Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Vinna

Vinna

Þó að Biblían sé gömul bók eiga leiðbeiningar hennar alltaf við. Það sem hún segir um vinnu á eins vel við nú á dögum og þegar hún var færð í letur.

Hvernig ættum við að hugsa um vinnu?

HVAÐ SEGJA SUMIR?

Ef þú vilt halda vinnunni verðurðu að setja hana í algeran forgang. Slíkt viðhorf veldur því að sumir verða svo gagnteknir af vinnunni að þeir vanrækja fjölskylduna og heilsuna.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían hvetur okkur til að hafa skynsamlegt viðhorf til vinnu. Hún fer fögrum orðum um iðjusemi og fordæmir leti. (Orðskviðirnir 6:6-11; 13:4) En hún hvetur okkur þó ekki til að nota allan tíma okkar og krafta í vinnu. Við erum hvött til að sýna skynsemi og taka okkur tíma til að slaka á af og til. Í Prédikaranum 4:6 segir: „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ Við ættum því ekki að láta vinnuna gleypa okkur þannig að við vanrækjum fjölskyldu okkar eða heilsuna. Okkur er enginn hagur í því að vinna okkur til óbóta.

„Ekkert hugnast mönnum betur en að matast og drekka og láta sál sína njóta fagnaðar af striti sínu.“ – Prédikarinn 2:24.

Skiptir máli hvernig vinnu maður velur?

HVAÐ SEGJA SUMIR?

Vinnan er góð ef hún er bara nógu vel borguð. Slíkt viðhorf ásamt löngun í skjótfenginn gróða hefur fengið suma til að taka þátt í óheiðarlegum viðskiptum og jafnvel ráða sig í ólöglega vinnu.

Aðrir hafa þá skoðun að maður eigi bara að vinna við það sem mann langar til og láta drauma sína rætast. Þeir vilja eingöngu starfa við það sem þeim finnst skemmtilegt. Ef vinnan er ekki „köllun“ þeirra í lífinu eða fær ekki adrenalínið til að streyma finnst þeim hún leiðinleg. Þeir fá neikvæða sýn á vinnuna og gera eins lítið og þeir komast upp með. Þeir hafna jafnvel góðri vinnu vegna þess að þeim finnst hún vera fyrir neðan sína virðingu.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían leggur ekki blessun sína yfir óheiðarlega vinnu eða vinnu sem skaðar fólk á einhvern hátt. (3. Mósebók 19:11, 13; Rómverjabréfið 13:10) Góð vinna gagnast öðrum og stuðlar að því að starfsmaðurinn hafi „góða samvisku“. – 1. Pétursbréf 3:16.

Biblían kennir einnig að vinna þjóni göfugu markmiði. Henni er ekki fyrst og fremst ætlað að stuðla að lífsfyllingu heldur gerir hún okkur kleift að sjá fyrir okkur og fjölskyldu okkar. Það er auðvitað ekkert rangt við það að njóta vinnunnar en hún ætti ekki að skipta mestu máli í lífinu.

„Pabbi minn er mjög upptekinn maður. Ásamt því að sinna vinnunni sinni gegnir hann líka ábyrgðarstörfum í söfnuðinum okkar en við erum vottar Jehóva. Hann hefur gott vinnusiðferði. Hann gerir það sem hann þarf að gera en ver líka tíma með mér, systur minni og mömmu. Pabbi hefur margt á sinni könnu en hann gætir ávallt jafnvægis.“ – Alannah.

Verðbólga og hækkandi verðlag getur gert okkur áhyggjufull yfir því hvernig við eigum að láta enda ná saman. En Biblían hvetur okkur til að vera hófsöm. Hún segir: „Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja.“ (1. Tímóteusarbréf 6:8) Þessi orð merkja ekki að við þurfum að neita okkur um allt. En við ættum að meta af raunsæi hverju við höfum efni á og hvað við þurfum að eignast. – Lúkas 12:15.

HVAÐ GETUR ÞÚ GERT?

Vertu duglegur starfskraftur og sinntu vinnunni af áhuga. Leggðu þig fram um að ná góðum tökum á vinnunni jafnvel þó að þér finnist hún lítilmótleg eða hún sé ekki draumavinnan. Ef þú vinnur vel finnst þér þú hafa áorkað einhverju og þegar þú hefur náð góðum tökum á vinnunni gæti það jafnvel aukið ánægju þína af henni.

Sýndu góða dómgreind og forðastu öfgar. Notaðu hæfilegan tíma í hvíld og afþreyingu. Afþreying er jafnvel enn ánægjulegri eftir að maður hefur lokið góðu verki. Það eykur einnig sjálfsvirðinguna að geta séð fyrir sjálfum sér og maður ávinnur sér virðingu annarra – þar á meðal fjölskyldunnar. – 2. Þessaloníkubréf 3:12.

„Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? ... Yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa.“ – Matteus 6:31, 32.