Bréfið til Galatamanna 2:1–21

  • Páll hittir postulana í Jerúsalem (1–10)

  • Páll leiðréttir Pétur (Kefas) (11–14)

  • Lýst réttlát aðeins vegna trúar (15–21)

2  Að 14 árum liðnum fór ég aftur upp til Jerúsalem ásamt Barnabasi og tók líka Títus með mér.  Ég fór þangað eftir að hafa fengið opinberun og útlistaði einslega fyrir hinum virtu bræðrum fagnaðarboðskapinn sem ég boða meðal þjóðanna. Ég gerði það til að ganga úr skugga um að ég starfaði ekki og hefði ekki starfað* til einskis.  Það var ekki einu sinni farið fram á að Títus, sem var með mér, léti umskerast þó að hann væri Grikki.  En það mál kom upp vegna falsbræðranna sem laumuðust inn í söfnuðinn. Þeir smeygðu sér inn til að njósna um frelsið sem við njótum þar sem við erum lærisveinar Krists Jesú, svo að þeir gætu hneppt okkur í þrældóm.  Við létum ekki undan þeim, nei, ekki eitt augnablik,* til að sannleikur fagnaðarboðskaparins héldist meðal ykkar.  En hvað varðar þá sem álitnir voru mikilvægir – það skiptir mig engu hvað þeir voru því að Guð lítur ekki á ytra útlit manna – þá miðluðu þessir virtu bræður mér engum nýjum hugmyndum.  Þeir skildu öllu heldur að mér hafði verið trúað fyrir að flytja hinum óumskornu fagnaðarboðskapinn, rétt eins og Pétri hinum umskornu,  því að sá sem gaf Pétri mátt til að vera postuli meðal hinna umskornu gaf mér sömuleiðis mátt til að vera postuli meðal fólks af þjóðunum.  Þegar Jakob, Kefas* og Jóhannes, þeir sem voru álitnir máttarstólpar, skildu að mér hafði verið sýnd einstök góðvild réttu þeir okkur Barnabasi hægri hönd sína til tákns um bræðralag.* Við skyldum fara til fólks af þjóðunum en þeir til hinna umskornu. 10  Þeir báðu okkur aðeins um að minnast hinna fátæku og það hef ég líka lagt mig einlæglega fram um að gera. 11  En þegar Kefas* kom til Antíokkíu ávítaði* ég hann augliti til auglitis því að það sem hann gerði var augljóslega rangt.* 12  Áður en nokkrir menn komu frá Jakobi var hann vanur að borða með fólki af þjóðunum en þegar þeir komu hætti hann því og dró sig í hlé af ótta við þá sem aðhylltust umskurð. 13  Hinir Gyðingarnir fóru líka að hræsna með honum og jafnvel Barnabas lét leiðast út í hræsnina með þeim. 14  Þegar ég sá að þeir hegðuðu sér ekki í samræmi við sannleika fagnaðarboðskaparins sagði ég við Kefas* frammi fyrir þeim öllum: „Fyrst þú sem ert Gyðingur lifir eins og þjóðirnar en ekki eins og Gyðingar, hvernig geturðu þá neytt fólk af þjóðunum til að lifa eftir siðum Gyðinga?“ 15  Við sem erum fæddir Gyðingar og erum ekki syndarar af þjóðunum 16  vitum að maður er ekki lýstur réttlátur fyrir að fylgja lögunum heldur aðeins vegna trúar á Jesú Krist. Við trúum því á Krist Jesú svo að hægt sé að lýsa okkur réttláta vegna trúar á hann en ekki fyrir að fylgja lögunum því að enginn* verður lýstur réttlátur fyrir að fylgja þeim. 17  Ef við nú reynumst vera syndarar meðan við leitumst við að vera lýstir réttlátir vegna Krists, þjónar Kristur þá málstað syndarinnar? Engan veginn. 18  Ef ég fer að byggja upp aftur það sem ég eitt sinn reif niður geri ég sjálfan mig að lögbrjóti. 19  En með lögunum var ég leystur undan* lögunum svo að ég gæti lifað fyrir Guð. 20  Ég er staurfestur með Kristi. Það er ekki lengur ég sem lifi heldur lifir Kristur og hann er sameinaður mér. Lífinu sem ég lifi nú í þessum líkama* lifi ég í trú á son Guðs sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig. 21  Ég hafna ekki* einstakri góðvild Guðs því að ef réttlæting fæst með hjálp laganna hefur Kristur dáið til einskis.

Neðanmáls

Orðrétt „að ég hlypi ekki eða hefði ekki hlaupið“.
Orðrétt „eina stund“.
Einnig nefndur Pétur.
Eða „samstarf“.
Einnig nefndur Pétur.
Eða „andmælti“.
Eða „því að hann átti skilið að vera dæmdur“.
Einnig nefndur Pétur.
Orðrétt „ekkert hold“.
Orðrétt „dó ég gagnvart“.
Orðrétt „í holdinu“.
Eða „vísa ekki á bug“.