Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Þau svöruðu öllum spurningum mínum með hjálp Biblíunnar

Þau svöruðu öllum spurningum mínum með hjálp Biblíunnar
  • FÆÐINGARÁR: 1950

  • FÖÐURLAND: SPÁNN

  • FORSAGA: KAÞÓLSK NUNNA

FORTÍÐ MÍN:

Þegar ég fæddist áttu foreldrar mínir lítinn sveitabæ í þorpi í Galisíu á Norðvestur-Spáni. Ég var fjórða í röðinni af átta börnum og heimilislífið einkenndist af ást og umhyggju. Í þá daga var algengt að minnst eitt barnanna gengi í prestaskóla eða klaustur. Í fjölskyldunni okkar vorum við þrjú sem fetuðum þá braut.

Þrettán ára var ég send í nunnuklaustur í Madríd þar sem systir mín var fyrir. Klaustrið var ónotalegur staður. Þar var ekkert til sem hét vinátta – aðeins reglur, bænir og meinlæti. Snemma á morgnana söfnuðumst við saman í kapellunni til að hugleiða. Reyndar var hugurinn oft tómur. Eftir það sungum við helgisöngva og héldum messu, hvort tveggja á latínu. Ég skildi nánast ekkert og mér fannst Guð vera fjarlægur. Í klaustrinu átti að ríkja þögn. Jafnvel þegar ég hitti systur mína máttum við fátt annað segja en: „Heil sért þú, María, full náðar.“ Nunnurnar leyfðu okkur bara að tala saman í hálftíma eftir mat. Það var gerólíkt hamingjuríku fjölskyldulífinu heima. Mér fannst ég einangruð og ég grét oft.

Þó að mér fyndist ég aldrei náin Guði vann ég heitin mín og gerðist nunna 17 ára gömul. Í rauninni gerði ég bara það sem til var ætlast af mér en fljótlega fór ég að efast um að ég hefði trúarlega köllun. Nunnurnar sögðu að þær sem hefðu slíkar efasemdir myndu brenna í helvíti. En efinn var enn til staðar. Ég vissi að Jesús einangraði sig ekki. Þvert á móti lagði hann hart að sér við að kenna og hjálpa fólki. (Matteus 4:23–25) Þegar ég var orðin tvítug sá ég enga góða ástæðu til að halda áfram að vera nunna. Mér til mikillar undrunar sagði abbadísin dag einn að ef ég hefði efasemdir væri best að ég yfirgæfi klaustrið sem allra fyrst. Kannski óttaðist hún að ég hefði slæm áhrif á hinar stúlkurnar. Ég yfirgaf því klaustrið.

Mamma og pabbi sýndu mér mikinn skilning þegar ég kom aftur heim. En í þorpinu var enga vinnu að fá, þannig að ég flutti til Þýskalands þar sem bróðir minn bjó. Hann var í kommúnistahreyfingu ásamt öðrum Spánverjum. Þetta var fólk sem barðist fyrir réttindum verkamanna og kvenna og mér leið vel í félagsskap þeirra. Ég gerðist því kommúnisti og síðar meir giftist ég einum flokksbræðra minna. Ég dreifði ritum kommúnista og tók þátt í mótmælagöngum. Mér fannst ég koma að gagni.

En svo kom að því að ég varð aftur fyrir vonbrigðum. Ég tók eftir að kommúnistarnir lifðu oft ekki í samræmi við það sem þeir börðust fyrir. Árið 1971 var mér gróflega misboðið þegar nokkur ung flokkssystkini kveiktu í spænsku ræðisskrifstofunni í Frankfurt. Þannig vildu þau mótmæla óréttlæti einræðisstjórnarinnar á Spáni. Mér fannst þetta ekki rétta leiðin til að koma skoðunum sínum á framfæri.

Þegar fyrsta barnið mitt kom í heiminn sagði ég manninum mínum að ég ætlaði að hætta að sækja fundi kommúnista. Ég var mjög einmana af því að enginn af fyrrverandi vinum mínum heimsótti mig og barnið. Ég fór að velta fyrir mér hver tilgangur lífsins væri. Var það erfiðisins virði að berjast fyrir betra samfélagi?

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Árið 1976 bönkuðu vottar Jehóva á dyrnar hjá okkur. Þetta voru hjón frá Spáni og þau buðu mér biblíulesefni sem ég þáði. Næst þegar þau komu í heimsókn lét ég spurningarnar rigna yfir þau. Ég spurði þau út í þjáningar, jafnrétti og óréttlæti. Það kom mér á óvart að þau svöruðu öllum spurningum mínum með hjálp Biblíunnar. Ég þáði biblíunámskeið með þökkum.

Í fyrstu var áhugi minn aðeins af fræðilegum toga. En það breyttist þegar við hjónin fórum að sækja samkomur í ríkissal Votta Jehóva. Á þeim tíma voru börnin orðin tvö. Vottarnir voru svo indælir að sækja okkur og hjálpa til með börnin meðan á samkomunum stóð. Mér fór að þykja mjög vænt um votta Jehóva.

Ég hafði samt enn vissar efasemdir um trúmál. Ég ákvað að heimsækja fjölskylduna á Spáni. Föðurbróðir minn, sem var prestur, reyndi að fá mig til að hætta að kynna mér Biblíuna. En vottarnir á svæðinu hjálpuðu mér mikið. Þeir svöruðu spurningum mínum með hjálp Biblíunnar, alveg eins og vottarnir í Þýskalandi. Ég ákvað að halda áfram að kynna mér Biblíuna þegar ég kæmi aftur til Þýskalands. Maðurinn minn vildi ekki halda áfram á biblíunámskeiðinu en ég var harðákveðin. Ég skírðist sem vottur Jehóva árið 1978.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Nákvæm þekking á sannleika Biblíunnar hefur gefið mér skýran tilgang og stefnu í lífinu. Í 1. Pétursbréfi 3:1–4 eru eiginkonur til dæmis hvattar til að „vera undirgefnar“ eiginmönnum sínum, bera „djúpa virðingu“ fyrir þeim og tileinka sér hógværð sem er „mikils virði í augum Guðs“. Lífsreglur sem þessar hafa hjálpað mér að verða betri eiginkona og móðir.

Nú eru liðin 35 ár síðan ég varð vottur Jehóva. Ég er svo ánægð að geta að þjónað Guði með andlegri fjölskyldu minni og líka fjórum af fimm börnum mínum.