Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Bardagalistir áttu hug minn allan“

„Bardagalistir áttu hug minn allan“
  • Fæðingarár: 1962

  • Föðurland: Bandaríkin

  • Forsaga: Líf helgað bardagalistum

FORTÍÐ MÍN

 Ég hafði valdið æfingafélaga mínum miklu alvarlegri meiðslum en ég átti von á þegar ég sparkaði hann óvart í nefið. Ég fann til sektarkenndar og fór að hugleiða hvort það væri þess virði að halda áfram að stunda bardagalistir. Hvers vegna urðu þessi mistök til þess að ég fór hafa efasemdir um íþrótt sem ég hafði stundað af slíkri ástríðu um árabil? Fyrst ætla ég að segja frá því hvernig það kom til að ég fékk áhuga á bardagalistum.

 Ég ólst upp nálægt Buffalo í New York-fylki í Bandaríkjunum, fjölskylda mín var friðsöm og við vorum einlægir kaþólikkar. Ég sótti kaþólska skóla og var kórdrengur. Foreldrar mínir voru metnaðarfullir fyrir hönd mína og systur minnar. Þess vegna leyfðu þau mér að taka þátt í íþróttum eftir skóla eða vinna hlutastarf svo framarlega sem ég fengi góðar einkunnir. Þetta ýtti undir það að ég þroskaði með mér sjálfstjórn frá unga aldri.

 Ég var 17 ára þegar ég byrjaði að stunda bardagalistir. Árum saman varði ég þrem klukkutímum á dag í æfingar, sex daga vikunnar. Ég notaði líka marga klukkutíma á viku í að æfa hreyfingar og tækni í huganum og horfa á myndbönd sem gætu hjálpað mér að ná betri árangri. Ég naut þess að æfa með bundið fyrir augun, meira að segja með vopn í hendi. Ég gat brotið þykkar spýtur og múrsteina berhentur, með einu höggi. Ég náði frama í greininni og vann til margra titla. Líf mitt snerist um bardagalistir.

 Ég hafði náð því sem ég taldi vera farsæt líf. Ég útskrifaðist úr háskóla með hæstu einkunn. Ég var hugbúnaðarverkfræðingur hjá virtu fyrirtæki og naut alls kyns kaupauka. Ég átti hús og kærustu. Á yfirborðinu virtist líf mitt frábært en flóknar spurningar um lífið og tilveruna leituðu á mig.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Ég byrjaði að sækja kirkju tvisvar í viku og biðja til Guðs um hjálp, í von um að finna svör við spurningum mínum. En dag nokkur breytti samtal við vin minn lífi mínu. Ég spurði hann: „Hefurðu einhvern tíma pælt í því hvers vegna við erum hér? Það er svo mikið af vandamálum og óréttlæti.“ Hann sagðist hafa velt sömu spurningunum fyrir sér og fengið mjög greinargóð svör í Biblíunni. Hann gaf mér bók sem heitir: Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. a Hann sagðist hafa verið að skoða Biblíuna með vottum Jehóva. Í fyrstu hikaði ég og hugsaði með mér að ég ætti ekki að lesa rit sem ekki kæmu frá mínu trúfélagi. En löngunin til að fá svör við spurningum mínum varð tortryggninni yfirsterkari, svo ég ákvað að athuga hvort það væri vit í því sem vottarnir kenndu.

 Ég varð furðu lostinn þegar ég komst að því sem Biblían kennir í raun. Ég komst að því að upprunalegur tilgangur Guðs með mennina var að lifa að eilífu í paradís á jörð og að tilgangur hans hafði ekki breyst. (1. Mósebók 1:28) Ég varð undrandi að sjá Jehóva, nafn Guðs, í minni eigin biblíu, King James-biblíunni, og komst að raun um að þetta væri nafnið sem ég hafði nefnt þegar ég fór með faðirvorið. (Sálmur 83:18; Matteus 6:9) Loksins skildi ég hvers vegna Guð leyfði þjáningar tímabundið. Allt sem ég lærði var svo rökrétt. Það heillaði mig.

 Ég mun aldrei gleyma því hvernig mér leið þegar ég byrjaði að koma á samkomur hjá Vottum Jehóva. Allir voru svo vingjarnlegir og vildu vita hvað ég héti. Á fyrstu samkomunni sem ég mætti á var fluttur sérstakur opinber fyrirlestur um bænir sem Guð heyrir. Ég hafði áhuga á þessu stefi vegna þess að ég hafði verið að biðja Guð um hjálp. Næst mætti ég á minningarhátíðina um dauða Jesú. Það kom mér mjög á óvart að sjá jafnvel börn fylgjast með í Biblíunni þegar ritningarstaðir voru lesnir upp. Í fyrstu kunni ég ekki að finna ritningarstaði, en vottarnir voru mjög hjálplegir og kenndu mér að nota Biblíuna.

 Eftir því sem ég sótti fleiri samkomur kunni ég betur að meta gæðin í kennslu vottanna. Ég lærði heilmikið á hverri einustu samkomu og fann hvernig þær uppörvuðu mig og endurnærðu. Síðan var mér boðið biblíunámskeið.

 Það sem ég sá hjá vottunum var gjörólíkt því sem ég hafði vanist í minni kirkju. Ég sá að vottarnir voru sameinaðir og einlægir í viðleitni sinni að gera sitt besta til að vera Guði þóknanlegir. Ég sannfærðist meir og meir um að þeir bæru merkið sem átti að einkenna sannkristna menn, sem er að bera kærleika hver til annars. – Jóhannes 13:35.

 Því meira sem ég kynnti mér Biblíuna því fleiri breytingar gerði ég til að lifa eftir mælikvarða hennar. En mér fannst ég aldrei geta lagt bardagalistir á hilluna. Ég hreinlega elskaði æfingarnar og keppnina. Þegar ég sagði vottinum sem var að kenna mér Biblíuna frá þessu hughreysti hann mig hlýlega og sagði: „Haltu bara áfram að kynna þér Biblíuna og ég veit að þú átt eftir að taka rétt ákvörðun.“ Þetta var einmitt það sem ég þurfti að heyra. Eftir því sem námi mínu miðaði áfram langaði mig meira til að gleðja Jehóva Guð.

 Atvikið sem ég sagði frá í upphafi, þegar ég sparkaði í nefið á bardagafélaga mínum, varð vendipunktur í lífi mínu. Þetta slys fékk mig til að hugleiða það alvarlega hvort ég gæti orðið friðsamur fylgjandi Krists ef ég héldi áfram að stunda bardagalistir. Ég hafði fræðst um spádóminn í Jesaja 2:3, 4 sem sagði fyrir að þeir sem fylgdu fyrirmælum Jehóva myndu ekki „læra hernað framar“. Og Jesús kenndi fólki að grípa ekki til ofbeldis, jafnvel þegar það væri órétti beitt. (Matteus 26:52) Ég sagði því skilið við íþróttina sem var mér svo kær.

 Eftir þetta fylgdi ég ráði Biblíunnar að æfa mig ‚markvisst í að vera guðrækinn‘. (1. Tímóteusarbréf 4:7) Núna gat ég varið öllum tímanum og fyrirhöfninni sem hafði áður farið í bardagalistir í að sinna andlegu dagskránni. Kærastan mín var ekki sátt við það sem ég var að læra frá Biblíunni svo að við hættum saman. Þann 24. janúar 1987 lét ég skírast sem vottur Jehóva. Fljótlega eftir það byrjaði ég að þjóna í fullu starfi sem sjálfboðaliði við að kenna öðrum Biblíuna. Síðan þá hef ég þjónað í fullu starfi og um tíma við aðalstöðvar Votta Jehóva í New York í Bandaríkjunum.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Síðan ég kynntist sannleikanum um Guð hef ég komist að því hvað vantaði í líf mitt. Ég finn ekki lengur til tómleika. Ég lifi tilgangsríku lífi og hef raunverulega framtíðarvon. Núna er ég í sannleika hamingjusamur. Ég hef enn þá gaman af að æfa mig en líkamleg æfing hefur ekki lengur forgang í lífi mínu. Það mikilvægasta er að þjóna Jehóva Guði.

 Þegar ég stundaði bardagalistir var ég stöðugt á varðbergi gagnvart fólkinu í kringum mig og var alltaf að hugsa um hvernig ég gæti varið mig ef einhver réðist á mig. Ég er enn þá vakandi gagnvart fólki í kringum mig en af annarri ástæðu, mig langar að koma því til hjálpar. Biblían hefur hjálpað mér að verða örlát manneskja og betri eiginmaður minnar fallegu konu, Brendu.

 Bardagalistir voru ástríðan í lífi mínu. En ég hef fundið það sem er miklu betra. Biblían orðar það best: „Líkamleg æfing er gagnleg að vissu marki en guðræknin er gagnleg á allan hátt því að hún gefur loforð bæði fyrir þetta líf og lífið sem er fram undan.“ – 1. Tímóteusarbréf 4:8.

a Gefin út af vottum Jehóva en ófáanleg í dag.