Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefur sannleikur glatað gildi sínu?

Hefur sannleikur glatað gildi sínu?

 Virðast þér mörkin milli sannleika og lygi vera orðin óljós? Fólk virðist frekar byggja sannfæringu sína á tilfinningum og persónulegri skoðun en á því sem er satt og byggt á staðreyndum. Til að mynda hefur nýyrðið „post-truth“ (eftirsannleikur) náð vinsældum í hinum enskumælandi heimi undanfarin ár en það lýsir vel þessari stöðu. a Það gefur góða mynd af stöðu mála í þessum efnum núorðið þar sem mörgum finnst ekki vera til neinn sannleikur.

 Þetta viðhorf er ekki nýtt af nálinni. Fyrir um 2.000 árum spurði rómverski landstjórinn, Pontíus Pílatus, Jesú kaldhæðnislega: „Hvað er sannleikur?“ (Jóhannes 18:38) Þessi spurning er mikilvæg jafnvel þótt Pílatus hafi ekki beðið eftir svari. Í Biblíunni er að finna fullnægjandi svar sem gæti hjálpað þér að greina milli sannleika og lygi í heimi þar sem fólk er svo ráðvillt í þessu sambandi.

Er til sannleikur yfirhöfuð?

 Já. Biblían notar orðið „sannleikur“ um það sem er byggt á staðreyndum og það sem er siðferðilega rétt. Hún kennir að Jehóva b Guð sé uppspretta algilds sannleika og kallar hann „Guð sannleikans“. (Sálmur 31:5) Í Biblíunni er að finna sannleikann frá Guði og þar er honum líkt við ljós sem getur vísað okkur leið gegnum óreiðuna í heiminum. – Sálmur 43:3; Jóhannes 17:17.

Hvernig geturðu fundið sannleikann?

 Guð vill ekki að við trúum Biblíunni í blindni. Hann býður okkur að rannsaka hana með því að beita skynseminni í stað þess að treysta á tilfinningar okkar. (Rómverjabréfið 12:1) Hann vill að við kynnumst sér og lærum að elska hann og beitum til þess ‚öllum huga‘ okkar . Hann hvetur okkur til að ganga úr skugga um að það sem við lærum í Biblíunni sé satt og rétt. – Matteus 22:37, 38; Postulasagan 17:11.

Hvaðan kemur lygin?

 Biblían bendir á að lygin eigi upptök sín hjá óvini Guðs, Satan Djöflinum, sem hún kallar ‚föður lyginnar‘. (Jóhannes 8:44) Hann laug að fyrstu manneskjunum um Guð. (1. Mósebók 3:1–6, 13, 17–19; 5:5) Satan hefur síðan þá haldið áfram að dreifa lygum og fela sannleikann um Guð. – Opinberunarbókin 12:9.

Hvers vegna er svona algengt að fólk ljúgi?

 Nú á dögum, sem Biblían kallar ‚síðustu daga‘, afvegaleiðir Satan fólk meira en nokkru sinni fyrr. Margir segja ósatt til að blekkja aðra og notfæra sér þá. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 13) Ósannindi eru líka útbreidd í flestum trúarbrögðum nú á dögum. Biblían sagði fyrir að fólk á okkar tímum myndi ‚safna í kringum sig kennurum til að heyra það sem kitlar eyrun‘ og það myndi ‚hætta að hlusta á sannleikann‘. – 2. Tímóteusarbréf 4:3, 4.

Hvers vegna er sannleikur mikilvægur?

 Sannleikur er grunnurinn að trausti milli fólks. Án trausts rofnar vinátta og samfélög liðast í sundur. Biblían segir að Guð vilji að tilbeiðsla okkar sé byggð á sannleika. Hún segir: „Þeir sem tilbiðja [Guð] eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:24) Lestu greinaröðina „Lygar sem gera það erfitt að elska Guð“ til að sjá hvernig sannleikur Biblíunnar getur hjálpað þér að koma auga á ósannindi í trúarbrögðum og slitið þig frá þeim.

Hvers vegna vill Guð að ég þekki sannleikann?

 Guð vill að þú bjargist og til þess þarftu að læra sannleikann um hann. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Ef þú lærir að þekkja mælikvarða Guðs um rétt og rangt og lifir í samræmi við hann eignastu náið vináttusamband við hann. (Sálmur 15:1, 2) Guð sendi Jesú til jarðarinnar til að kenna fólki sannleikann og hann vill að við hlustum á kennslu hans. – Matteus 17:5; Jóhannes 18:37.

Bindur Guð enda á lygi?

 Já. Guð hefur andstyggð á því þegar fólk fer illa með aðra með því að beita blekkingum. Hann hefur lofað að losa jörðina við þá sem ætla sér að halda áfram að ljúga. (Sálm. 5:6) Þegar Guð gerir það mun hann jafnframt uppfylla loforð sitt um að ‚sannsöglar varir standi að eilífu‘. – Orðskviðirnir 12:19.

a Oxford-orðabækurnar tilkynntu að orðið „post-truth“ væri orð ársins 2016.

b Jehóva er nafn Guðs. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?