Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um samkynhneigð?

Hvað segir Biblían um samkynhneigð?

Svar Biblíunnar

 Þegar Guð skapaði mennina ætlaði hann þeim einungis að stunda kynlíf innan vébanda hjónabands karls og konu. (1. Mósebók 1:27, 28; 3. Mósebók 18:22; Orðskviðirnir 5:18, 19) Biblían fordæmir allt kynlíf sem er ekki milli eiginmanns og eiginkonu. (1. Korintubréf 6:18) Þetta á við hvort sem um er að ræða athafnir samkynhneigðra eða gagnkynhneigðra, svo sem kynmök, fitl við kynfæri annarrar manneskju eða athafnir eins munn- og endaþarmsmök.

 Enda þótt Biblían sé á móti kynlífi samkynhneigðra samþykkir hún ekki hatur á samkynhneigðu fólki. Kristið fólk á að ,virða alla menn‘. – 1. Pétursbréf 2:17.

Er samkynhneigð meðfædd?

Biblían nefnir ekki hvort samkynhneigð eigi sér líffræðilegar orsakir en segir hins vegar að við höfum öll meðfædda tilhneigingu til að brjóta gegn boðum Guðs. (Rómverjabréfið 7:21-25) En þótt Biblían fjalli ekki um ástæðuna fyrir samkynhneigð bannar hún slíkt líferni.

Að þóknast Guði þrátt fyrir að laðast að sama kyni.

Biblían segir: „Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta.“ (Kólossubréfið 3:5) Til að deyða rangar langanir sem leiða til rangra verka þarf maður að hafa stjórn á hugsun sinni. Ef maður fyllir hugann að staðaldri með uppbyggjandi hugsunum er auðveldara að vísa á bug röngum löngunum. (Filippíbréfið 4:8; Jakobsbréfið 1:14, 15) Þótt þetta sé kannski erfitt í byrjun getur það orðið auðveldara með tímanum. Guð lofar að hjálpa okkur að „endurnýjast í anda og hugsun“. – Efesusbréfið 4:22-24.

 Milljónir gagnkynhneigðra, sem vilja fylgja meginreglum Biblíunnar, eiga líka í baráttu við langanir sínar. Sem dæmi má nefna ógift fólk sem sér ekki fram á að geta gifst en kýs að hafa stjórn á kynhvötinni þrátt fyrir freistingar. Hið sama er að segja um gift fólk sem á maka sem getur ekki stundað kynlíf sökum fötlunar. Þetta fólk getur samt verið hamingjusamt og það getur samkynhneigt fólk líka ef það langar einlæglega til að þóknast Guði. – 5. Mósebók 30:19.