Hoppa beint í efnið

Ber kristnum mönnum að halda hvíldardag?

Ber kristnum mönnum að halda hvíldardag?

Svar Biblíunnar

 Kristnum mönnum ber ekki að halda vikulegan hvíldardag. Kristnir menn eru undir ‚lögum Krists‘ og í þeim eru engin ákvæði um að halda hvíldardaginn. (Galatabréfið 6:2; Kólossubréfið 2:16, 17) Hvernig getum við verið viss um að svo sé? Byrjum á því að skoða uppruna hvíldardagsins.

Hvað er hvíldardagurinn?

 Orðið „sabbat“ er leitt af hebreskri sögn sem merkir að hvílast eða að hætta. Orðið kemur fyrst fyrir í Biblíunni í boðorðunum sem voru fengin Ísraelsþjóðinni. (2. Mósebók 16:23) Til dæmis segir hið fjórða af boðorðunum tíu: „Mundu eftir hvíldardeginum og haltu hann heilagan. Þú átt að vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Jehóva Guði þínum. Þá máttu ekkert vinna.“ (2. Mósebók 20:8–10) Hvíldardagurinn stóð frá sólsetri á föstudegi til sólseturs á laugardegi. Meðan á honum stóð máttu Ísraelsmenn ekki yfirgefa staðinn sem þeir voru á, kveikja eld, safna eldiviði né bera byrði. (2. Mósebók 16:29; 35:3; 4. Mósebók 15:32–36; Jeremía 17:21) Brot á hvíldardagsboðinu varðaði lífláti. – 2. Mósebók 31:15.

 Aðrir dagar í almanaki Gyðinga voru kallaðir hvíldardagar og eins voru líka 7. og 50. árið kölluð hvíldarár. Á hvíldarári átti ekki að yrkja landið og bannað var að þrýsta á samborgara sína um endurgreiðslu skulda. – 3. Mósebók 16:29–31; 23:6, 7, 32; 25:4, 11–14; 5. Mósebók 15:1–3.

Fórn Jesú batt enda á hvíldardagslögin.

Hvers vegna eiga hvíldardagsboðin ekki við kristna menn?

 Hvíldardagsboðin áttu eingöngu við fólkið sem var undir Móselögunum í heild sinni. (5. Mósebók 5:2, 3; Esekíel 20:10–12) Guð gerði aldrei þá kröfu að aðrir héldu hvíldardagsboðið. Auk þess voru Gyðingar ‚leystir undan lögunum‘, þar með töldum boðorðunum tíu, með lausnargjaldi Jesú Krists. (Rómverjabréfið 7:6, 7; 10:4; Galatabréfið 3:24, 25; Efesusbréfið 2:15) Í stað þess að halda fast við Móselögin fylgja kristnir menn hinu æðra boðorði kærleikans. – Rómverjabréfið 13:9, 10; Hebreabréfið 8:13.

Ranghugmyndir um hvíldardaginn

 Ranghugmynd: Guð kom á fót hvíldardeginum þegar hann hvíldist sjöunda daginn.

 Staðreynd: Biblían segir: „Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört.“ (1. Mósebók 2:3, Biblían 1981) Þetta vers felur ekki í sér lög sem eru ætluð mönnum, heldur er þetta staðhæfing um það sem Guð gerði á sjöunda sköpunardeginum. Biblían nefnir ekkert tilvik þar sem fólk hélt hvíldardag fyrr en á dögum Móse.

 Ranghugmynd: Ísraelsmenn héldu hvíldardagsboðið áður en þeir fengu Móselögin.

 Staðreynd: Móse sagði Ísraelsmönnum: „Jehóva Guð okkar gerði sáttmála við okkur hjá Hóreb.“ Það er svæðið í kringum Sínaífjall. Hvíldardagsboðið var hluti þessa sáttmála. (5. Mósebók 5:2, 12) Reynsla Ísraelsmanna af hvíldardeginum sýnir að þetta var þeim nýlunda. Hvernig gat Guð sagt að hvíldardagsboðið ætti að minna þá á frelsunina úr Egyptalandi ef þeir héldu þegar einhvers konar hvíldardag fyrir þann tíma? (5. Mósebók 5:15) Hvers vegna þurfti að segja þeim að safna ekki manna á sjöunda deginum? (2. Mósebók 16:25–30) Og hvers vegna vissu þeir ekki hvernig þeir áttu að taka á málum í fyrstu frásögunni sem segir frá broti á hvíldardagsboðinu? – 4. Mósebók 15:32–36.

 Ranghugmynd: Hvíldardagsboðið er varanlegur sáttmáli og er þess vegna enn í gildi.

 Staðreynd: Biblían talar um hvíldardaginn sem „ævarandi“ sáttmála. (2. Mósebók 31:16) Hebreska orðið sem er þýtt „ævarandi“ getur líka þýtt eitthvað sem stendur um „ótiltekinn tíma“ ekki endilega að eilífu. Biblían notar sama orðið þegar hún talar um prestdóm Ísraelsmanna, en Guð batt enda á hann fyrir um það bil 2.000 árum. – 2. Mósebók 40:15; Hebreabréfið 7:11, 12.

 Ranghugmynd: Kristnir menn verða að halda hvíldardaginn af því að Jesús hélt hann.

 Staðreynd: Jesús hélt hvíldardaginn af því að hann var Gyðingur og var undir Móselögunum frá fæðingu. (Galatabréfið 4:4) Eftir dauða Jesú var lagasáttmálinn numinn úr gildi, þar með talið hvíldardagsboðið. – Kólossubréfið 2:13, 14.

 Ranghugmynd: Páll postuli var kristinn maður en hélt samt hvíldardaginn.

 Staðreynd: Páll fór inn í samkunduhús á hvíldardegi en ekki til að taka þátt í athöfnum Gyðinga. (Postulasagan 13:14; 17:1–3; 18:4) En hann fylgdi hefð síns tíma og boðaði fagnaðarboðskapinn í samkunduhúsum vegna þess að gestaræðumenn gátu ávarpað þá sem voru þar saman komnir til tilbeiðslu. (Postulasagan 13:15, 32) Páll boðaði „daglega“, ekki bara á hvíldardegi. – Postulasagan 17:17.

 Ranghugmynd: Hvíldardagur kristinna manna er sunnudagur.

 Staðreynd: Hvergi í Biblíunni er að finna boð til kristinna manna um að helga fyrsta dag vikunnar, það er sunnudaginn, hvíld og tilbeiðslu. Hjá frumkristnum var sunnudagur vinnudagur eins og hver annar dagur vikunnar. Biblíuorðabók (The International Standard Bible Encyclopedia) segir: „Það var ekki fyrir en á 4. öld að sunnudagur fór að taka á sig mynd hvíldardags, þegar [hinn heiðni rómverski keisari] Konstantínus ávað að sérstök störf ættu ekki að vera unnin á sunnudegi.“ a

 Hvað má þá segja um vers sem virðast gefa í skyn að sunnudagur hafi verið sérstakur? Biblían segir að Páll hafi borðað með trúsystkinum sínum á ‚fyrsta degi vinunnar‘. Það var ósköp eðlilegt að hann gerði það því hann var á förum daginn eftir. (Postulasagan 20:7) Eins var sumum söfnuðum sagt að leggja eitthvað fyrir „fyrsta dag hverrar viku“, á sunnudegi, fyrir hjálparstarf. En þetta voru aðeins hagnýt ráð til að hafa skipulag á sparnaðinum. Framlögin voru geymd í heimahúsum en ekki farið með þau á samkomustaðinn. – 1. Korintubréf 16:1, 2.

 Ranghugmynd: Það er rangt að taka frá ákveðinn dag í hverri viku til að hvílast og sinna tilbeiðslunni.

 Staðreynd: Biblían lætur kristnum mönnum eftir að áveða slíkt á einstaklingsgrundvelli. – Rómverjabréfið 14:5.

a Sjá einnig New Catholic Encyclopedia, aðra útgáfu, 13. bindi, blaðsíðu 608.