Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Líf mitt versnaði stöðugt

Líf mitt versnaði stöðugt
  • FÆÐINGARÁR: 1952

  • FÖÐURLAND: BANDARÍKIN

  • FORSAGA: SKAPILLUR OFBELDISMAÐUR

FORTÍÐ MÍN:

Ég ólst upp í Los Angeles í Kaliforníu, í hverfum sem voru þekkt fyrir götugengi og eiturlyfjaneyslu. Við vorum sex systkini og ég var næstelstur.

Við ólumst upp við að sækja evangelíska kirkju með mömmu. En á unglingsárunum lifði ég tvöföldu lífi. Á sunnudögum söng ég í kirkjukórnum en aðra daga vikunnar snerist lífið um djamm, eiturlyf og kynlíf.

Ég var mjög skapstór og ofbeldisfullur og notaði hvaða vopn sem ég kom höndum yfir til að vinna slagsmál. Það sem ég lærði í kirkjunni hjálpaði ekki til. Ég sagði stundum: „Guðs er hefndin – og ég er verkfæri hans.“ Þegar ég var í framhaldsskóla upp undir 1970 var ég undir miklum áhrifum af Svörtu hlébörðunum, herskáum stjórnmálaflokki sem barðist fyrir borgaralegum réttindum. Ég gekk í nemendafélag sem hafði sömu hugsjón. Við stóðum fyrir mótmælum í nokkur skipti og í hvert sinn þurfti að loka skólanum tímabundið.

En mótmælin virtust ekki duga til að svala ofbeldisþorstanum. Ég fór að fremja hatursglæpi. Við vinirnir áttum það til að fara á myndir í bíó sem sýndu illa meðferð á afrískum þrælum í Bandaríkjunum. Óréttlætið vakti hjá okkur svo mikla reiði að við réðumst á hvít ungmenni sem voru í bíósalnum. Síðan fórum við að leita að fleirum til að lumbra á í hverfum hvítra.

Við bræðurnir komumst í kast við lögin og vorum orðnir harðsvíraðir glæpamenn fyrir tvítugt. Yngri bróðir minn var í alræmdu glæpagengi og ég fór að hanga með þeim. Líf mitt versnaði stöðugt.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Foreldrar vinar míns voru vottar Jehóva. Þeir buðu mér á samkomu og ég þáði boðið. Ég sá strax að vottarnir voru öðruvísi. Allir voru með biblíu og notuðu hana á samkomunni. Meira að segja unga fólkið hélt ræður. Það hafði mikil áhrif á mig að komast að því að Guð ætti sér nafn, Jehóva, og að heyra fólk nota það. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls) Í söfnuðinum var fólk af hinu og þessu þjóðerni en það var greinilegt að það skiptist ekki í hópa eftir kynþætti.

Í byrjun vildi ég ekki þiggja biblíunámskeið hjá vottunum en mér fannst samt gaman að fara á samkomur. Eitt kvöldið, þegar ég var á samkomu, fóru nokkrir af vinum mínum á tónleika. Þeir reyndu að ræna leðurjakka af einum unglingi en þegar hann neitaði að gefa þeim hann lömdu þeir hann til bana. Daginn eftir montuðu þeir sig af morðinu. Þeir hlógu jafnvel að þessu í réttarhöldunum. Flestir voru dæmdir í lífstíðarfangelsi. Ég þarf varla að taka það fram að ég var mjög feginn að hafa ekki verið með þeim þetta kvöld. Ég ákvað að snúa við blaðinu og kynna mér Biblíuna.

Ég hafði verið umkringdur kynþáttafordómum. Það sem ég sá hjá vottum Jehóva kom mér þess vegna mjög á óvart. Til dæmis lét hvítur vottur svarta fjölskyldu passa börnin þegar hann þurfti að ferðast til útlanda. Ég varð líka vitni að því að hvít fjölskylda tók að sér svartan ungling sem hafði engan stað til að búa á. Ég varð sannfærður um að það sem Jesús sagði í Jóhannesi 13:35 ætti við votta Jehóva: „Allir munu vita að þið eruð lærisveinar mínir ef þið berið kærleika hver til annars.“ Ég vissi að ég hafði fundið ósvikið bræðralag.

Ég skildi af biblíunámi mínu að ég þurfti að gera breytingar. Ég þurfti að „endurnýja hugarfarið“ til að koma ekki bara vingjarnlega fram við aðra heldur sjá að þetta er besta lífsstefnan. (Rómverjabréfið 12:2) Smám saman tók ég framförum. Í janúar 1974 skírðist ég sem vottur Jehóva.

Ég þurfti að „endurnýja hugarfarið“ til að koma ekki bara vingjarnlega fram við aðra heldur sjá að þetta er besta lífsstefnan.

Ég þurfti samt að halda áfram að vinna í skapinu eftir að ég var skírður. Einu sinni þegar ég var að boða trúna hús úr húsi var útvarpinu stolið úr bílnum mínum. Ég hljóp á eftir þjófnum og var næstum búinn að ná honum þegar hann henti útvarpinu frá sér og komst undan. Þegar ég sagði hinum í hópnum frá þessu spurði öldungur mig: „Stephen, hvað hefðirðu gert ef þú hefðir náð honum?“ Þessi spurning vakti mig til umhugsunar og hvatti mig til að leggja mig meira fram um að vera friðsamur.

Í október 1974 gerði ég boðunina að mínu aðalstarfi og fór að nota 100 tíma á mánuði til að fræða aðra um Biblíuna. Seinna fékk ég að starfa sem sjálfboðaliði við aðalstöðvar Votta Jehóva í Brooklyn í New York. Árið 1978 flutti ég aftur til Los Angeles til að hugsa um móður mína sem var orðin veik. Tveim árum seinna giftist ég Aarhondu, yndislegri konunni minni. Það var ómetanlegt að hafa hana mér við hlið þegar við önnuðumst mömmu þar til hún dó. Seinna meir sóttum við hjónin Biblíuskólann Gíleað. Eftir það vorum við send til Panama og þar erum við trúboðar enn í dag.

Frá því að ég skírðist hef ég nokkrum sinnum lent í eldfimum aðstæðum. Ég hef lært að ganga burt ef einhver ögrar mér eða draga úr spennunni á annan hátt. Margir hafa hrósað mér fyrir að bregðast vel við í slíkum aðstæðum, þar á meðal konan mín. Stundum hef ég jafnvel komið sjálfum mér á óvart! Ég eigna mér ekki heiðurinn af þessum breytingum í lífi mínu. Fyrir mér eru þær sönnun þess að Biblían hefur mátt til að breyta fólki. – Hebreabréfið 4:12.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Biblían hefur gefið mér tilgang í lífinu og kennt mér að elska friðinn. Ég er hættur að berja fólk. Í staðinn hjálpa ég því að kynnast Guði. Ég aðstoðaði meira að segja gamlan óvin úr framhaldsskóla við biblíunám. Eftir að hann skírðist leigðum við saman íbúð um tíma. Við erum enn þá góðir vinir. Meira en áttatíu af biblíunemendum okkar hjónanna hafa orðið vottar Jehóva.

Ég er Jehóva ólýsanlega þakklátur fyrir að hafa gefið mér innihaldsríkt og ánægjulegt líf og ósvikið bræðralag.