Hoppa beint í efnið

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Þegar barn vill binda enda á líf sitt

Þegar barn vill binda enda á líf sitt

 Á síðustu árum hefur sjálfsvígum unglinga fjölgað mikið í sumum löndum. Hvað veldur? Er barnið þitt í hættu?

Í þessari grein

 Börn og sjálfsvíg – hvers vegna ættu foreldrar að taka málið alvarlega?

 Frá árinu 2009 til 2019 fjölgaði framhaldskólanemum með einkenni þunglyndis um 40 prósent í Bandaríkjunum. Tíðni sjálfsvíga jókst einnig á þessu tímabili. a

 „Vandamálin sem unga kynslóðin tekst á við nú á dögum eiga sér ekki hliðstæðu … Þau hafa haft mjög skaðleg áhrif á geðheilsu hennar.“ – Vivek H. Murthy, landlæknir Bandaríkjanna.

 Meginregla Biblíunnar: „Depurð dregur úr manni allan þrótt.“ – Orðskviðirnir 17:22.

 Hvernig veistu hvort barnið þitt sé í hættu?

 Hugleiddu eftirfarandi:

  •   Atburðir. Hefur dóttir b þín orðið fyrir áfalli – verið hafnað, lent í sambandsslitum, gert mistök eða misst ástvin? Ef svo er hefur það kannski haft meiri áhrif á hana en þú gerir þér grein fyrir?

  •   Hegðun. Hefur dóttir þín einangrað sig frá vinum eða fjölskyldu eða misst áhugann á því sem hún var vön að hafa ánægju af? Hefur hún gefið hluti sem eru henni kærir?

  •   Yfirlýsingar. Talar dóttir þín um dauðann eða segir eitthvað í líkingu við: „Það væri betra ef ég væri ekki til.“ Talar hún um að hún vilji ekki vera byrði?

     Auðvitað getur hún hafa sagt eitthvað slíkt í „hugsunarleysi“. (Jobsbók 6:3) En hún gæti líka verið að hrópa á hjálp. Hunsaðu því ekkert sem hún segir um að vilja deyja.

 Ef hún segist hafa hugleitt að taka líf sitt gætirðu spurt: „Hefurðu hugsað um það hvenær eða hvernig þú myndir gera það?“ Svarið hjálpar þér að skilja hversu alvarleg staðan er.

 „Sem foreldrar spyrjum við kannski ekki börnin okkar vegna þess að við erum hrædd við það hverju þau svara. En ef þau segja hvernig þeim líður er þá ekki betra að vita það?“ – Sandra.

 Meginregla Biblíunnar: „Hugsanir mannshjartans eru eins og djúp vötn en hygginn maður dregur þær fram.“ – Orðskviðirnir 20:5.

 Hvað geturðu gert ef barnið þitt er með sjálfsvígshugsanir?

  •   Vertu þolinmóður þegar þú reynir að komast að því hvað dóttir þín hugsar og hvernig henni líður. Byrjaðu á því að hrósa henni fyrir hreinskilnina. Síðan gætirðu sagt: „Mig langar að skilja hvað þú hefur verið að ganga í gegnum. Segðu mér hvað hefur gerst undanfarið.“ Eða: „Geturðu útskýrt fyrir mér hvernig þér líður?“

     Hlustaðu af þolinmæði á það sem hún segir. Ekki segja að tilfinningar hennar séu ekki alvarlegar og ekki flýta þér að koma með lausnir.

     Meginregla Biblíunnar: ‚Vertu fljótur til að heyra, seinn til að tala og seinn til að reiðast.‘ – Jakobsbréfið 1:19.

  •   Gerðu öryggisáætlun. Hjálpaðu barninu þínu að koma auga á og skrifa niður eftirfarandi:

     Viðvörunarmerki. Hvaða aðstæður eða hugsanir eru yfirleitt undanfari sjálfsvígshugsana?

     Það sem hjálpar. Hvaða athafnir hjálpa mest við að minnka streitu og beina hugsunum í aðra átt?

     Þeir sem hjálpa. Hefur barnið þitt stuðningsnet – fólk sem það getur leitað til þegar það þarfnast hjálpar? Þú gætir verið í þeim hópi, einhver annar fullorðinn sem er traustverður, geðlæknir eða sálfræðingur eða einhver í samtökum sem eru sérhæfð í að hjálpa fólki með sjálfsvígshugsanir.

    Gerið öryggisáætlun.

     Meginregla Biblíunnar: „Áform hins iðna leiða til góðs.“ – Orðskviðirnir 21:5.

  •   Vertu árvakur. Fylgstu vel með barninu, jafnvel þegar því virðist líða betur.

     „Þegar sonur minn sagði mér að hann væri ekki lengur með sjálfsvígshugsanir hélt ég að vandamálið væri úr sögunni. Það var mikill misskilningur. Maður getur lent í öðrum erfiðleikum og þá geta sjálfsvígshugsanir komið mjög skyndilega aftur.“ – Daniel.

     Hjálpaðu unglingnum þínum að átta sig á mikilvægri staðreynd varðandi tilfinningar: Þær eru tímabundnar. „Þær eru eins og veðrið,“ segir í bókinni The Whole-Brain Child. „Rigning er raunveruleg og það væri óskynsamlegt að standa úti í úrhellisrigningu og láta eins og það væri ekki rigning. En það væri jafn fjarstæðukennt að gera ráð fyrir að sólin myndi aldrei skína aftur.“

  •   Veittu hughreystingu: Segðu barninu þínu að þú elskir það og að það geti reitt sig á stuðning þinn. Þú gætir bætt við: „Ég mun gera allt sem ég get til að hjálpa þér í gegnum þetta.“

     Meginregla Biblíunnar: „Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ – Orðskviðirnir 17:17.

a Fæstir sem þjást af þunglyndi taka líf sitt. En margir þeirra sem hafa gert það þjáðust af þunglyndi á þeim tíma.

b Þótt við tölum um barn sem dóttur á það sem er rætt í greininni líka við um syni.