Hoppa beint í efnið

Hvernig get ég tekið góðar ákvarðanir?

Hvernig get ég tekið góðar ákvarðanir?

Hvað segir Biblían?

 Biblían gefur frábærar leiðbeiningar varðandi ákvarðanir. Hún getur hjálpað okkur að ‚afla okkur visku og skilnings‘. (Orðskviðirnir 4:5) Stundum segir hún skýrt og skorinort hvað er rétt og rangt en oftar en ekki gefur hún ráð sem hjálpa okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir.

Í þessari grein

 Ráð sem hjálpa okkur að taka góðar ákvarðanir

  •   Taktu ekki ákvörðun í flýti. Í Biblíunni stendur: „Skynsamur maður íhugar hvert skref.“ (Orðskviðirnir 14:15) Ef þú tekur ákvörðun í flýti gætu þér yfirsést mikilvægar upplýsingar. Taktu þér nægan tíma til að íhuga vandlega þá valmöguleika sem standa þér til boða. – 1. Þessaloníkubréf 5:21.

  •   Byggðu ákvarðanir þínar ekki á tilfinningunni einni saman. Biblían varar við því að treysta alltaf hjartanu. (Orðskviðirnir 28:26, neðanmáls; Jeremía 17:9) Segjum til dæmis að við séum reið, niðurdregin, lítil í okkur, óþolinmóð eða úrvinda af þreytu. Á slíkum stundum er ólíklegt að við tökum góðar ákvarðanir. – Orðskviðirnir 24:10; 29:22.

  •   Biddu um visku. (Jakobsbréfið 1:5) Guð svarar slíkum bænum með ánægju. Hann er umhyggjusamur faðir sem vill að börnin sín sneiði hjá óþarfa vandamálum. „Jehóva veitir visku, af munni hans kemur þekking og hyggindi.“ a (Orðskviðirnir 2:6) Þessi viska birtist einkum og sér í lagi í orði hans, Biblíunni. – 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

  •   Leitaðu upplýsinga. Góðar ákvarðanir byggjast á áreiðanlegum upplýsingum. Biblían segir: „Sá sem er vitur hlustar og eykur þekkingu sína.“ (Orðskviðirnir 1:5) Hvar geturðu fundið slíkar upplýsingar?

     Í fyrsta lagi geturðu skoðað hvað Biblían sjálf segir um málið. Þar sem Guð er skapari okkar veit hann hvað er best fyrir okkur og í orði sínu hefur hann gefið okkur ráð sem við getum treyst. (Sálmur 25:12) Um sum mál hefur Biblían að geyma lög eða fyrirmæli sem við getum stuðst við. (Jesaja 48:17, 18) En í mörgum málum segir Biblían okkur ekki hvað við eigum að gera heldur gefur okkur meginreglur sem við getum haft að leiðarljósi. Þær geta hjálpað okkur að taka góðar ákvarðanir en á sama tíma gefið svigrúm fyrir persónubundið val. Til að finna upplýsingar í Biblíunni sem henta þér og þínum aðstæðum geturðu leitað í biblíutengdum greinum og ritum á þessari vefsíðu. b

     Stundum geturðu þurft að leita upplýsinga annars staðar, til dæmis áður en þú festir kaup á einhverju, sérstaklega ef það er mikil fjárfesting. Þá væri viturlegt að kynna sér vöruna og framleiðandann vel, þar á meðal reglur varðandi ábyrgð og skilarétt og að sjálfsögðu ættirðu að ganga úr skugga um að varan henti þér og þínum þörfum.

     „Áformin bregðast séu málin ekki rædd,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 15:22) Áður en þú tekur ákvörðun skaltu því ráðfæra þig við einhvern sem þú getur treyst. Þegar heilsan á í hlut væri til dæmis gáfulegt að ráðfæra sig við lækni. (Matteus 9:12) Stundum gæti verið gott að tala við fólk sem hefur glímt við sams konar vandamál og þú. En mundu að þú þarft sjálfur að taka ákvörðun og bera ábyrgð á afleiðingum hennar. – Galatabréfið 6:4, 5.

  •   Að vega og meta möguleikana. Þegar þú ert búinn að viða að þér upplýsingum geturðu gert lista yfir möguleikana sem eru í stöðunni, svo og kosti og galla hvers þeirra. Íhugaðu líka hvaða afleiðingar ákvörðun þín getur haft á þig, fjölskyldu þína og aðra. (5. Mósebók 32:29; Orðskviðirnir 22:3; Rómverjabréfið 14:19) Ef þú gerir það með meginreglur Biblíunnar að leiðarljósi eru allar líkur á að þú takir góða og kærleiksríka ákvörðun.

  •   Taktu ákvörðun. Stundum erum við óviss og því treg til að taka ákvörðun. En ef við erum óákveðin gætum við misst af góðu tækifæri eða verið í vondum málum. Með öðrum orðum gæti verið jafn óskynsamlegt að hika eins og að taka slæma ákvörðun. Biblían tekur líkingu af akuryrkju og segir: „Sá sem fylgist með vindinum sáir ekki og sá sem horfir á skýin uppsker ekki.“ – Prédikarinn 11:4.

 Gott er að muna að jafnvel bestu ákvarðanir eru ekki endilega fullkomnar. Þegar við ákveðum eitthvað er það oft á kostnað einhvers annars. Óvæntir atburðir geta auk þess sett strik í reikninginn. (Prédikarinn 11:4) Notaðu því upplýsingarnar sem eru fyrir hendi og veldu síðan þá leið sem er vænlegust til árangurs.

 Ætti ég að skipta um skoðun?

 Ákvarðanir eru ekki alltaf endanlegar. Aðstæður þínar geta breyst eða þú kemst að raun um að ákvörðun þín hefur vissa vankanta sem þér yfirsást. Þá gæti verið skynsamlegast að endurmeta stöðuna og velja aðra leið sem er vænlegri til árangurs.

 Sumar ákvarðanir eru hins vegar þess eðlis að ekki ætti að hringla með þær. (Sálmur 15:4) Til dæmis ætlast Guð til þess að hjón haldi hjúskaparheit sín. c (Malakí 2:16; Matteus 19:6) Þegar vandamál koma upp í hjónabandinu ættu þau að gera sitt ítrasta til að leysa þau en ekki hlaupa frá þeim.

 Hvað ef ég hef tekið slæma ákvörðun sem verður ekki breytt?

 Við tökum öll slæmar ákvarðanir endrum og eins sem fylla okkur jafnvel eftirsjá og sektarkennd. (Jakobsbréfið 3:2, neðanmáls; Sálmur 69:5) Það er eðlilegt að líða þannig og það getur komið í veg fyrir að við gerum sömu mistökin aftur. (Orðskviðirnir 14:9) En Biblían varar við óhóflegri sektarkennd því að hún getur skaðað okkur andlega og tilfinningalega. (2. Korintubréf 2:7) d „Jehóva er miskunnsamur og samúðarfullur,“ segir Biblían. (Sálmur 103:8–13) Þegar maður tekur slæma ákvörðun sem verður ekki breytt ætti maður að reyna að læra af henni og gera það besta mögulega úr aðstæðum.

a Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar. – Sálmur 83:18.

b Þú getur einnig leitað á jw.org með því að slá inn orð eða setningu sem tengist því máli sem þú ert að glíma við. Á þessari vefsíðu er að finna ráð Biblíunnar um ýmis málefni.

c Guð vill að hjón séu saman ævilangt. Kynferðislegt siðleysi er eina leyfilega ástæðan til að binda enda á hjónabandið og giftast aftur. (Matteus 19:9) Ef þú átt í hjónabandserfiðleikum getur Biblían hjálpað þér að ráða fram úr þeim á kærleiksríkan og skynsamlegan hátt.