Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | HJÓNABAND

Eigið saman gæðastundir

Eigið saman gæðastundir

 Mörgum hjónum finnst að lítið fari fyrir samskiptum þeirra á milli, jafnvel þó svo að þau séu saman. Hvað veldur?

 Saman en samt aðskilin – hvers vegna?

  •   Þreyta

     „Þegar við hjónin þurfum á samverustund að halda er maðurinn minn annað hvort of þreyttur til þess eða ég er of þreytt. Þegar ég er þreytt þarf lítið til að koma mér úr jafnvægi. Þá er best fyrir okkur að horfa bara á sjónvarpið.“ – Anna.

  •   Truflanir af netinu

     „Samskiptamiðlar og afþreying á netinu getur verið mjög tímafrek. Þú getur verið niðursokkin við það tímunum saman án þess að tala við maka þinn. Þið gætuð rétt eins verið sitt í hvoru herberginu.“ – Katherine.

  •   Ólík áhugamál

     „Þegar maðurinn minn kemur heim úr vinnu er hann oft niðursokkinn í áhugamál sín. Hann verðskuldar að hafa sitt næði vegna þess hve mikið hann vinnur. En ég vildi samt óska þess að við getum varið meiri tíma saman.“ – Jane.

  •   Vinna

     „Tæknin hefur gert mörkin á milli vinnu og fjölskyldulífs óljósari. Ég stend mig oft að því að svara tölvupósti eða símaskilaboðum þegar ég gæti varið tíma með konu minni.“ – Mark.

 Hvað getið þið gert?

  •   Lítið á gæðastundir sem nauðsyn en ekki munað.

     Meginregla í Biblíunni: ,Metið hvað er mikilvægt.‘Filippíbréfið 1:10.

     Til umhugsunar: Sýna verk þín að þú setjir hjónabandið ofar vinnunni og áhugamálum þínum? Fær maki þinn aðeins leifarnar af tíma þínum og athygli?

     Tillaga: Láttu ekki tilviljun ráða för. Taktu frá tíma þar sem ekkert truflar samskiptin við maka þinn.

     „Ég elska það þegar maðurinn minn skipuleggur eitthvað fyrir okkur tvö. Þá finnst mér ég vera sérstök og það fullvissar mig um að hann langi til að vera með mér. Og ég elska hann enn meira fyrir bragðið.“ – Anna.

  •   Lærið að leggja snjalltækin til hliðar.

     Meginregla í Biblíunni: „Öllu er afmörkuð stund.“ – Prédikarinn 3:1.

     Til umhugsunar: Hversu oft gerist það að tilkynning um skilaboð kemur í veg fyrir að þú gefir maka þínum óskipta athygli?

     Tillaga: Reynið að borða saman minnst einu sinni á dag og skiljið símana eftir í öðru herbergi. Matartímar eru kjörin tækifæri til að ræða atburði dagsins.

  •   Útréttið saman og vinnið heimilisstörfin saman þegar tækifæri gefst.

     Meginregla í Biblíunni: „Betri eru tveir en einn því að þeir hafa meira gagn af striti sínu.“ – Prédikarinn 4:9, neðanmáls.

     Til umhugsunar: Hversu oft farið þið hjónin sitt í hvora áttina til að annast ýmis verkefni?

     Tillaga: Myndið frekar teymi til að hjálpa hvort öðru – jafnvel þegar hægt væri að vinna verkið einn.

     „Hvernig væri að líta á dagleg störf eins og innkaup, uppvask, að brjóta saman föt og vinnu í garðinum sem tækifæri til að vera saman?“ – Nina.

  •   Hafið raunhæfar væntingar.

     Meginregla í Biblíunni: „Verið þekkt fyrir að vera sanngjörn.“ – Filippíbréfið 4:5.

     Til umhugsunar: Hvernig getur þú verið sanngjarn í væntingum þínum til maka þíns?

     Tillaga: Ræðið málin og gefið rúm fyrir þarfir hvort annars. Komist að samkomulagi sem þið eru bæði ánægð með og styðjið heilshugar.

     „Maðurinn minn er fullur af orku en vegna heilsu minnar er ég mjög orkulítil. Ég segi honum oft að fara út og gera eitthvað skemmtilegt og að við sjáumst þegar hann kemur til baka. Ég er heima til að fá nauðsynlega hvíld og hann fer út til að fá nauðsynlega hreyfingu. Okkur líður báðum betur þegar við gerum það sem við þörfnumst.“ – Daniela.

 Umræðugrundvöllur

 Þið gætuð byrjað á því að skoða þessar spurningar sitt í hvoru lagi. Síðan skuluð þið ræða saman um svör ykkar.

  •   Hvaða einkunn myndir þú gefa ykkur í því hvað þið verjið miklum tíma saman?

  •   Hvaða hrós getur þú gefið maka þínum á þessu sviði?

  •   Hvaða framför myndir þú vilja sjá?

  •   Hversu oft koma snjalltækin í veg fyrir að þú gefir orðum maka þíns óskipta athygli?

  •   Hvernig getið þið bæði tvö verið sanngjörn í væntingum hvort til annars?

  •   Hvaða breytingar getið þið hvort fyrir sig gert í þessari viku til að hafa meiri tíma saman án truflunar?