Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er Guð?

Hvernig er Guð?

Því betur sem við kynnumst eiginleikum einhvers því betur þekkjum við hann og vináttuböndin verða sterkari. Eins getur vinátta okkar við Jehóva Guð styrkst þegar við kynnumst því hvernig hann er og hvaða eiginleika hann hefur. Af öllum stórkostlegu eiginleikum Guðs eru fjórir sem skara fram úr: máttur hans, viska, réttlæti og kærleikur.

GUÐ ER MÁTTUGUR

„Æ, Drottinn minn og Guð. Þú hefur gert himin og jörð með miklum mætti þínum.“ – JEREMÍA 32:17.

Máttur Guðs sést á sköpunarverkinu. Þú finnur til dæmis fyrir yl sólarinnar á húðinni þegar þú ert úti á björtum sumardegi. Reyndar finnurðu þá fyrir því sem sköpunarmáttur Jehóva hefur komið til leiðar. Hversu kröftug er sólin? Kjarni sólar er sagður vera um 15.000.000 gráður á Celsíus. Á hverri sekúndu sendir sólin frá sér orku sem samsvarar því að sprengdar væru mörg hundruð milljónir kjarnorkusprengna.

En sólin okkar er smá miðað við margar af óteljandi stjörnum alheimsins. Vísindamenn áætla að þvermál UY Scuti, sem er ein stærsta stjarnan, sé um 1.700 sinnum þvermál sólarinnar að stærð. Ef UY Scuti kæmi í stað sólarinnar myndi hún gleypa jörðina og ná út fyrir sporbraut Júpíters. Þetta hjálpar okkur kannski að skilja betur orð Jeremía um að Jehóva Guð hafi gert himin og jörð, það er að segja alheiminn, með miklum mætti sínum.

Hvernig njótum við góðs af mætti Guðs? Líf okkar er undir efnislegu sköpunarverki Guðs komið, eins og sólinni og öllum auðlindum jarðarinnar. Auk þess notar Guð mátt sinn í þágu okkar sem einstaklinga. Hvernig? Guð veitti Jesú mátt til að vinna kraftaverk á fyrstu öld. Í Biblíunni segir: „Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp.“ (Matteus 11:5) Hvað um okkar tíma? Í Biblíunni segir: „Hann veitir kraft hinum þreytta ... þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft.“ (Jesaja 40:29, 31) Guð getur veitt okkur ,kraftinn mikla‘ til að gera okkur kleift að takast á við prófraunir og erfiðleika lífsins. (2. Korintubréf 4:7) Langar þig ekki að eiga samband við Guð sem í kærleika sínum notar ótakmarkaðan mátt sinn í okkar þágu?

GUÐ ER VITUR

„Hversu mörg eru verk þín, Drottinn? Þú vannst þau öll af speki.“ – SÁLMUR 104:24.

Handaverk Jehóva Guðs vekja með okkur meiri lotningu fyrir visku hans eftir því sem við kynnum okkur þau betur. Til er fræðigrein sem kallast lífhermitækni þar sem vísindamenn rannsaka sköpunarverk Jehóva og líkja eftir hönnun náttúrunnar. Þetta gera þeir til að betrumbæta sína eigin hönnun. Sem dæmi má nefna franskan rennilás og hönnun á flugvélum.

Mannsaugað er stórkostleg sköpun.

Viska Guðs sést hvergi betur en í mannslíkamanum. Hugleiðum til dæmis hvernig mannsbarn þroskast í móðurkviði. Ferlið byrjar á einni frjóvgaðri frumu sem inniheldur allar erfðafræðilegar upplýsingar sem þarf. Þessi fruma skiptist í margar frumur sem líta eins út. En á nákvæmlega réttum tíma byrja frumurnar að mótast á mismunandi hátt og skiptast í um 200 ólíkar tegundir frumna, svo sem blóðfrumur, taugafrumur og beinfrumur. Fljótlega koma í ljós líffærakerfi sem byrja að starfa. Á aðeins níu mánuðum verður þessi eina fruma að milljörðum frumna sem mynda fullskapað ungbarn. Viskan í þessari hönnum fær marga til að taka undir með biblíuritaranum sem sagði: „Ég lofa þig fyrir það að ég er undursamlega skapaður.“ – Sálmur 139:14.

Hvernig njótum við góðs af visku Guðs? Skaparinn veit hvað gerir okkur hamingjusöm. Þar sem hann býr yfir víðtækri þekkingu og skilningi getur hann gefið okkur vitur ráð í orði sínu Biblíunni. Við fáum til dæmis þessa hvatningu: „Fyrirgefið hvert öðru.“ (Kólossubréfið 3:13) Þetta er viturlegt ráð. Rannsóknir hafa sýnt fram á að það getur bætt svefn og lækkað blóðþrýsting að vera fús til að fyrirgefa. Það getur einnig dregið úr hættunni á þunglyndi og öðrum veikindum. Guð er eins og vitur og umhyggjusamur vinur sem hættir aldrei að gefa okkur góð og gagnleg ráð. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Myndir þú ekki vilja eiga slíkan vin?

GUÐ ER RÉTTLÁTUR

„Drottinn hefur mætur á réttlæti.“ – SÁLMUR 37:28.

Guð gerir alltaf það rétta. „Fjarri fer því að Guð breyti ranglega og Hinn almáttki aðhafist illt.“ (Jobsbók 34:10) Dómar hans eru réttlátir eins og sálmaritarinn sagði: „Þú dæmir þjóðirnar réttvíslega.“ (Sálmur 67:5) Vegna þess að „drottinn horfir á hjartað“ sér hann alltaf í gegnum hræsni og dæmir réttlátlega. (1. Samúelsbók 16:7) Þar að auki tekur Guð eftir öllu óréttlæti og spillingu á jörðinni og hann lofar að innan skamms ,verði hinir ranglátu upprættir úr landinu‘. – Orðskviðirnir 2:22.

En Guð er ekki harður dómari sem leitast við að refsa fólki. Hann sýnir miskunn þegar við á. Í Biblíunni segir að Jehóva sé „náðugur og miskunnsamur“, jafnvel gangvart ranglátu fólki sem iðrast í einlægni. Það er réttlæti í raun. – Sálmur 103:8; 2. Pétursbréf 3:9.

Hvernig njótum við góðs af réttlæti Guðs? Pétur postuli sagði: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Við njótum góðs af réttlæti Guðs vegna þess að hann er aldrei hlutdrægur. Hann getur tekið við okkur og við getum tilbeðið hann óháð kynþætti okkar, þjóðerni, menntun eða þjóðfélagsstöðu.

Guð fer ekki í manngreinarálit. Við njótum góðs af því óháð kynþætti okkar eða þjóðfélagsstöðu.

Guð hefur gefið okkur samvisku vegna þess að hann vill að við njótum góðs af og skiljum réttlæti hans. Í Biblíunni er samviskunni líkt við lögmál sem er ,skráð í hjörtu okkar‘ og ,ber vitni‘ um hvort hegðun okkar sé rétt eða röng. (Rómverjabréfið 2:15) Hvernig njótum við góðs af samviskunni? Ef hún er rétt þjálfuð getur hún hvatt okkur til að snúa baki við skaðlegri eða ranglátri hegðun. Og ef við gerum mistök getur hún fengið okkur til að iðrast og leiðrétta stefnu okkar. Að skilja réttlætiskennd Guðs auðveldar okkur að nálgast hann.

GUÐ ER KÆRLEIKUR

„Guð er kærleikur.“ – 1. JÓHANNESARBRÉF 4:8.

Guð sýnir mátt, visku og réttlæti. En Biblían segir ekki að Guð máttur, viska eða réttlæti. Hún segir að hann kærleikur. Hvers vegna? Vegna þess að máttur Guðs gerir honum kleift að framkvæma og réttlæti hans og viska stýra því hvernig hann framkvæmir. En kærleikur Jehóva fær hann til að framkvæma. Kærleikur hefur áhrif á allt sem hann gerir.

Guð skorti ekki neitt en kærleikur fékk hann til að skapa vitibornar verur bæði á himni og jörð sem geta notið góðs af kærleika hans og umhyggju. Í óeigingirni sinni skapaði hann jörðina til að verða fullkomið heimili mannanna. Og hann heldur áfram að sýna öllum mönnum kærleika því að hann „lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta“. – Matteus 5:45.

Auk þess er Jehóva „mjög miskunnsamur og líknsamur“. (Jakobsbréfið 5:11) Hann sýnir þeim ástúð sem vilja í einlægni eignast náið samband við hann og hann þekkir þá persónulega. „Eigi er hann langt frá neinum af okkur.“ – Postulasagan 17:27.

Hvernig njótum við góðs af kærleika Guðs? Við njótum þess að horfa á fallegt sólsetur. Við gleðjumst þegar við heyrum barn hlæja. Og okkur þykir vænt um þegar okkar nánustu sýna okkur kærleika. Ekkert af þessu er nauðsynlegt en bætir líf okkar til muna.

Við njótum líka góðs af kærleika Guðs með bæninni. Biblían hvetur okkur: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ Eins og ástríkur faðir vill Jehóva að við leitum til hans með þau áhyggjuefni sem liggja okkur á hjarta. Þá lofar hann okkur í óeigingjörnum kærleika sínum að „friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi,“ varðveiti okkur. – Filippíbréfið 4:6, 7.

Hefur þessi stutta umfjöllun um höfuðeiginleika Guðs – mátt, visku, réttlæti og kærleika – gefið þér betri mynd af því hvernig Guð er? Við hvetjum þig til að kynna þér hvað Guð hefur þegar gert fyrir þig og hvað hann á eftir að gera. Þannig kynnistu góðum eiginleikum hans enn betur.

HVERNIG ER GUÐ? Enginn er eins máttugur, vitur og réttlátur og Jehóva. En kærleikur hans höfðar sterkast til okkar.