Bréfið til Galatamanna 3:1–29

  • Trú eða verk byggð á lögunum (1–14)

    • Hinn réttláti mun lifa vegna trúar (11)

  • Loforðið við Abraham ekki byggt á lögunum (15–18)

    • Afkomandi Abrahams er Kristur (16)

  • Uppruni og markmið laganna (19–25)

  • Börn Guðs vegna trúar (26–29)

    • Þeir sem tilheyra Kristi eru afkomendur Abrahams (29)

3  Óskynsömu Galatar! Hver hefur haft svona slæm áhrif á ykkur, þið sem hafið fengið skýra mynd af því hvernig Jesús Kristur var staurfestur?  Ég vil spyrja ykkur að einu:* Fenguð þið andann með því að fylgja lögunum eða með því að trúa því sem þið heyrðuð?  Eruð þið virkilega svona óskynsöm? Í byrjun fylgduð þið leiðsögn andans. Ætlið þið nú að enda á því að lifa á holdlegan hátt?*  Hafið þið þolað allar þessar þjáningar til einskis – ef það var þá til einskis?  Sá sem veitir ykkur andann og vinnur máttarverk meðal ykkar – gerir hann það af því að þið fylgið lögunum eða af því að þið trúið því sem þið heyrðuð?  Hugsið um Abraham, hann „trúði á Jehóva* og þess vegna var hann talinn réttlátur“.*  Þið vitið að þeir sem halda sig við trúna eru börn Abrahams.  Ritningin sá fyrir að Guð myndi lýsa fólk af þjóðunum réttlátt vegna trúar og boðaði því Abraham fyrir fram þennan fagnaðarboðskap: „Vegna þín munu allar þjóðir hljóta blessun.“  Þeir sem halda sig við trúna hljóta því blessun ásamt Abraham sem trúði. 10  Bölvun hvílir á öllum sem reiða sig á verk eins og lögin kveða á um því að skrifað stendur: „Bölvaður er hver sá sem heldur sig ekki við allt sem stendur í lögbókinni og fer ekki eftir því.“ 11  Það er líka augljóst að enginn er lýstur réttlátur frammi fyrir Guði með því að hlýða lögunum því að „hinn réttláti mun lifa vegna trúar“. 12  Lögin eru ekki byggð á trú heldur stendur: „Hver sem heldur lögin mun lifa vegna þeirra.“ 13  Kristur keypti okkur og leysti undan bölvun laganna með því að taka á sig bölvun í okkar stað en skrifað stendur: „Bölvaður er hver sá sem hangir á staur.“ 14  Þannig gat blessun Abrahams náð til þjóðanna fyrir milligöngu Krists Jesú og við gátum vegna trúar okkar fengið andann sem lofað var. 15  Bræður og systur, ég tek dæmi úr mannlegu lífi: Enginn ógildir sáttmála eða bætir við hann eftir að hann tekur gildi, jafnvel þótt aðeins maður hafi gert hann. 16  Nú voru loforðin gefin Abraham og afkomanda hans. Þar segir ekki „og afkomendum þínum“ eins og margir ættu í hlut heldur segir „og afkomanda þínum“ eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur. 17  Auk þess segi ég: Lögin, sem urðu til 430 árum síðar, ógilda ekki sáttmálann sem Guð hafði áður gert, þannig að loforðið falli úr gildi. 18  Ef arfurinn fæst vegna laga er hann ekki lengur byggður á loforði. En Guð hefur í góðvild sinni gefið Abraham arfinn með loforði. 19  Til hvers voru þá lögin? Þeim var bætt við til að afbrotin kæmu í ljós og þau áttu að gilda þar til afkomandinn kæmi sem loforðið hafði verið gefið. Englar miðluðu þeim fyrir atbeina milligöngumanns. 20  En það er enginn milligöngumaður þegar aðeins einn á í hlut, og Guð er aðeins einn. 21  Eru lögin þá í andstöðu við loforð Guðs? Engan veginn. Ef gefin hefðu verið lög sem gætu veitt líf fengist réttlæting vissulega með lögum. 22  En Ritningin hneppti allt undir vald syndarinnar til þess að loforðið um blessun, sem byggist á trú á Jesú Krist, yrði gefið þeim sem trúa. 23  Áður en trúin kom vorum við í gæslu laga. Við vorum í varðhaldi og væntum þess að trúin opinberaðist. 24  Þannig urðu lögin gæslumaður* okkar sem leiddi okkur til Krists svo að hægt væri að lýsa okkur réttlát vegna trúar. 25  En nú þegar trúin er komin erum við ekki lengur undir umsjá gæslumanns.* 26  Þið eruð reyndar öll börn Guðs vegna trúar ykkar á Krist Jesú 27  því að þið voruð öll skírð til Krists og hafið íklæðst Kristi. 28  Nú skiptir engu hvort maður er Gyðingur eða Grikki, þræll eða frjáls maður, karl eða kona. Þið eruð öll eitt, sameinuð Kristi Jesú. 29  Ef þið tilheyrið Kristi eruð þið auk þess afkomendur Abrahams, erfingjar samkvæmt loforði.

Neðanmáls

Orðrétt „Um þetta eitt vil ég fræðast af ykkur“.
Orðrétt „Eftir að hafa byrjað í andanum, ætlið þið að enda í holdinu?“
Sjá orðaskýringar.
Eða „og það var reiknað honum til réttlætis“.
Eða „uppalandi“.
Eða „uppalanda“.