Líklega hefur fernt áhrif á það: (1) Hver gaf þér hana, (2) hvers vegna var hún gefin, (3) hvað kostaði hún gefandann og (4) fullnægði gjöfin ákveðinni þörf? Að hugleiða þessar spurningar getur aukið þakklæti okkar fyrir lausnarfórnina – mestu gjöf Guðs.

HVER GAF HANA?

Sumar gjafir eru verðmætar vegna þess að einhver háttsettur eða mikils metinn gaf okkur þær. Aðrar gjafir geta verið lítils virði í peningum talið en við metum þær mikils vegna þess að kær vinur eða ættingi gaf okkur þær. Russell gaf Jordan þess konar gjöf, eins og minnst var á í greininni á undan. Hvernig á þetta við um lausnarfórnina sem Guð gaf?

Í fyrsta lagi segir í Biblíunni: „Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf.“ (1. Jóhannesarbréf 4:9) Það gerir gjöfina mjög verðmæta. Enginn er hærra settur en Guð. Hebreskt sálmaskáld söng um hann: „Þú, sem berð nafnið Drottinn, þú einn ert Hinn hæsti yfir allri jörðinni.“ (Sálmur 83:19) Við getum ekki fengið gjöf frá nokkrum hærra settum en honum.

Í öðru lagi er Guð ,faðir okkar‘. (Jesaja 63:16) Í hvaða skilningi? Hann gaf okkur lífið. Þar að auki lætur hann sér annt um okkur eins og ástríkur faðir lætur sér annt um börnin sín. Guð kallaði fólk sitt til forna Efraím og spurði: „Er Efraím mér svo kær sonur eða slíkt eftirlætisbarn? ... Ég [hef] meðaumkun með honum, hlýt að sýna honum miskunn.“ (Jeremía 31:20) Guði er eins innanbrjósts gagnvart þeim sem tilbiðja hann nú á dögum. Hann er ekki aðeins almáttugur skapari okkar heldur tryggur vinur og faðir. Eru þá ekki gjafir frá honum sérstaklega verðmætar?

HVERS VEGNA VAR HÚN GEFIN?

Sumar gjafir þykir okkur sértaklega vænt um vegna þess að þær voru ekki gefnar af skyldukvöð heldur af einskærum kærleika. Sá sem gefur af óeigingjörnum hvötum ætlast ekki til að fá eitthvað í staðinn fyrir góðvild sína.

Guð gaf son sinn í okkar þágu vegna þess að hann elskar okkur. „Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn,“ segir í Biblíunni. Til hvers gerði hann það? „Til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf.“ (1. Jóhannesarbréf 4:9) Var Guð skyldugur að gera það? Engan veginn. Lausnargjaldið var greitt „af náð“. – Rómverjabréfið 3:24.

Hvers vegna er hægt að segja að gjöf Guðs sé merki um náð hans? Biblían segir: „Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Rómverjabréfið 5:8) Guð gerði syndugu og hjálparvana mannkyni gott vegna þess að hann ber óeigingjarnan kærleika til þess. Við hvorki verðskulduðum kærleika hans né getum nokkurn tíma endurgoldið honum þessa gjöf. Enginn hefur nokkru sinni sýnt meiri kærleika.

HVAÐ KOSTAÐI HÚN GEFANDANN?

Sumar gjafir metum við mikils vegna þess að sá sem gaf hana fórnaði miklu. Þegar einhver er fús til að gefa okkur það sem er honum mikils virði er gjöfin okkur sérstaklega kær vegna þess að hún kostaði gefandann mikið.

Guð „gaf einkason sinn“. (Jóhannes 3:16) Hann gat ekki fórnað neinu sem stóð honum nær. Allan þann tíma, sem Guð var að skapa alheiminn, vann Jesús við hlið hans og „var yndi hans“. (Orðskviðirnir 8:30) Jesús er ,elskaður sonur‘ hans og „ímynd hins ósýnilega Guðs“. (Kólossubréfið 1:13-15) Engar vitibornar verur hafa bundist sterkari böndum.

Samt sem áður „þyrmdi [Guð] ekki sínum eigin syni“. (Rómverjabréfið 8:32) Jehóva Guð gaf okkur það besta sem hann átti. Engin gjöf hefur kostað hann jafn mikið.

HÚN FULLNÆGIR SÁRRI ÞÖRF

Sumar gjafir metum við mikils af því að við þurfum verulega á þeim að halda. Hugsaðu þér hve mikils þú kynnir að meta það ef einhver byðist til að greiða fyrir læknismeðferð sem gæti bjargað lífi þínu en þú hefðir ekki efni á. Fyndist þér það ekki ómetanleg gjöf?

„Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist.“ (1. Korintubréf 15:22) Við deyjum öll vegna þess að við erum afkomendur Adams. Við getum hvorki umflúið sársaukann sem fylgir veikindum og dauða né sæst við Guð á eigin spýtur og staðið saklaus frammi fyrir honum. Þar að auki erum við mennirnir of lítilmótlegir til að geta ,lífgað‘ sjálfa okkur eða aðra. Í Biblíunni segir: „Enginn fær keypt bróður sinn lausan eða greitt Guði lausnargjald fyrir hann ... ekkert mundi nokkru sinni nægja.“ (Sálmur 49:8, 9) Við þurfum sárlega á hjálp að halda því að við eigum ekki fyrir lausnargjaldinu. Við getum ekki bjargað okkur sjálf.

Í kærleika sínum greiddi Jehóva Guð fúslega fyrir „meðferðina“ sem þurfti til að bjarga lífi okkar. Þannig verða „allir lífgaðir“ fyrir tilstilli Jesú. Hvernig gerði lausnarfórnin það mögulegt? „Blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.“ Já, með því að trúa á úthellt blóð Jesú fáum við fyrirgefningu synda og eilíft líf. (1. Jóhannesarbréf 1:7; 5:13) En hvernig gagnast lausnarfórnin látnum ástvinum okkar? „Eins og dauðinn kom með manni, þannig kemur upprisa dauðra með manni,“ það er að segja Jesú. – 1. Korintubréf 15:21. *

Engin gjöf hefur verið gefin af jafn háttsettum einstaklingi og af jafn miklum kærleika og fórn Jesú. Enginn hefur fórnað eins miklu fyrir okkur og Jehóva Guð. Og engin gjöf fullnægir meiri þörf en lausnarfórnin sem leysir okkur undan synd og dauða. Engin gjöf kemst í hálfkvisti við þá óendanlega dýrmætu gjöf sem lausnarfórnin er.

 

^ gr. 19 Nánari upplýsingar um þá fyrirætlun Guðs að reisa látna til lífs á ný má finna í 7. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og er fáanleg á www.pr418.com/is.